Dec 25, 2008

Gleðileg jól!

Við fjölskyldan sendum ykkur öllum okkar bestu óskir um gleðileg jól!

Við höfum það mjög gott hér í Danaveldinu.  Jólaundirbúningurinn gekk vel og miðað við það sem við erum vön frá fyrri árum vorum við bara tímanlega með þetta allt saman. Á mánudaginn redduðum við síðustu pökkunum og sóttum hamborgarahrygginn sem var pantaður hjá slátraranum til að fá hann með beini. Á Þorláksmessu var jólagjafarúnturinn farinn. Í stað þess að keyra frá Kópavogi um alla Reykjavík og út á Seltjarnarnes með viðkomu í Mosfellsdal og enda á Selfossi var bara farið á einn stað - til Gedved!

Um kaffileytið á Þorláksmessu, eftir jólagjafarúntinn var komið að því að versla það sem vantaði í matinn.  Við hálf kviðum því að fara með drengina í verslunarleiðangur um kaffileytið á Þorláksmessu, áttum auðvitað von á lööööngum röðum á kassana og troðningi í búðinni en létum okkur nú hafa það og stefndum í Bilka.  Þegar þangað var komið var óvenju mikið úrval af bílastæðum og einstaklega rólegt í búðinni og engin röð á kassana.  Danir eru sem sagt ekki að versla svona á síðustu stundu eftir kaffi á Þorláksmessu!!!!  

Aðfangadagurinn hófst snemma (ca. kl. 06:15) hér á heimilinu eins og allir síðustu 13 dagarnir fyrir jól!  Þrátt fyrir að hafa fengið að vaka lengi við að skreyta jólatréð og svoleiðis skemmtilegheit vöknuðu drengirnir eldsnemma til að kíkja á jólapakkann frá síðasta jólasveininum!  Dagurinn gekk samt ótrúlega vel og voru þeir bræður ótrúlega góðir miðað við að sitja í stofunni með fullt af pökkum undir jólatrénu sem mátti ekki opna fyrr en klukkan sex!  

Við ákváðum að hafa jólamatinn með hefðbundnu sniði, hamborgarahryggur með brúnuðum kartöflum og rauðvínssósu og sveppirnir góðu á sínum stað.  Þrátt fyrir að allir hafi borðað á sig gat......... og rúmlega það...... sá varla högg á vatni, magnið hefði dugað fyrir a.m.k. tvær fjölskyldur í viðbót, en það er bara fínt - við höfum nægan tíma þessi jólin til að vera heima í rólegheitunum og borða afgangana.  

Pakkamaraþonið var mikil skemmtun hér á heimilinu.  Jóel Kristinn las á alla pakkana og þeir bræður voru þvílíkt glaðir með innihaldið.  Það var alveg sama hvort pakkarnir voru mjúkir eða harðir, stórir eða litlir þeir voru alltaf jafn ánægðir með innihaldið.  "Mig hefur alltaf langað í svona" "Mig langaði einmitt í svona vettlinga" .............. o.s.frv.  Gaman að því!  Foreldrar þeirra voru að sjálfsögðu einnig mjög ánægð með allt sitt.  Við þökkum fyrir okkur!

Eftir pakkamaraþonið spiluðum við í smá stund fjölskyldan en svo voru drengirnir orðnir úrvinda af þreytu og vildu komast í rúmið......... í glænýjum náttfötum að sjálfsögðu.

Núna erum við fjölskyldan bara í rólegheitunum á jóladagsmorgni.  Hugsum auðvitað heim í jólaboðin en í staðinn höldum við lítið jólaboð seinni partinn þegar Lilja, Jón Freyr og Benta Vala koma frá Gedved í jólahangikjötið.

Með jólakveðju,

Dec 17, 2008

Tilkynning um heimkomu!

Við erum búin að kaupa flugmiða til Íslands!!!!

Komum seinnipartinn föstudaginn 6. febrúar og förum aftur snemma morguns mánudaginn 16. febrúar!

Bestu kveðjur,

Dec 16, 2008

...og hratt líður desember...

Fannar Ingi jólaklipptur
Jóel Kristinn með jólaklippinguna sína

Tíminn líður hratt nú á gervihnattaöld, hraðar sérhvern dag, hraðar sérhvert kvöld..... sérstaklega nú þegar nóg er að gera!

Smám saman tekst okkur að undirbúa komu jólanna.  Við höfum auðvitað aldrei áður þurft að hugsa fyrir því að eiga eitthvað í matinn um jólinn þar sem við höfum alltaf verið stanslaust í jólaboðum hjá öðrum og stundum tveimur á dag!  .... en með kokkamenntaðan mann á heimilinu hefst þetta nú.  Ég reyni svo bara að vera dugleg að leggja á borðið! (hehe)

Drengirnir fóru í jólaklippinguna í gær. Nú var sko engin kreppuklipping heldur bara alvöru töffaraklipping á íslensku stofunni niðrí bæ!  Myndir af drengjunum nýklipptum fylgja hér með.

Annars er allt við það sama, búið að fara á julehygge í leikskólanum þar sem dansað var í kringum jólatréð og gengin Lúsíu-ganga.  Þeir eru ekkert að stressa sig á því Danirnir hvort börnin eru með eða ekki í svona viðburðum og nú voru það bara 5 börn sem gengu (þar með yfir 15 sem gengu ekki). Fannar Ingi vildi ekki klæða sig í englabúning og ganga undir fögrum Lúsíusöngnum þar sem hann sagðist ekki kunna það......... þar með var það ákveðið!  

Ritgerðarskrif og lærdómur eru bara á sínum stað.  Við reynum að vera dugleg, gengur misvel svona þegar jólin nálgast en þetta reddast vonandi,

Bestu kveðjur,

Dec 8, 2008

Rólegur desember

Hér er allt í rólegheitunum og í raun ekkert að frétta og þar með ekkert merkilegt til að skrifa um!

Við fórum reyndar í jólaföndur í skólann hans Jóels á fimmtudag þar sem við föndruðum músastiga og fléttuðum hjörtu auk þess sem við bjuggum til kertaskreytingar og fengum eplaskífur og jólaglögg. Mjög skemmtilegt.

Annars er ég húsmóðirin rétt að jafna mig eftir heila viku með hita og nokkra daga af stanslausum hósta sem hefur valdið því að ég hef bara verið hálfgerður aumingi. Helgi Kristinn hefur þvert á móti staðið sig með prýði og vann og vann um síðustu helgi. Á föstudaginn frá kl. 18 - 04:15 og svo strax aftur á laugardag frá 12 - 18. Hann var að þjóna í fínum veislum, bera fram mat, dæla bjór og svoleiðis. Kemur sér vel að fá nokkrar danskar krónur svona rétt fyrir jólin.

