Aug 31, 2007

Umhverfisfræðsla

Til að gefa ykkur mynd af því við hvaða aðstæður við búum þá fer hér á eftir smá fræðsla um okkar nánasta umhverfi! Varúð: Þeir sem ekki hafa áhuga á umhverfisfræðslu ættu að sleppa því að lesa pistilinn til að forðast leiðindi.

Við búum í rólegum botnlanga með nokkrum parhúsum, öllum eins! Draumur Jóels Kristins um að búa í múrsteinahúsi hefur nú ræst.



Þessa mynd tók Helgi Kristinn í kynningarferð sinni um hverfið í júlí, s.s. áður en við fluttum inn

Í okkar annars litla botnlanga búa sex íslenskar fjölskyldur með samtals 13 (bráðum 14) börn á aldrinum 1 - 9 ára - hér sé fjör!


Það vill svo skemmtilega til að fjölskyldurnar eru allar með afbrigðum góðir nágrannar svo við erum hér í góðum málum, vægast sagt.

Auk þess sem börnin leika sér frjáls í götunni er hér hinn fínasti róló, skógur og flottur fótboltavöllur, sem sagt mjög barnvænt. Tilvalið er að skreppa í göngutúr, hjólatúr eða út að hlaupa þar sem engi, akrar, vötn og svoleiðis náttúruperlur eru hér í nánasta nágrenni!
Staðsetningin er mjög góð, passlegur göngutúr eða örstuttur bíltúr á leikskólann en á sömu lóð og og leikskólinn er hverfisbúðin. 10 - 15 mínútna akstur niður í miðbæ Århus og í skólana. Litlu lengra á ströndina og í Bambaskóginn!

Íbúðin er bara ljómandi fín, 3 svefnherbergi og bað á efri hæð en eldhús og stofa niðri. Lítill garður þar sem húsbóndinn grillar á nýja grillinu sínu (okkar) nánast daglega.
Jæja þá eruð þið kannski einhverju fróðari um okkar nánasta umhverfi. Miklu betra er samt bara að kíkja bara í heimsókn og sjá með eigin augum!
Bestu kveðjur,

Aug 29, 2007

Skólapláss í höfn!

Jæja, þá er húsmóðirin á heimilinu loksins búin að fá inngöngu í DPU í mastersnám í kennslufræðum með áherslu á stærðfræði.
Bréfið kom nú ekki alveg beina leið hingað í hús, var sent úr skólanum en pósturinn endursendi þeim bréfið aftur til að kvelja húsmóðurina aðeins lengur með biðinni en í dag þóknaðist þeim að afhenda bréfið.
Það er svo skemmtilegt frá því að segja að í bréfinu koma fram alls konar dagsetningar. Láta vita af þessu fyrir 13. ágúst og hinu fyrir 15. ágúst. Svo var ég boðin velkomin á nýnemakynningu hér í Árósum 21. - 23. ágúst en það er víst flókið að fara eftir öllu þessu þegar maður fær bréfið 29. ágúst.
Allavegana, fer til Kaupmannahafnar á kynningu á mánudaginn og á svo að fara í tvo fyrirlestra, þar sem fögin, námsmatið, og fyrirkomulag annarinnar er kynnt á þriðjudag. Það er bara einn galli að annar tíminn er frá 10 - 14 hér í Árósum en hinn kl. 13 - 17 í Kaupmannahöfn! Gæti orðið nokkuð flókið!
Bestu kveðjur,
Lóa Björk

Aug 28, 2007

Heimildamyndir

Þessa sebrahesta hittum við í Löveparken.
Hérna erum við í Bambaskóginum. Bambarnir eru alveg vitlausir í gulrætur
Fannar Ingi var fljótur að ná rússíbanatöktunum. Myndin er úr Djurs Sommerland.
Jóel Kristinn er búinn að kaupa sér bíl....... Þarna er hann að koma af ströndinni hér í Árósum.
Þessi vinur okkar á heima í Álaborg, fórum að heimsækja hann um daginn.
Hver veit nema við skellum inn fleiri myndum fljótlega,
Bestu kveðjur,

