May 31, 2008

Bara að ítreka góða veðrið

Bara svona ef einhver skyldi efast um að hér væri raunverulega alltaf svona gott veður!

http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2008/05/31/solrikasti_manudur_i_danmorku/

Nú í góða veðrinu í dag sem var ennþá betra en síðustu daga þar sem hitastigið fór a.m.k. í 25 gráðurnar (í skugganum og vindinum - ekki á skjólsæla sólpallinum með gashitaranum...) höfðum við það alveg frábært.

Helgi fékk að eyða deginum í tölfræðiprófi og svo á bókasafninu þar sem stutt er í næsta próf!

Við þrjú (fréttaritari og bræðurnir) hófum daginn á fótboltamóti eða eiginlega fótboltamótum. Við vorum mætt galvösk á Viby völlinn kl. 9:00 í morgun þar sem raðað var í þrjú lið. Tvö liðin áttu að keppa á einu móti en eitt annars staðar. Við fórum með hópi til Harlev þar sem við héldum að við ættum að keppa en kl. 10 þegar mótið var að byrja kom í ljós að þarna átti Viby bara að vera með eitt lið en tvö á hinum vellinum í öðrum smábæ ca. 7 km í burtu. Við brunuðum ásamt einum öðrum bíl yfir í næsta bæ þar sem Jóel Kristinn spilaði þrjá leiki af miklum móð. Hann var rosalega duglegur, þeir voru ekki með neina varamenn þannig að hann bara hljóp og hljóp og hljóp og hljóp án þess að fá nokkra pásu því leikirnir voru hver á eftir öðrum þar sem við komum allt of seint á völlinn. Það var (og er) auðvitað sól og blíða hitinn kominn upp í 23° strax í morgun (fór miklu hærra seinni partinn) svo þetta var bara snilldarmorgun hjá okkur þremur!

Í dag eru svo bræðurnir búnir að vera úti að leika, þar af í nokkra klukkutíma í uppblásinni garðsundlaug hjá nágrönnunum þar sem buslað var í lengri tíma.

Pabbanum var svo bjargað af bókasafninu um 16:30..............

Rétt í þessu vorum við svo að koma inn úr garðinum þar sem við grilluðum BBQ ribs og pylsur og borðuðum úti.

Sem sagt það fer væntanlega ekki á milli mála að við höfum það gott,

sendum svo tiltektarkveðjur til ömmu og afa á Selfossi..........

May 29, 2008

Hið ljúfa líf vs. bókasafnslíf!

Jæja, á þriðjudaginn var verkefnahlassinu skilað. Ég sem sagt náði að skrifa síðustu bókstafina í stærsta verkefnið rúmlega 5 að morgni ............ þá var úthaldið búið þannið að síðasti kaflinn í verkefninu var ekki einu sinni lesinn yfir............ hhmmmmmmmmm.
En mér eiginlega bara alveg sama ég er bara svo fegin að mér tókst að klára þetta að gæðin verða bara að koma í ljós. Aðalmálið er að ég náði að skila og uppfylla þar með lágmarksskilyrði til að fá að fara í próf!

Þetta tókst nú samt ekkert án hjálpar.............. ég er nokkuð viss um að það eru ekki allir sem eiga eins góða nágranna og við :-) Á mánudaginn fór Helgi snemma að morgni á bókasafnið enda próf hjá honum á þriðjudagsmorgni, eftir sat ég með þvílíkt magn af óunnum verkefnum og tvo yndislega drengi sem samt þarf nú að sinna. Fljótlega voru nágrannar mínir hér niður í dalnum (sami pabbinn og bjargaði allri síðustu viku og nú mamman á heimilinu líka sem var búin með sín próf) búin að taka yfir umsjá barnanna minna, þar fengu strákarnir að borða í hádegi, kaffi og kvöldmat auk þess sem afgangurinn af kvöldmatnum var sendur hingað til mín þannig að ég fékk líka að borða! (........ samt bara fyrir framan tölvuna þar sem ég mátti engan tíma missa). Strákana fékk ég svo senda hálfsofandi í teppum hingað heim, rétt kyssti þá góða nótt og hélt svo áfram lærdómnum. Þvílíkt þjónusta!