Það var nú reyndar annað stórafmæli í fjölskyldunni því hann Jóel bróðir eða Jóel frændi (fer eftir því hver talar) varð 25 ára þann 6. desember. Við fjölskyldan sendum honum að sjálfsögðu hamingjuóskir með stórafmælið.

Annars bara það sama verið að læra og læra og drengirnir að leika og leika...

Bestu kveðjur

Dec 3, 2008

Til hamingju með afmælið!

Í dag er einn af þessum dögum þar sem það er pínu erfitt að vera ekki heima á Íslandi. Í dag á nefnilega mamman, tengdamamman og amman Anna Þóra 60 ára afmæli sem er sko bara ekkert smá!!
Við fjölskyldan óskum henni innilega til hamingju með afmælið!!!

Einn óvæntur kostur við að búa svona í útlöndum er að þá neyðist maður til að vera snemma í því með jólagjafirnar. Við erum sem sagt búin að afgreiða allar jólagjafir (nema hér inn á heimilið) og senda til Íslands. Lokaskiladagur á jólapökkunum til Íslands með skipinu er í dag sem er frábært fyrir fjölskyldu sem er vön að vera á síðustu stundu, korter í jól!

Nú er bara að setja í fluggírinn í lærdómnum. Helgi þarf að byrja að huga að prófinu sem hann fer í 3. janúar svo hann geti nú tekið sér eitthvað frí yfir jólahátíðina og ég þarf heldur betur að vera dugleg í ritgerðarskrifum. 2. janúar skila ég verkefnamöppu með fjórum verkefnum þar sem ég á eftir að gera eitt verkefnið og lagfæra hin, svo skila ég 40 blaðsíðna projekti um námsmat í stærðfræði (rúmlega hálfnuð með það), Rannsóknarritgerð í International and Comparative Education þar á ég eftir ca. 6 bls og svo að lokum prófverkefni í sama fagi þetta er víst alveg nóg fyrir desembermánuð!

Fannar Ingi og Jóel Kristinn eru alltaf jafn hressir borða nú súkkulaði í morgunmat á hverjum degi (jóladagatalið) og bíða spenntir eftir jólunum. Jóel talar ennþá eins og hann verði heima á Íslandi um jólinn en sættir sig nú samt alveg við að skreppa bara heim í vetrarfríinu í fyrri hluta febrúar. Fannar Ingi er bara alsæll, fagnar nú að hverjum morgni því að mega fara á leikskólann (eftir að hafa verið heima alla síðustu viku).

Bestu kveðjur

Nov 29, 2008

Óvenju róleg vika!

Fyrsta vikan eftir Afmælið hefur svo sannarlega liðið hægt og rólega. Það tók nú flesta fullorðna í götunni a.m.k. fram á miðvikudag að ná nokkuð eðlilegri heilsu aftur eftir glæsilega frammistöðu í afmælinu. Íslendingar í "útlöndum" kunna sko alveg að skemmta sér og eru ekkert að láta gestgjafana þurfa að bera afganga af mat og drykk heim - virkilega tillitsamt fólk, Íslendingar í Árósum.

Fannar Ingi er búin að vera næstum því lasinn alla vikuna - fékk ekki að fara einn dag á leikskólann en varð samt aldrei almennilega veikur. Með góðan skammt af kvefi, eitt kvöld með verk í eyrunum eins og þegar hann var ungabarn og svo 5 - 6 kommur svona öðru hverju. Greyið var auðvitað hundleitt og t.d. á fimmtudag skreið hann skyndilega inn rúm og hágrét yfir örlögum sínum að þurfa að vera heima á meðan allir hinir voru að leika á leikskólanum! Það sem reddaði málunum var að hann fékk nokkur púsl í afmælisgjöf og núna er hann orðinn ansi leikinn með púslin sín enda margbúið að púsla hvert þeirra!

Jóel Kristinn hefur bara haft það gott í skólanum að venju. Fór í bæjarferðina sína með SFO-inu á mánudag og keypti nokkrar jólagjafir fyrir 30 krónur auk þess að vera boðið í pasta á veitingastað. Það hefur nú örugglega verið dálítið krúttað að sjá fimm, sex ára kríli í bænum að velja jólagjafir fyrir fjölskylduna. Á þriðjudag var svo julekagebagedag í skólanum hans Jóels. Þangað mættu foreldrar, börn og systkini úr bekknum hans Jóels. Við bökuðum piparkökur og súkkulaðibitakökur og tókst að innlifa okkur í danska jólamenningu með æbleskiver og soda eller öl! Það er hægt að sjá einhverjar myndir sem Helgi tók með símanum símum hér: http://share.ovi.com/hkh

Á föstudagskvöld var svo svona næstum því Þorláksmessa í miðbænum þegar það var miðnæturopnun í miðbænum og Julemanden kom til Árósa með tilheyrandi bílalest, lúðrablæstri og skrúðgöngu. Við vorum auðvitað mætt öll fjölskyldan með Sigurð Ragnar vin hans Jóels og svo Bentu Völu og fjölskyldu. Í bænum hittum við svo nánast alla hina Íslendingana úr götunni, Íslendinga úr skólanum hans Helga ........ svona er þetta hérna í Íslendingasamfélaginu.

Benta Vala gisti svo hjá okkur svo foreldrarnir gætu aðeins tekið þátt í skemmtanalífinu í Horsens. Það er sko bara fjör þegar hún er mætt og erfitt að láta sér leiðast. Hún er svo kraftmikil að "stóru" frændur hennar þurfa að hafa sig alla við og heilmikil svona "valdabarátta" á milli Fannars Inga og Bentu Völu. Það þyrfti líka að skrá sérstaklega niður það sem hún segir og gefa út sem brandarabók einhver jólin.... það sem veltur upp úr henni!

Nú þar sem það er sko algerlega miklu meira en nóg að gera í skólanum og Fannar var veikur heima alla vikuna (sem hjálpar víst lítið til í náminu...) þá hefur mér tekist að ná mér í hita og aumingjaskap! Það er nú samt bara tilfallandi og ég vakna án efa eldhress í fyrramálið!