Aug 27, 2007

Vika 2 - sögustund

Þegar vika tvö hófst vorum við komin með búslóðina okkar en þar sem veðrið var svooo gott gekk nú hægt að koma innihaldi kassanna á rétta staði. Við ákváðum að vera ekkert að stressa okkur á þessu og skruppum frekar á ströndina og svoleiðis lúxuslíf sem maður er ekki vanur heima á Íslandi.
Einn daginn skruppum við svo til Þýskalands í innkaupaferð! Jamms, við höfðum heyrt svo ótrúlegar sögur um hvað hægt væri að versla ódýran bjór, Coke light og fleiri nauðsynjavörur á landamærunum að við urðum bara að prófa sjálf. Við sem sagt keyrðum 1 1/2 - 2 tíma til Flensburg þar sem við eyddum deginum á frábærri strönd og versluðum svo ca. hálft skott á stórum VW Touran af "nauðsynjavörum" fyrir skid og ingenting. Ef einhver hefur áhuga á nánari útlistingum á innihaldi og verði þá er bara að senda okkur mail - maður veit aldrei nema viðkvæmar sálir eða gamlir nemendur lesi bloggið!!!!
Á sunnudegi skruppum við Álaborgar í dýragarðinn sem er þar. Við erum nefnilega með árskort í dýragarðana og maður verður nú að nota það........ Garðurinn alveg frábær allt öðruvísi en Löveparken sem við fórum í vikunni á undan. Við t.d. fylgdumst með tígrisdýri éta kjötstykki bara í u.þ.b tveggja metra fjarlægð en það var alveg magnað. Aparnir og fílarnir í garðinum voru líka ótrúlega skemmtilegir að fylgjast með........ og allt hitt líka, auðvitað.
Hápunktur viku 2 var nú samt Legoland. Jóel Kristinn og Fannar Ingi voru í skýjunum allan daginn, skemmtu sér frábærlega. Við nýttum hverja mínútu í garðinum og vorum með þeim allra síðustu út úr garðinum kl. 20 um kvöldið. Strákarnir fara báðir í öll tæki sem ekki eru með hæðatakmarkanir. Fannar Ingi er meira að segja farinn að skella höndunum upp í loft í rússibönunum - bara svona eins og vanur maður og Jóel Kristinn er búinn að fara í einn stærsta rússíbanann í Legolandi.
Nú eftir tveggja vikna dvöl var svo kominn tími til að skila bílaleigubílnum góða sem við höfðum notað alveg ótrúlega vel þessa daga. Gamla góða Mazdan samt væntanleg í viku 3.
Bestu kveðjur

Aug 26, 2007

Skólamál

Skólamál okkar fjölskyldunnar hér í DK eru alveg sér kapituli út af fyrir sig.
Jóel Kristinn og Fannar Ingi eru nú reyndar í góðum málum. Fengu pláss á Gröften frá 16. ágúst og þar er nú aldeilis fjör! Hmmm.... Þetta er nú ekkert eins og á Grænatúni, ég ætla ekkert að segja að þetta sé neitt verra en bara dálítið mikið öðruvísi!!! Tvö nestisbox fyrir hvorn dreng, fimm daga vikunnar eða u.þ.b. 44 nestisbox á mánuði. Maður skyldi nú ætla að við ættum að vera orðin nokkuð fær í nestispökkum eftir árin hér!!!!!!! Nú, á leikskólanum þrammar fólk um á skónum inn og út, hvernig sem viðrar en samt eru börnin á sokkunum innandyra - við erum alveg að fara að kaupa inniskó! Á fyrsta degi var pedagóginn (leikskólakennarinn) að útskýra fyrir okkur gang mála og spurðum við m.a. út í nestismálin. Jú svona yfir sumarið þá borða börnin nestið svona u.þ.b þegar þau eru svöng! Jú, jú það er einmitt það, okkur varð bara litið á Fannar Inga mállausan á leikskóla í Danmörku takandi ákvörðun um það að nú væri einmitt rétti tíminn til að fá sér hádegismat! Hehe, en þó að hlutirnir séu öðruvísi en við erum vön þá virkar þetta allt einhvern veginn og börnin, sem og starfsfólkið er bara glatt og ánægt. Fannar Ingi hefur nú samt staðið fyrir gráti og mótmælum alla morgnana en það er að ganga yfir....... gekk til dæmis nokkuð vel á föstudaginn.
Nú Helgi Kristinn sem byrjaði á því að fá neitun í skólann sinn á forsendum sem ekki stóðust hefur sannað að fall er fararheill því hann endaði með aðgang að þremur skólum og byrjar í Handelhöjskolen á mánudag. Þá eru fjórir kynningardagar þar sem nemendur eru beðnir um að taka frá tímann frá 09:00 - 02:00 eða 17 klst á sólarhring í 4 daga! Það á nú alveg eftir að koma í ljós hvernig það þróast. Helgi er einnig að vinna í því að fá einingarnar úr HA metnar í nýja skólanum. Það á eftir að koma í ljós hvernig það fer þar sem einingfjöldi á bak við sambærilega kúrsa passar ekki alltaf nógu vel saman.
Lóa Björk er enn sem komið er bara á sólarhringsvakt við póstkassa heimilisins. Upphaflega kom ekkert svar frá skólanum, sem við töldum vera vegna flutninganna. Þegar vika var liðin frá því að svar átti að berast sendum við Email til skólans en því var heldur ekki svarað. Þegar samband náðist við skólann í síma fannst bara engin Lóa Björk á skrá! Þar sem umsóknin var send í ábyrgðarpósti neiddist konan í símanum til að láta undan og fara að leita að umsókninni sem þeim barst 22. júní sl. Þá kom svar um að það vantaði eitthvað Exam-paper til að hægt væri að taka umsóknina fyrir og þar sem að í Kennaraháskólanum er endalaus hjálpsemi var gengið í málin og fékk ég umbeðið plagg sent frá KHÍ hið snarasta og sendi það áfram til skólans hér úti sl. miðvikudag. Nú er bara beðið við póstkassann þar sem fyrirspurnum um inngöngu er ekki svara í gegnum síma eða tölvupóst......... ég verð nú að viðurkenna að áhuginn á skólanum er ekkert í hámarki í augnablikinu en þetta er vonandi bara tilfallandi hmmmmmm.
Jæja nóg um skólamál fjölskyldunnar
Bestu kveðjur