Ég er algerlega búin að komast að því að ég á sko ekki að þetta prófskírteini mitt úr neinum Coco Puffs pakka! Verkefnin töldu sem sagt vel á annað hundrað síður sem er mun meira en lokaönnin þegar kandidatsritgerðinni verður skilað (mastersritgerð). Um morguninn um klukkan 05:30 fékk ég email frá einni sem ég var að vinna eitt verkefnið með en hún var þá að klára að fara yfir leiðréttingar í verkefninu okkar, og um tveimur mínútum seinna fékk ég email frá þeirri sem ég var í samstarfi við í stóra projektinu mínu. Þannig að það var sko ekki bara ég sem vakti alla nóttina til að klára. Þegar ég skilaði verkefnunum mínum svo á skrifstofuna hér í Árósum voru þar nemendur úr öllum deildum að skila. Þegar ég rétti fram verkefnin mín var ég spurð hvort ég væri að skila svona miklu? Ertu í þremur fögum? Nei, nei, svaraði ég bara venjulegu námi. Það besta er að samstarfskonan mín var líka spurð að þessu inn í Kaupmannahöfn þegar hún skilaði en það er víst þannig að allar aðrar deildir þurfa bara að skila ca. eðlilegum blaðsíðufjölda....................
En svo er það náttúrlega Pollýannan í þessu....... spáið í það hvað ég læri miklu meira á þessu en allir hinir....................... hehe.

Helgi er, var og verður á bókasafninu...............

Strákarnir mínir eru búnir að endurheimta móður sína. Á þriðjudaginn þegar ég skilaði biðu þeir nánast við útidyrnar eftir mín og settust bara niður og gáfu endalaust knús. Í gær fórum við svo með tveimur nágrannafjölskyldum okkar í Djurs Sommeraland þar sem börn og fullorðnir léku sér ALLAN daginn. Ég fékk að fara tvisvar í nýja stóra rússíbanan - sem er frábær og öll hin tækin og strákarnir fengu líka að leika sér - hehe! Við þrjú vorum sko öll dauðþreytt en alsæl þegar við sóttum aumingja pabbann á bókasafnið um níuleytið um kvöldið. Hann lærði tölfræði á meðan............

Við þrjú áttum aftur yndislegan dag í dag. Úti var auðvitað sól og blíða (eins og svo oft áður) og við fórum í gönguferð með Sigurði Ragnari vini Jóels, mömmu hans og litlu systur niður á Viby Torv. Það fórum við í búðir og kaffihús........ sem selur hvítvín og Nachos, ökologiskan solberjasafa og muffins............ og allt hitt sem við keyptum ekki! Löbbuðum svo aftur heim mörgum klukkutímum síðar með barnakerrur sem varla sást í fyrir innkaupapokum! Bara gaman, síðan er bara endalaust verið að hygge sig, þangað til að næsta törn tekur við.

Ef einhver hefur sérstakar áhyggjur af því að Helgi fái ekki að gera neitt skemmtilegt á meðan við hin höfum það svona gott - þá vil ég minna á að Helgi klára prófin 12. júní en ég 27. júní þannig að fær þetta allt til baka síðar - hehe

Bestu kveðjur héðan úr hinu ljúúúúfa lífi.......

May 24, 2008

This is my life!!!!!!!