Helgi mun síðan fara um næstu helgi og reyna að fá svolítið af dönskum krónum en honum hefur verið boðið tvö þjónadjobb í fínum veislum í gegnum vikar-skrifstofuna. Hann ætlar að vinna frá 18 - 04 á föstudag og svo strax aftur frá 12 - 18 á laugardag. Þetta er samt bara frábært því hver dönsk króna sem við fáum hér í Danmörku sparar svo margar íslenskar krónur á íslenska reikningnum okkar. Það getur verið mjög fróðlegt að reikna svona úr dönskum yfir í íslenskar. Þegar við fluttum hingað fyrir ári fengu danskir kennarar t.d rúmlega 300 þús íslenskar krónur en í dag líklega yfir 700 þús íslenskar. Samt hafa þeir ekki hækkað í launum og fá bara að það sama fyrir peninginn!!! - Jæja - það má hafa gaman af öllu!!

Bestu kveðjur í bili,

Nov 21, 2008

Blogg fyrir Þórunni!!!!!!!

Já nú eru að renna upp svona einskonar áramót hér í Bögeskovparken. Síðustu mánuði hefur allt snúist um "fyrir" og "eftir" afmæli............ sko afmælið hennar Þórunnar. Þórunn (þessi sama og tekur að sér að passa börnin mín þess á milli sem hún hjálpar mér með hvítvínið...) verður sko 30 ára á sunnudaginn- og kemst þar með á fertugsaldurinn en á laugardagskvöldið verður partý aldarinnar haldið í veislusal hérna í götunni. Þar sem Íslendingarnir í götunni eru allir búnir að redda sér barnapössun - sem gerist nánast aldrei - hefur verið mikil tilhlökkun í götunni og "allt" snúist um hvað þarf að klárast fyrir afmæli og hvað tekur við eftir afmæli. Þar á meðal hafa Íslendingarir hópast í ræktina flesta morgna vikunnar til að komast í afmæliskjólana (sko stelpurnar) og strákarnir verðið að safna vöðvum til að vera færir um að sýna sig og sjá aðra .....

Þetta er líka svolítið blendin tilfinning fyrir Þórunni, því hún heldur að lífið sé bara nánast búið þegar maður kemst á fertugsaldurinn, ég hef ekkert verið að leiðrétta þann misskilning ... hún kemst bara að þessu á sunnudaginn!

Í tilefni afmælisins fá Fannar Ingi og Jóel Kristinn að gista í Gedved, sem verður öruggleg geðveikt (hehe - aulabrandari....) Þar verða þeir í góðum félagsskap Bentu Völu frænku sinnar og dýragarðsins hennar!

Annars að öðru en afmælisveislufréttum, Helgi fékk sitt fyrsta vikar-job í gær! Það var hringt í hann frá vikar-þjónustunni og hann beðinn um að mæta einn tveir og bingó í eitthvað tölvufyrirtæki í Skejby þar sem hann leysti af í eldhúsinu og eldaði kalkúnarétt fyrir 120 netnörda - og fór létt með það! Við vonum bara að hann fái einhver fleiri svona vikar -störf fyrir jól þar sem þar sem dönsku launin koma sér einstaklega vel þessa dagana.

Allt við það sama hjá okkur hinum - höfum það gott og öllum líður vel,

Jæja til hamingju með daginn á sunnudaginn Þórunn mín!

Jæja bestu kveðjur þangað til eftir afmæli,

Nov 13, 2008

Afmæliskveðjur heim og smá fréttir

Áður en þið fáið nokkuð að vita um gang mála hér í Bögeskovparken þá viljum við byrja á því að senda ömmu Stínu á Seltjarnarnesinu kæmpe afmæliskveðjur frá okkur öllum! Hún á sem sagt afmæli í dag og við fengum okkur bara soðinn íslenskan fisk og kartöflur í matinn (það flokkast sko undir meiriháttar veislumat á þessu heimili!). Við hefðum auðvitað verið til í eitthvað gott á Unnarbrautinni en það býður bara betri tíma...

Stóru fréttirnar eru samt þær að við fjölskyldan verðum bara hér í Danaveldi um jólin! Það verður örugglega mjög skrítið og bæði erfitt og gaman. Við erum mjög vanaföst, búin að vera síðustu 14 jól í Lambhaganum og verðum því í fyrsta skipti bara við fjölskyldan á aðfangadagskvöld. Á jóladag höfum við alltaf fengið tvær hangikjötsveislur og svo farið í ótal jólaboð dagana á eftir.
Við verðum nú samt ekkert alein í allri Danmörku, Lilja og fjölskylda verða í Gedved þannig að við getum nú haldið a.m.k. eitt fjölskylduboð og svo verða allar íslensku fjölskyldurnar í götunni heima um jólin þannig að þetta getur bara orðið gaman.
Ástæðan fyrir þessu er nú fyrst og fremst tekin til að reyna að standa okkur sem best í náminu. Helgi fer í mikilvægt próf 3. janúar og ég á að skila öllum mínum verkefnum 2. janúar.

Það er eiginlega lítið annað að frétta! Allir glaðir og sælir í sínu. Þeir fullorðnu að reyna að sinna náminu eftir allra bestu getu. Ekki veitir af þar sem nóg er af verkefnum. Ég á t.d. að skila einu stærðfræðiverkefni nk. þriðjudag og svo öðru þremur vikum síðar. Fyrir 2. janúar á ég eftir að skrifa eitt projekt (að hámarki 40 síður) stefni á svona 33 - 35 síður þar og er búin með 4 blaðsíður. Síðan er ein 12 - 14 síðna rannsóknar ritgerð og önnur 5 síðna rannsóknargreining í öðru fagi að ógleymdum öllum lestrinum fyrir hvern tíma + dæmin sem maður verður víst að reikna fyrir tímana. Já - það þarf víst alveg að hafa fyrir þessu öllu saman!!!!

Bestu kveðjur,

Nov 5, 2008

Fyrsta foreldraviðtal skólastráksins Jóels

Jæja á meðan húsbóndinn skellti sér í Boldspil med Fannar Inga skellti húsmóðirin sér upp í næsta strætisvagn (svona að dönskum sið) og niðrí Viby skole (sem er skólinn hans Jóels) þar sem boðað var til foreldraviðtals. Nú það er skemmst frá að segja að viðtalið gekk auðvitað rosa vel. Fyrsta setning kennarans var einfaldlega at "det er en pragtful dreng vi har" (sem er gott - ef einhver skyldi ekki skilja dönsku - hehe). Nú drengurinn er sem sagt læs á dönsku sem er mjög gott því það hefur enginn kennt honum að lesa á dönsku en einhvern veginn hefur hann bara lært dönsku hljóðin og bara les........... sem er gott!
Hann er líka búinn að taka þroskapróf sem er tekið af sálfræðingi og talpædagog og kemur út sem bráðduglegur og glaður drengur. Kennarinn er bara ánægður með dönskuna hans sem virðist ekki há honum svona í daglegum samskiptum. Svo vitum við foreldrarnir að hann er alsæll í skólanum og það skiptir auðvitað laaaaang mestu máli.