Fyrstu dagarnir

Við lentum hér í DK þann 1. ágúst. Til að byrja með vorum við bara með smávegis af fötum, sængur, svefnsófa og eina dýnu en við brunuðum beint í IKEA fyrsta daginn til að redda okkur einhverju til að sofa á. Þetta var nú ekkert mál því um leið og við mættum á svæðið tóku á móti okkur nýju nágrannarnir sem allir voru boðnir og búnir til að lána það sem til þurfti.
Fyrstu dagana vorum við bara eins og hinir túristarnir. Þar sem við fengum endalausa sól og blíðu fyrstu dagana fórum við á ströndina, í Bambaskóginn, Löveparken sem er æðislegur dýragarður og fleira skemmtilegt.
Við skelltum okkur líka til Skanderborg í heimsókn til Hálfdáns og Erlu sem búa þar í frábæru húsi í algeru krummaskuði, ótrúlega gaman að koma þangað. Saman skelltum við okkur svo í Djurs sommerland sem er einn af skemmtigörðunum hérna á Jótlandi. Ekki hægt að kvarta undan lífinu þessa dagana!!!
Gáminn með búslóðinni og öllu hinu sem ekki tókst að henda heima á Íslandi fengum við svo á sjötta degi. Það var nú ansi gott að fá nýju rúmin okkar og geta farið að elda og lifa svona smá heimilislífi. En ótrúlegt hvað við eigum mikið af drasli! Sem betur fer er geymsluloft yfir efri hæðinni hérna, annars veit ég ekki hvernig við færum að. Samt vil ég taka það fram að við fórum 7 ferðir á troðfullum station-bílnum okkar á Sorpu og bættum svo við 8. ferðinni á sendiferðabíl þannig að ég skil ekki magnið sem kom með gámnum hingað til DK.
Jæja, þetta var nú styttri útgáfan af fyrstu vikunni okkar.
Frekari upplýsingar um gang mála væntanlegar mjöööög fljótlega.
Bestu kveðjur

Aug 25, 2007

Nýtt blogg

Jæja jæja jæja,
Við höfum lofað mörgum að það verði hægt að fá einhverjar fréttir af okkur fjölskyldunni hér á netinu. Nú þegar þriggja vikna bið eftir internetinu er lokið (já það tók danska tæknimanninn þrjár vikur að mæta á svæðið til að ýta á ON og hleypa okkur þar með inn á netið!) og fjölskyldan komin í samband við umheiminn er best að standa við gefin loforð og setja upp smá síðu.

Á næstu dögum eru væntanlegar fréttir af fyrstu vikunum okkar hér á Íslendingaslóðum í Beykiskóginum.

Bestu kveðjur,
Fjölskyldan