Jæja hér er lífið í Beykiskóginum í "stuttu" máli:

Jóel og Fannar hringsóla hér hálf sjálfala um göturnar í verkfalli leikskólakennaranna sem nú hefur staðið yfir í viku. Ólíkt því sem myndi gerast heima á Íslandi - er ekki nokkur maður að stressa sig yfir þessu! Danirnir taka sér launalaust frí frá vinnu, með bros á vör, pínu svekktir með þetta en laaaang frá því að kvarta, sådan er det bare! Fjölmiðlarnir fjalla nánast ekki neitt um málið, enda ekkert að gerast og "enginn" með áhyggjur af því! Í vikunni var t.d. í Nyhedsavisen meira fjallað um kostnaðinn við lífrænt ræktað fæði inn á leikskólana árið 2010 en það að þessa dagana (vikurnar) væri leikskólinn lokaður og gríðarlegur fjöldi foreldra í vandræðum..........
Nú þetta hefur nú samt allt gengið - auðvitað - strákarnir fengu stærstan hluta af vikunni gott húsaskjól og góða þjónustu hjá pabba vinar síns hér í götunni sem hefur algerlega bjargað okkur fyrir horn!

Helgi er nánast fluttur búferlum á bókasafnið. Prófin eru 5 talsins þar af tvö sem hann hefur miklar áhyggjur af og þarf að leggja allt í sölurnar.............

Skiladagurinn mikli er handan við hornið. Mér reiknast til að ég þurfi að prenta út u.þ.b. 390 bls. til að skila. Þetta reikna ég þannig að samtals blaðsíðufjöldi allra verkefnanna er um 130 síður og ég þarf að skila öllu í 3 eintökum! Ég á ennþá slatta eftir. Þar sem dagarnir nýtast ekki alveg nógu vel, þó svo að þetta séu ótrúlega góðir drengir sem ég á - þá hef ég verið að reyna að skrifa á kvöldin og frameftir en þá er meiri friður hér á heimilinu!

Eeeen ég get samt EKKI skrifað í kvöld!!!!!!!!!!!! Ó NEI !!!!!!!!!!!!!!

Ég get ekki einu sinni almennilega lýst því hvað ég er ótrúlega sátt við Eurovision frammistöðu Íslendinga í ár. Það er ekki nokkur vafi á því að þó svo að Regína og Friðrik vinni ekki keppnina sjálfa þá eru þau nýjir Evrópumeistarar í útgeislun!!!!!!!!! En það er allavegna ljóst það er ekki séns að nokkur læri á þessu heimili í kvöld. Hér verður fylgst með Eurovision og skálað fyrir Regínu!

Jæja this is our life!
Bestu kveðjur,

May 15, 2008

Jú, jú, ennþá sól og blíða eeeeeeeennnn

Nú held ég bara að einhver sé að grínast í okkur og að á mánudaginn sé aftur kominn 1. apríl!

Sko málið er:
1. Helgi er í prófum, og þarf að lesa fyrir þau nánast 24/7 ........ svoleiðis er þetta hjá háskólanemum!
2. Ég er í verkefnavinnu, á núna í þessum töluðu orðum 44 bls eftir (þökk sé frábærri frammistöðu í dag að það er ekki meira - var í vinnustuði). Þessum 44 bls (ásamt því sem er nú þegar búið) þarf að skila fallega frágengnu, yfirlesnu o.s.frv. 27. maí!

Þetta þótti okkur hjónum alveg feikigóður verkefnaskammtur og sáum fram á að reyna að skiptast á með börnin milli kl. 4 og 8 (frá því að leikskólinn er búinn og fram að háttatíma)
eeeeeeeeeeeen
Þá kom skellurinn!!!!
Verkfall. Jamms á mánudaginn næsta (í prófa- og verkefnavikunni miklu) fara leikskólakennarar í Árósum í verkfall! Sérfræðingar telja enga von um lausn þar sem því hefur verið líst yfir að ekki verði gengið að frekari kröfum pædagoganna! Nú og ekkert mun gerast fyrr en í fyrsta lagi 29. maí þegar úrslit eru ljós úr annarri kjaradeilu sem leystist í síðust viku.
Góða skemmtun við - í næstu viku.
Vil samt taka það sérstaklega fram að auðvitað reddast þetta allt hjá okkur - og við styðjum að sjálfsögðu kjarabaráttu pædagoganna...............
Og ef einhver hefur áhuga segja blöðin laun þeirra vera ca. 23.000 dkr (x 16) og hækkunin sem þeim var boðið - en þeir felldu var 2000 - 3000 dkr (x 16 =isl. kr)
Hér sé og verði fjör
Farin að læra - og