Nú en á meðan á þessu stóð "týndist" Jóel ... svona eiginlega! Hann átti að vera kominn heim með leigubílnum um 15:40-45 en rétt áður en ég þurfti að fara út til að ná strætó var hringt úr SFO-inu þar sem enginn bíll var kominn til að sækja hann. Jóel var búinn að fá leyfi til að fara til Sigurðar vinar síns á meðan ég væri í viðtalinu og ætlaði mamma hans Sigurðar að taka á móti honum fyrst leigubílnum seinkaði. Nú hélt ég bara af stað í rólegheitunum og í viðtalið en þá byrjaði síminn að hringja. Jóel hafði bara alls ekkert skilað sér heim og vonlaust var að ná sambandi við SFO-ið eða leigubílastöðina. Pabbinn áhyggjufullur í íþróttaskólanum, Þórunn nágranni hringjandi út um allt að reyna að hafa upp á drengnum og svo bættist við að kennarinn hans fór að reyna að hringja fyrir mig líka - en enginn náði sambandi við neinn sem vissi neitt!!! Nú eftir viðtalið rölti ég yfir í SFO- ið og fann drenginn þar og klukkan orðin 16:45 (hann á að vera sóttur 15:30). Þar var greyið búinn að bíða í klukkutíma og korter í útifötunum með húfuna á hausnum - öll önnur börn farin heim og Ove, pædagoginn í SFO-inu hans einn eftir með honum. Það besta var að leigubílstjórinn mætti svo loksins á sama tíma og ég...

Annars er hér allt í föstum skorðum, verkefnafjallið virðist nánast óyfirstíganlegt en að fenginni reynslu kemur þetta til með að reddast............ vonandi.

Bestu kveðjur,

Oct 30, 2008

Hér eru allir í fínu formi

Eins og alltaf þá höfum við það gott hér fjölskyldan. Um síðustu helgi komu amma og afi á Selfossi til okkar og dekruðu við börn og fullorðna. Við fengum íslenskt lambalæri, íslenska ýsu, flatkökur og hangikjöt og svo auðvitað súkkulaðirúsínur og erum því voða íslensk í matarræðinu þessa dagana - og auðvitað þvílíkt ánægð með það!



Strákarnir fengu endalausa þjónustu hjá ömmu sinni sem las, spilaði og pússlaði eftir pöntunum - þvílíkt dekur!
Hápunktur helgarinnar var nú samt 3 daga afmælisveisla Fannars Inga. Á sunnudaginn hófst partýið með kaffiboði fyrir alla Íslendingana í götunni (og auðvitað Gedved-fjölskylduna). Á mánudag var afmælisdagurinn sjálfur og á þriðjudag var haldið uppá daginn á leikskólanum þar sem pabbinn mætti með græna drekaköku handa öllum börnunum á leikskólanum - það er sko alveg haft fyrir hlutunum!

En sem sagt vel heppnuð afmælishelgi með góðum gestum, veitingum og ánægðu afmælisbarni.

Nú tekur við lærdómsátak. Það er víst nóg af verkefnum sem bíða þess að vera kláruð.... Það kemur ekkert annað til greina en að nýta nóvember eins vel og hægt er til að eiga möguleika á að eiga smá tíma til jólaundirbúnings í desember.

Annars bara bestu kveðjur,

Oct 16, 2008

Haustfrí

Við höfum haft í nógu að snúast að undanförnu!
Um síðustu helgi voru fimm börn hér á heimilinu, 2ja, 3ja, 5, 6 og 7 ára. Það vill svo vel til að allt eru þetta vel upp alin og góð börn þannig að ekki er hægt að kvarta. Eftir helgina höfum við samt verið að spá í það hvernig það væri hægt að koma svona mörgum börnum í tómstundir og veita hverju og einu næga athygli ef maður ætti 5 börn alla daga! En þetta gekk sem sagt svona líka ljómandi vel og helgin gekk aðallega út á að undirbúa mat, gefa að borða og ganga frá eftir matinn - með nokkrum ferðum út að leika svona inn á milli!

Íslenska kreppan er mætt hingað á heimilið í formi óvissu um hvenær og hvort hægt verði að millifæra nægan pening fyrir mat og reikningum við erum samt ekkert að stressa okkur á þessu - tökum á þetta íslenska "þetta reddast" hugsunarháttinn. Helgi bakar og bakar brauð (sem er sko bara enn betra) og matseðill heimilisins hefur aðeins breyst þar sem grjónagrautur og aðrir snilldarréttir fá meira pláss á matseðlum vikunnar!

Þessa vikuna er haustfrí í flestum skólum Danaveldis. Helgi þarf reyndar að mæta í skólann sinn og SFO-ið og leikskólinn eru opin þó að það séu ekkert svo mörg börn þar þessa vikuna. Jóel fór í SFO mánudag og þriðjudag. Þegar við sóttum hann mánudag var hann með nokkrum krökkum og SFO-pædagogunum að borða súpu úti á skólalóðinni en súpuna elduðu þau á báli. Á þriðjudag fór hann svo í dagsferð á leiksvæði einhversstaðar út í bæ - alltaf sama fjörið hjá honum. Fannar var á leikskólanum á mánudag og þriðjudag og fékk að fara með strætó i den Gamle by með hópa af leikskólakrílum á þriðjudaginn - voða gaman hjá honum líka.

Til að gera eitthvað í haustfríinu fórum við í dag með Þórunni og Jóa og börnunum þremur (sem voru hjá okkur um helgina) í Legoland. Þar skemmtum við okkur í rússíbönum, alskonar lestum, 4D bíó og og og ..... í allan dag. Auðvitað var kreppunni mætt með nestispökkum með heimabökuðu brauði og bakkelsi - bara gaman!

Sem sagt gott í okkur hljóðið og allir jákvæðir,
Bestu kveðjur

Oct 7, 2008

Um eitthvað annað en kreppuna...

Lífið heldur víst áfram þrátt fyrir allt þetta krepputal!
Hér er allt í fullu fjöri. Indjánadagar hjá Fannari Inga á leikskólanum. Þemavika með heilbrigði, hollu fæði og hreyfingu hjá Jóel Kristni í skólanum. Þá er yngsta skólastiginu blandað í hópa þvert á aldur. Þeir drengirnir eru voða ánægðir með svona skemmtiprógramm í skólunum sínum - en ekki hvað!

