Strákarnir eru búnir að vera í sumarfríi síðan í lok júní og voru fyrstu vikuna bara úti að leika í góða veðrinu. Við vorum heldur betur með fullt hús af góðu fólki um mánaðamótin því Dalbúarnir okkar sko Jói og börnin fjögur voru hérna hjá okkur í nokkra daga á meðan það var verið að ganga frá húsinu þeirra. Nú eru sem sagt Jói og Þórunn, Sigurður Ragnar, Hildur Brynja og Heiðrún flutt til Íslands og það verða nú viðbrigði fyrir okkur öll þar sem við erum búin að eyða ansi miklum tíma með þeim. Jóel Kristinn átti ansi erfitt með að kveðja Sigurð Ragnar vin sinn men sådan er det bare.
Þegar fjölskyldan góða var svo farin til Íslands fórum við af stað til Svíþjóðar. Mánudaginn 6. júlí keyrðum við til Grenå (ca. 1 klst) og sigldum til Varberg og keyrðum svo þaðan til Vimmerby þar sem við tjölduðum í 2 nætur. Í Vimmerby heimsóttum við Astrid Lindgren heiminn þar sem við hittum Línu langsokk, Emil í Kattholti og alla hans fjölskyldu, Ronju Ræningjadóttur, Kalla á þakinu, Madditt og Betu og fleiri. Þetta er sem sagt ein risastór leiksýning þar sem maður gengur á milli svæða sem tilheyra hverri sögu. Mjög gaman!
Frá Vimmerby var svo keyrt til Stokkhólm þar sem við mættum beint í afmæliskaffi til Péturs Orra sem varð 8 ára þann dag!!! Strákarnir voru sko alsælir að fá að hitta og leika við frændur sína og svo var auðvitað mest spennandi að fá að hitta litla frænda sem er bara 2 mánaða og algjör hnoðri, ótrúlega sætur og góður!!!!! Við fórum og skoðuðum Stokkhólm eins og alvöru túristar, gengum um borgina og svo auðvitað búðirnar þess á milli sem við fundum leikpláss fyrir drengjahópinn.
Eftir vel heppnaða Stokkhólmsferð keyrðum yfir til Vanern þar sem við tjölduðum á ótrúlega flottu tjaldstæði í eina nótt. Daginn eftir héldum við áfram til Gautaborgar þar sem við vorum svo heppin að vera á saman tíma og Gothia Cup sem er stærsta íþróttamót á Norðurlöndunum og borgin því vægast sagt troðin af unglingsfótboltakrökkum. Við þurftum að byrja á því að keyra á milli tjaldstæða þar sem allt var troðfullt en fengum á endanum pláss á góðu tjaldstæði við ströndina. Í Gautaborg fórum við á mjög skemmtilegt vísindasafn, Universeum þar sem strákarnir fengu að prófa alls konar hluti. Síðan fórum við í Liseberg skemmtigarðinn þar sem við vorum fram á kvöld. Mjög skemmtilegt allt saman þrátt fyrir að það væri ansi troðið alls staðar.
Eftir tvær nætur í Gautaborg var tjaldið tekið upp og brunað niður á höfn og um borð í ferjuna til Fredrikshavn sem er hér á norður Jótlandi. Þangað vorum við komin um hádegi í gær (15. júlí) og tókum smá bíltúr á Skagen þar sem við skoðuðum okkur aðeins um með öllum hinum túristunum áður en við brunuðum heim. Á heimleiðinni lentum við reyndar í einu mesta skýfalli sem við höfum nokkurn tíma séð en við neyddumst til að fara út af hraðbrautinni þar sem það var ekkert hægt að sjá fyrir úrhellinu. En eins og í sönnum útlöndum stytti fljótt upp og eftir smá stund var komin sól og blíða og steikjandi hiti þannig að við komumst fljótt heim og gátum grillað kvöldmatinn heima í rólegheitunum eftir 9 daga vel heppnað ferðalag.
Í dag er svo dagurinn hennar Kristínar Hrefnu sem er 25 ára í dag og heldur því upp á stórafmæli án okkar.... jamms þær eru víst orðnar ansi margar veislurnar sem við erum búin að missa af á Íslandi ... en svona er þetta bara! Innilega til hamingju með daginn Kristín Hrefna!
Bestu sumarkveðjur,