May 12, 2008

Ennþá meiri sól og blíða

Jæja - þá er hitinn búinn að ná 26° - sko í forsælu!
Verkefnin eru öll á sínum stað því í svona góðviðri getum við Íslendingar bara ekki setið stanslaust inn og lært! Það þarf að nota veðrið...................
Við höfum meira að segja verið að brenna okkur á því að halda að börnin þurfi alltaf að vera úti að leika í góða veðrinu, en svo kemur bara í ljós að svona um miðjan daginn fá þau bara alveg nóg og verða að fá að koma inn og leika inni "í kuldanum"!

Helgin hefur mjög góð hjá okkur.
Á föstudag hófum við leikinn á fótboltaæfingu með Jóel, auðvitað í brakandi sól og blíðu. Um kvöldið var svo sannkallað stelpudjamm. Þá safnaðist saman hópur af íslenskum "stelpum" sem eiga það sameiginlegt að vera vinkonur Þórunnar hér í götunni og svo var bara fjör fram eftir öllu. Ég fór sem sagt í fyrsta sinn niður í bæ (að kvöldi - um helgi) hér í Árósum. Tímasetningin vekur athygli nú þegar verkefnin bíða, sólin tekur frá manni allan daginn þá allt í einu hlaðast upp pókerkvöld og stelpudjömm............ (það hlýtur að vera langt í 27. maí - sko skiladaginn mikla)

Á laugardagsmorgun fórum við og keyrðum Helga eldsnemma (kl. 10) upp í skóla - á bókasafnið! Nú það var sem sagt sól og blíða og ég og strákarnir byrjuðum á því að fjárfesta í sumarfötum handa strákunum. Hluti af því var reyndar afmælisgjafir. Síðan tók bara við góður dagur í sólinni. Ég var með öll verkefnin tilbúin á borðstofuborðinu en eyddi samt stærri hluta af deginum út í garði og með strákunum. Það er víst þannig að strákarnir þurfa sína athygli og manni verður ekki sérstaklega mikið úr verki einn með þá. Við sóttum svo pabbann seinni partinn og grilluðum lambalæri og borðuðum úti í garði - þannig að húsbóndinn fékk smá sól.

Pinsedagen var dejlig! Við fórum í Djurs Sommerland sem er einn alskemmtilegasti fjölskyldugarðuinn hérna á svæðinu og er af nógu að taka! Þar voru fleiri nágrannar svo þetta var ennþá skemmtilegra fyrir vikið. Strákarnir nutu þess að leika og fara í tækin með vinum sínum. Það var farið í stelpuferð í nýja rússíbanann í Djurs - sem er geeeeðveikur! Strákarnir fengu bjór í laun fyrir að passa börnin á meðan. Annars er garðurinn fullur af skemmtilegheitum og á einum degi notar maður bara hluta af garðinu - en við erum með árskort þarna þannig að við förum bara aftur - og aftur...............

Nú er 2. pinsedag - og frí í leikskólanum. Það styttist í fyrsta prófið hjá Helga, hagfræðipróf úr efni heils vetrar! Hann á því daginn í dag, ég mun sitja við tölvuna og reyna að skrifa eitthvað þess á milli sem ég sinni börnunum og fer í eftirlitsferðir um hverfið - þar sem börnin eru úti að "nota" góða veðrið! Á morgun verða strákarnir svo einir heima - þeir eru að verða vanir - þar sem ég fer til Köben í tíma á þriðjudag og miðvikudag auk þess sem ég verð að vinna með hópnum mínum í stærsta verkefninu mínu.