Amma Guðlaug var hjá okkur um helgina. Það er alltaf jafn gaman fyrir drengina að fá að hitta afana og ömmurnar sínar. Þar sem Lilja, Jón Freyr og Benta Vala eru núna flutt til Horsens (eða reyndar Gedved) var amma fyrst hjá þeim og kom svo til okkar. Við fórum svo í mat til þeirra og þau til okkar þannig að þetta var bara ein alherjar fjölskylduhelgi!

Næstu helgi verður svo barnahelgi hér á heimilinu. Þá fáum við lánuð þrjú aukabörn og höldum þriggja daga partý!!
Næsta vika er svo efterårsferie hér í DK og þá taka Danir sér frí, við erum nú bara búin að vera hér í eitt ár þannig að við tökum bara hálfa viku frí og sinnum skólunum okkar hinn helminginn af vikunni.

Sem sagt allt í góðu hér!

Sep 26, 2008

Jóel Kristinn Helgason, yfirlit!

Jamms - þar sem hér á síðunni eiga að vera aðgengilegar fréttir fyrir afa, ömmur, vinkonur og vini (og aðra forvitna - hehe) þá er best að gefa smá skýrslu um skólastrákinn Jóel Kristinn sem hefur líklega elst um 10 ár bara síðan í ágúst!!!



Viby skole: Drengurinn fer einn með leigubíl á morgnana í skólann (á kostnað kommúnunnar - og þar með kostnað skattborgaranna - og þar með á kostnað foreldra bekkjarfélaga Jóels ... hmmm). Í skólanum er hann mest í skemmtiferðum og afmælum. Á síðustu 7 skóladögum er hann búinn að fara í 3 afmæli, 1 sveitaferð, 1 vettvangsferð í mjólkurframleiðslufyrirtæki og 2 daga í skólanum! Í SFO-inu (eftir hádegi) gengur hann á stultum, tjúttar á beatboxnámskeiði, smíðar á tréverkstæði og fleira skemmtilegt. Síðan kemur hann heim með leigubílnum um kl. 15:30.



Tómstundir: Á fimmtudögum fer hann í spring-gymnastik. Þar hoppar hann á loftdýnu, stendur á haus og höndum og hoppar á trampolíni yfir á stóra dýnu. Á trampolíninu fara strákarnir í kollhnísa í loftinu, yfirslag yfir stóra mjúka dýnu (þ.e. að hoppa af trampolininu og upp á dýnuna þar sem lent er á höndum og svo farið yfir sig þannig að lent er á fótum á dýnu fyrir neðan) og ýmislegt fleira. Þetta gera þeir reyndar allt með þjálfurum sem nánast halda á þeim í gegnum ferlið en það er samt ótrúlegt að fylgjast með þessu öllu saman!

Á föstudögum er það svo fótboltinn. Það þarf nú ekkert að útskýra það neitt nánar en honum fylgja nú oft lítil mót um helgar þó að við höldum að það sé komið keppnisfrí - þangað til innanhúsfótboltinn byrjar.



Annað: Jóel fór í vikunni í fyrsta sinn aleinn á msn. Hann "talaði" við Kristínu Hrefnu frænku sína. Jóel skrifaði og las allt sjálfur þar sem mamman var bara að sinna þvottinum og pabbinn var úti og svo að undirbúa matinn! Drengurinn skríkti af gleði honum fannst þetta svo gaman! Nú er bara spurning hvort hann verður ekki að fá eigið netfang og msn svo hann geti bara sjálfur séð um að eiga samskipti við fólkið sitt á Íslandi - hehe

Jóel hefur líka tekið þvílíkum framförum í að teikna síðan að skólinn byrjaði. Ég læt fylgja eina mynd sem hann teiknaði handa mömmu sinni hérna við stofuborðið um daginn.



Læt þetta duga af honum Jóel Kristni í bili

Sep 23, 2008

Það er ekkert kominn vetur!

Síðast þegar ég skellti inn smá bloggi, hélt ég því fram að það væri að koma vetur. Í augnablikinu virðist hann vera hættur við að koma þó að hitastigið sé nú kannski ekkert hátt, kannski 16° - 17° sem er bara fínt. Það er sem sagt sól og blíða hér og spáin fyrir a.m.k. næstu tvo daga er meiri sól og blíða. Tilvalið að skreppa með fjölskylduna í hjólatúra, skella sér í golf eða eitthvað álíka heilbrigt!

Erum reyndar ekkert stanslaust í hollustunni. Hér í götunni eru oft haldin matarboð og á föstudaginn fengum við íslenskt lambalæri með íslensku meðlæti og svo ýmislegt misóhollt eftir matinn. Sumum þessum matarboðum fylgir svo spilamennska fram á rauða nótt...

Við héldum svo íslensk kökuboð bæði á laugardag og sunnudag. Fengum Jódísi frænku hans Helga til okkar á laugardag með strákana sína tvo og á sunnudag kom skólabróðir Helga í heimsókn með fjölskylduna sína sem reyndar hefur stækkað síðan þá því að þau eignuðum son í gærkvöldi - gaman af því (kannski það hafi verið vöfflurnar sem komu öllu af stað)!

Jóel Kristinn er svo í stanslausum veislum í skólanum sínum. Það er nefnilega þannig að þegar einhver í bekknum á afmæli fer kennarinn með allan bekkinn heim til afmælisbarnsins og þar er haldin veisla. Þrjá daga í röð hafa stelpur úr bekknum átt afmæli. Á fimmtudag, föstudag og í gær (mánudag) fór allur skóladagurinn í afmælisveislu og til að krydda skemmtilegheitin í þessum skóla voru þau í sveitaferð á miðvikudag, þannig að í dag er fyrsti skóladagurinn í næstum viku!!! Það er líklega erfitt að láta sér leiðast í þessum skóla!

Fannar er bara eldhress í leikskólanum - er orðinn alveg sáttur að vera "einn" án stóra bróður.

Annars bara best að fara að sinna náminu svo maður komist út þegar strákarnir koma heim úr skólunum sínum.
Bestu kveðjur,

Sep 13, 2008

Rútínan

Jóel Kristinn og Sebastian bekkjabróðir hans á fótboltaæfingu á föstudaginn.

Nú má eiginlega segja að það sé að koma vetur!

Ég fann það í gær þegar við fjölskyldan fórum á föstudagsfótboltaæfinguna en í stað þess að njóta sólarinnar á stuttermabolnum og safna lit þá var ég komin í jakka og að frjósa úr kulda. Það er kannski pínulítið undarlegt ef tekið er tillit til þess að hitastigið var þó 15°C !!! En 15° hér hljóta bara að vera eitthvað kaldari en 15° á Íslandi því það var skítkalt!


Nú eru tómstundamál vetrarins komin á hreint. Fannar Ingi fer í Boldspil í íþróttaskóla AGF á miðvikudögum, Jóel Kristinn fer í drengespring sem er fimleikahópur hjá Viby á fimmtudögum og á föstudögum fara þeir bræður báðir á fótboltaæfingu. Jamms, Fannar Ingi er sem sagt líka byrjaður að æfa, búin að vera með á 2 æfingum og er bara rosa duglegur, sérstaklega að gera æfingarnar. Hann er ekki alveg að skilja tilgangin í leiknum þegar það er bara einn bolti notaður í einu. Honum finnst meira gaman þegar hver og einn fær sinn bolta!


Við fórum í morgun á fótboltamót (eins og reyndar síðasta laugardag líka). Það er bara mjög hressandi að vakna snemma og skella sér út á fótboltavöll með drengina og hvetja liðið áfram. Í dag endaði mótið með því að allir fengu medalíur - það þykir nú ekki slæmt þegar maður er 6 ára!


Við fullorðna fólkið erum nú ekki með neinar svona tómstundir fastar á stundaskránni. Helgi er bara með myndavélina á lofti í tíma og ótíma og í þessum "töluðum" orðum er hann einmitt með myndavélina sem afsökun fyrir því að vera með Jóa nágranna sínum á fótboltamóti íslenskra karlmanna hér í DK!!! Á meðan hefur Þórunn nágranni minn (kærastan hans Jóa og kannski einhvern tímann tilvonandi eiginkona hans - hehe) verið að kynna mér sínar helstu tómstundir. En þar sem þetta er opin vefur þá er ég ekkert að útskýra það neitt nánar - hehe....................


Framundan er bara að keyra og sækja drengina í og úr skóla og tómstundum. Lærdómur og ræktin.


Í október fáum svo við heimsóknir. Amma Guðlaug kemur til okkar fyrstu helgina og amma og afi á Selfossi koma síðustu helgina í október.


Bestu kveðjur,


Sep 3, 2008

Endalaus gleði og rútínan byrjuð!

Hæ hæ,
Það er sko hvorki hægt að kvarta undan aðgerðarleysi né skort á gleði hér í Bögeskovparken.

Við foreldrarnir á heimilinu skelltum okkur til Íslands um síðustu helgi í mjög stutt stopp - bara til að mæta í brúðkaupið hennar Regínu og auðvitað Svenna! Í stuttu máli var brúðkaupið stórkostleg skemmtun og endalaus gleði frá A - Ö!!!!!! Tónlistin í kirkjunni var gjörsamlega stórkostleg. Ég til dæmis grenjaði (eða táraðist) í fyrsta skipti yfir swing-lagi þegar Hera Björk, Margrét Eir og Heiða sungu Þú komst við hjartað í mér í frábærri útsetningu. Mér hefur alltaf þótt þær frábærar söngkonur en núna - bara enn betri!!! Það voru auðvitað fleiri tónlistarmenn í kirkjunni t.d. Friðrik Ómar og voru allir frábærir. Veislan var svo endalaus skemmtun, Friðrik Ómar og Hera Björk fóru gjörsamlega á kostum sem veislustjórar og þegar Aníta söng fyrir mömmu sína þá grét allur salurinn - enda var hún alveg yndisleg!

Helgi tók sérstaka mynd af Anítu til að sýna Jóel þar sem hún brosti fallega til hans. Þið hefðuð átt að sjá svipinn á honum þegar hann sá myndina af henni, fallega greiddri í brúðarmeyjakjólnum - það var sætt!

Nú á meðan við skemmtum okkur í veislunni voru drengirnir bara hjá nágrönnunum! Jamms - það eru ekki margir sem geta bara skilið börnin sín eftir í öruggum höndum nágrannanna - en það getum við! (kannski ekki á hverju degi samt .......... en svona einu sinni) Nú stöndum við í stórri þakkarskuld sem við finnum einhverja leið til að greiða.............

Fannar Ingi er ennþá oft leiður á leikskólanum þegar við komum að sækja hann. Hann er vanur að hafa stóra bróður og fullt af íslenskum börnum. Nú þarf hann stundum að vera einn með dönsku börnunum (sem reyndar eru fæst dönsk) sem tala bara dönsku og það þykir honum ekki nógu gott! En hann þarf að læra þetta og reyna að kynnast dönsku börnunum betur. Í morgun fór hann alsæll á leikskólann enda stendur til ferð niður í bæ að sjá Cirkus Charlie. Það vill svo skemmtilega til að Jóel er líka að fara með skólanum sínum á sömu sýningu. Þetta er allt í tilefni af Århus festuge sem er núna.

Annars erum við mjög ánægð með skólann hans Jóels Kristins, mikið um að vera og allt mjög skemmtilegt en á sama tíma afslappað. Hér á eftir er brot úr fréttabréfi frá SFO-inu hans (berið það saman við íslenska heilsdagsskólann -hmmm...) 0.B er bekkurinn hans Jóels og ég set hér inn smá sem tilheyrir bara hans bekk, hér kemur smá lýsing á því sem Jóel er að fást við á daginn:

"0.B er super udebørn. Vi er næsten ude hele dagen. Børnene kører moon-cars, spiller fodbold, laver flotte ting i ”Torbens skur” (træværkstedet), plukker brombær, graver mudderkanaler, hænger med hovedet nedad i klatrestativet, laver snobrød og mange flere ting. Rigtig mange børn har allerede lært at gå på stylter – de har øvet og øvet og er blevet rigtig gode til det. Vi nyder at vejret stadig indbyder til masser af udeleg, en regnbyge er ingen hindring – så HUSK regntøj, gummistøvler og skiftetøj. Mange børn vil gerne ud i regnen, men mangler nogle gange den rette påklædning. Sidst på eftermiddagen vil nogle af børnene gerne indenfor at lege, spille et spil og slappe lidt af. Alle de nye indtryk gør, ”at batterierne er lidt flade” sidst på eftermiddagen.