Annars bara lærdóms- og sólarkveðjur

May 8, 2008

Jóel 6 ára

Nú eru sem sagt liðin 6 ár frá því að Jóel Kristinn Helgason kom í heiminn! Við héldum auðvitað upp á tímamótin - öll fjölskyldan.

Dagurinn hófst með pakkaflóði uppi í rúmi þar sem þeir bræður (hjá Fannar Ingi fékk líka pakka) rifu utan af fyrstu pökkunum. Jóel var í stuttu máli ánægður með allt sem hann fékk. Sagði eftir hvern pakka - skælbrosandi - "þetta var einmitt það sem mig langaði í ".
Nú þar sem pabbinn á heimilinu átti að mæta klukkan 8:00 í skólann ákváðum við hin að taka því aðeins rólegra og labba bara í rólegheitunum. Reyndar ekki að labba því Jóel fékk hlaupahjól í afmælisgjöf og gaf um Fannari gamla hlaupahjólið sitt. Strákarnir fóru því á hlaupahjólum í leikskólann þar sem börnin tókum fagnandi á móti Jóel, búin að vera að teikna myndir og pakka inn fyrir hann. Gaman að því!

Foreldrarnir eyddu svo deginum í undirbúning afmælisveislu - enginn lærdómur í dag (tvöfaldur á morgun í staðinn!!!!). Klukkan tvö var svo afmæli á leikskólanum. Þá mættum við með ís sem Jóel bauð félögum sínum á leikskólanum upp á - ekki slæmt fyrir þau að fá ís í hitanum en það var um 23° í forsælu í dag. Helsta vandamálið var að ísinn bráðnaði svo hratt í sólinni að krakkarnir þurftu öll að flýta sé að borða ísinn.

Íslensku leikfélagar Jóels í götunni komu svo í veislu strax eftir skóla/leikskóla. Það var þvílíkt gaman - allir stilltir og prúðir og skemmtilegir. Það var sjóræningjaþema í afmælinu og Helgi bjó til ótrúlega flotta sjóræningjaköku. Við fórum svo í sjóræningjaratleik um hverfið þar sem krakkarnir stóðu sig ótrúlega vel. Um klukkan 18 komu svo fullorðnafólkið og litlu og stóru börnin í götunni í grill. Við settum bara upp svona langborð út í garði í hitanum og grilluðum pylsur og kjúkling og höfðum það huggulegt - við búum jú í Danmörku þar á maður að hafa það huggulegt.

Frábær dagur
kv.

May 5, 2008

Góðviðrisdagar í Árósum

Jæja þá er draumahelgi að baki
Amma Guðlaug í heimsókn frá miðvikudagskvöldi til sunnudags. Þá var reynt að slaka á, verið úti að leika, farið í bæjarferð með ömmu (sko bara amma og strákarnir), spilaður póker öll kvöld (sko bara amma og fullorðna fólkið), farið á kræmmermarket og lystbådehavnen í þvílíkri sól og blíðu.

Nú er sumarið greinilega komið. Hitastigið komið í 20°, sólin skín núna dag eftir dag, allir að taka smá lit og hárið á strákunum að lýsast aftur.

Nýjasta græjan hans Helga er sími. Það hefur sína kosti og galla eins og alltaf. Gallarnir eru augljóslega allur sá ómældi tími sem fer í að læra á hvern einasta "fídus" í símanum. Kostirnir eru að auðvelt er að taka fínar myndir á nýja símanum og senda þær beint inn á netið. Slóðin hans Helga er: http://www.flickr.com/photos/23533601@N07/. Þarna er einhverjar myndir m.a. frá því um helgina.

Nú eru bara 3 dagar í afmælið hans Jóels Kristins - sumir eru farnir að hlakka til.

Bestu kveðjur