Så er vi startet på vores musikforløb med Jimmi og Sassi – Beatbox. Det er rigtig godt! Allerede første gang med Jimmi, lærte vi at synge afrikansk, danse og spille på tromme. Jimmi er alletiders og har musik helt ned i storetæerne. Vi glæder os til at møde Sassi næste gang.

Vi har været ovre i gymnastikhallen en gang. Det var en stor succes. Vi vil bruge gymnastikhallen ligeså meget, som det kan lade sig gøre. Vi skriver på tavlen udenfor klasselokalet, når vi går derover, så I ved, hvor I kan finde os.

Onsdag de. 3.9 tager vi i Cirkus Charlie i Festugen, I får nærmere besked herom."

Jamms - hér sé gaman. Þess má geta að Jóel Kristinn er einn af þeim sem er búinn að læra að ganga á stultum. Þetta eru svona alvöru stultur sem eru festar á fæturnar, þannig að hann hefur ekkert til að halda sér í!!!!! (ég verð að viðurkenna að ég var pínu stressuð þegar hann var að sýna mér listir sínar fyrst..... hehe)

Annars skólinn byrjaður hjá öllum, rútínan komin í gang. Best að fara að læra.
Bestu kveðjur,

Aug 27, 2008

Örstutt stopp á Íslandi - en án barna

Jamms við hjónin erum að pakka niður til að koma heim í brúðkaupið hennar Regínu og auðvitað hans Svenna líka.

Komum seint á fimmtudagskvöld og förum aftur eldsnemma á sunnudagsmorgun þannig að við gerum nú ekki mikið meira en að mæta í brúðkaupið og fara aftur heim. Við þurfum nefnilega að drífa okkur aftur heim til að bjarga geðheilsu nágrannakonu okkar sem ætlar að passa strákana okkar tvo auk barnanna sinna þriggja ... það verður víst ekki mikið um rólegheit þar þessa helgina - þó svo að öll börnin fimm séu auðvitað draumabörn!

Erum búin að hafa það nokkuð gott hérna í vikunni. Héldum morgunpartý á sunnudaginn fyrir alla íslensku nágranna okkar. Allir komu með eitthvað gott á morgunverðarhlaðborð, íslenski fánin, húfur og fleira í fánalitunum skreyttu gestina og Danirnir á móti héldu líklega að við værum endanlega gengin af göflunum. Ekki hversu oft hefur maður tækifæri til að sjá Ísland leika til úrslita á Ólympíuleikum - það hefur nú verið haldið partý af minna tilefni.

Er að fara að pakka,
Bestu kveðjur,

Aug 22, 2008

Tíminn flýgur og áfram Ísland!!!!

Það er eiginlega alveg ótrúlegt hvað tíminn líður alltaf hratt - einmitt þegar maður hefur það gott og tíminn ætti að silast áfram, ja svona til að fríið endist sem lengst! (maður verður auðvitað að sýna lit og vera aðeins á heimspekilegu nótunum Ólafi Stefánssyni til heiðurs ;-) )

Jóel Kristinn er núna búinn að vera alvöru skólastrákur í 2 vikur. Hann er mjög ánægður í skólanum, segist vera stilltur og prúður og við bara trúum því! Fyrsti foreldrafundurinn var haldinn á fimmtudagskvöld þar sem skólastarfið var kynnt. Það var mjög gaman að fá í fyrsta sinn að prófa að mæta sem foreldri í grunnskólann. Foreldrahópurinn virkaði mjög hress og skemmtilegur og "rifist" var um að fá að vera í foreldraráðinu - bara gaman! Það er ýmislegt í boði fyrir Jóel í SFO-inu er að byrja Beatbox-námskeið (söngur, dans, hljóðfæraleikur, sögur......) þar sem þau fá indverskan dansara og afrískan tónlistarmann og leikara sem kennara. Frítt og á skólatíma - flokkast sem lúxus!

Fannar Ingi á pínu erfitt á leikskólanum nú þegar stóri bróðir er farinn í skólann. Mætir sæll og glaður á morgnana en er oft lítill í sér og stundum grátandi þegar við komum að sækja hann. Er oft farinn að spyrja um mömmu sína, sérstaklega ef Ísak vinur hans er farinn heim. Þetta kemur nú samt vonandi allt saman hjá honum...

Við fjölskyldan skruppum til Köben með lestinni um síðustu helgi og fórum í Tívolí með ömmu Stínu og afa Jóel og "Svíunum" okkar. Alltaf gaman að koma í Tívolí. Horfðum á Ísland -Danmörk á bar í tívolíinu - bara gaman. Gengum líka um miðbæinn með öllum hinum túristunum. Kíktum á lífvarðaskiptin enda gistum við í frábærri íbúð nánast í bakgarði drottningarinnar. Strákarnir alsælir bæði með að fá að hitta ömmu og afa og frændur sína og að fá loksins af fara í lestina.

Vikan hefur liðið hratt. Handbolti, ræktin, keyra og sækja í skólann hafa verið helstu viðfangsefnin. Engum leiddist hér í dag þegar við horfðum á Ísland - Spán. Það var líka gaman að mæta með Jóel á fótboltaæfinguna strax eftir leikinn og ræða aðeins um handboltann við Danina!!!! Jóel þarf reyndar að sleppa einu fótboltamóti á sunnudagsmorgun þar sem við ætlum að horfa á úrslitaleikinn með nágrönnum okkar. Það verður sko þvílík veisla.

Áfram Ísland

Aug 13, 2008

Síðan síðast

Hér sé stanslaust fjör og nóg um að vera!

Erum búin að hafa góða gesti frá Svíþjóð síðustu 5 daga, mikið fjör. Margrét systir með fjölskylduna eru búin að skoða með okkur miðbæ Árósa, Legoland og rigninguna þess á milli. Litlu frændurnir voru í stuði allan tímann - leiddist ekki augnablik, þannig að þögnin sem er nú í húsinu er nánast yfirþyrmandi (hehe). Hittum þau reyndar aftur á laugardag í Köben því afi Jóel og amma Stína eru um það bil að lenda í Kaupmannahöfn þar sem þau eru með íbúð á leigu í viku. Þangað eru Svíarnir farnir og við förum á eftir þeim um helgina. Að þessu sinni ætlum við með lestinni en þeir bræður Fannar og Jóel er þvílíkt spenntir að fá loksins að fá að fara í lestina ...

Jóel Kristinn var sem sagt í SFO-inu sínu í síðustu viku og gekk bara mjög vel. Á mánudag var svo fyrsti skóladagurinn með kennaranum og hefur drengnum bara gengið ljómandi vel. Hann kom heim með stærðfræðibókina sína þar sem foreldrar hans áttu að pakka henni inn í bókapappír! Þvílíkt föndur - að taka fagurskreytta, litríka og plasthúðaða bókina hans og pakka henni inn í brúnan umbúðapappír (minnir á svona ca. 1935 og reyndar kröfurnar í Landakotsskóla hjá Bentu systur hérna fyrir nokkrum árum). Í staðinn fékk mamman smá tíma til að skoða bókina sem á að duga börnehaveklassen í ALLAN vetur. Markmið bókarinnar er að nemendur geti talið frá 1 - 10, þekki hugtökin hringur, þríhyrningur og ferhyrningur auk þess að geta notað hugtökin stærri en, minni en og þar með borið saman (en samt bara 1 - 10).... Ég man ekki betur en að þetta hafi allt verið prófað í 3 og 1/2 árs þroskaprófinu - þar sem drengurinn svaraði nánast öllu 100%!!! Hann ætti sem sagt að geta staðið undir kröfum vetrarins...
Á sama tíma og kröfurnar til barnsins er að geta talið upp að 10 í maí/júní á næsta ári .... þá er búið að afhenta honum strætókort til að fara einn í strætó á ein stærstu gatnamótin hér í Viby (7 akreinar til að fara yfir á ljósunum...) - já maður verður eiginlega bara hálf ruglaður í því hvað 6 ára börn eiga að vera fær um!

Fannar Ingi fer létt með að vera án stóra bróður á leikskólanum! Fékk frí mánudag og þriðjudag til að vera með Tomma frænda og öllum hinum en nú er rútínan hafin og það er bara fínt.

Helgi Kristinn er kominn í sumarfrí númer 2 og er nú að glíma við bílaviðgerðir með aðstoð Jóns Freys. Gamli skrjóðurinn okkar er víst ekkert unglamb lengur og núna þarf að skipta um alla bremsudiskana og bremsuklossana. Ætluðum varla að komast heim úr Legolandi á mánudaginn og höfum ekki getað notað bílinn síðan þá.

Ég er búin að fá kennsluáætlanir og bókalista fyrir veturinn. Líst bara vel á! Verð í einu fagi hér í Árósum og öðru inn í Köben. Bæði líta bara vel út, mikill lestur og mörg verkefni, eeeen þannig á það víst að vera. Er líka að mæta í ræktina og skokkaði meira að segja hring hér í hverfinu snemma á sunnudagsmorgun - er á meðan er!

Jæja, þá er langlokunni lokið,
Bestu kveðjur

Aug 5, 2008

Fyrsta tönnin farin!

Hér með tilkynnist að Jóel Kristinn Helgason, nemi er búinn að missa fyrstu barnatönnina. Fullorðins tönnin er nú þegar komin nokkuð langt upp en liggur bara fyrir aftan fyrrverandi barnatönnina sem hefur hangið laflaus síðustu daga og verið algerlega fyrir fullorðinstönnninni góðu!

Barnatönnin liggur nú undir kodda barnsins ...... hver veit nema það verði eitthvað annað undir koddanum í fyrramálið þegar barnið vaknar.

Þessi tannmissir hefur nú þegar lagt sitt af mörkum til þroska barnsins. Í kvöld er drengurinn lagðist upp í rúm tilkynnti hann móður sinni hátíðlega að nú myndi hann hvorki vilja vatnsglas né söng því hann væri orðinn stór strákur! Móðirinn samþykkti án andmæla.

Með kveðju frá skólastrákunum,

Aug 3, 2008

Eitt ár!

Þá er komið eitt ár frá því að við fluttum hingað til Danmerkur!

Á þessu ári höfum við lært vægast samt mjög mikið....

Fannar Ingi var bara smápeð með bleiu þegar við fluttum en er núna "stór" strákur sem talar bæði dönsku og íslensku, hleypur hér sjálfur milli húsa til vina sinna. Hann er mikill rússíbanamaður og í skemmtigörðunum eru það bara hæðatakmarkanirnar sem stoppa hann af í tækjunum! Frá og með þriðjudeginum (þegar sumarfríið er búið) verður hann í fyrsta skipti einn á leikskólanum þ.e. án stóra bróður, það verður nú bara gott fyrir hann.

Jóel Kristinn var auðvitað orðinn nokkuð sjálfstæður og duglegur þegar við fluttum og hefur honum bara farið fram síðan þá. Hann er helsti framburðarsérfræðingur fjölskyldunnar er kemur að dönskunni. Hann er hættur á leikskóla og orðinn alvöru skólastrákur, byrjar meira að segja á morgun í SFO-inu (heilsdagsskólanum) og næsta mánudag (11. ágúst) í skólanum sjálfum!
Hann er búinn að keppa á nokkrum fótboltamótum og fá tvo verðlaunapeninga auk þess sem hann er mikill áhugamaður um hina ýmsu skemmtigarða!

Við foreldrarnir erum auðvitað búin að læra eitthvað smá í dönsku, kynnast fullt af nýju fólki, læra einhvern slatta í náminu okkar en umfram allt erum við búin að læra að slaka svolítið á og gefa okkur tíma til að vera saman fjölskyldan! (það á nú samt bara við þegar það eru ekki próf... en það eru svolítið oft próf...)
Helgi er nú búinn að kynnast nokkrum nýjum golfvöllum og eignast slatta af nýjum græjum á árinu ... hehe
Sjálf er ég nýbúin að prófa að vera stungin af geitungi og get sagt ykkur, að það er verra en ég átti von á!

Annars er bara gott að frétta af okkur hér í upphafi okkar annars árs í DK. Við erum búin að vera með góða gesti, afi Sæli og Benta frænka eru búin að vera með okkur síðustu daga og eru nú í Horsens hjá Lilju frænku og fjölskyldu. Saman erum við öll búin að taka hefðbundinn túristarúnt, þ.e. Djurs Sommerland, Löveparken og miðbæ Árósa, borða og slappa af!

Framundan eru svo góðir gestir frá Svíþjóð sem fá einnig einhverja góða túristameðferð!

Bestu kveðjur,

Jul 27, 2008

Lífið í hitabylgjunni

Nú stendur yfir hitabylgja hjá okkur hér í Danaveldi!

Húsbóndinn á heimilinu tók sér frí frá inniverunni og við fórum öll fjölskyldan og eyddum föstudeginum í Djurs Sommerland. Í tilefni af háu hitastigi vorum við stærstan part dagsins í vatnagarðinum að sulla í sundlaugum, renna og almennt að fá smá brúnan lit!

Í gær var afmælisveisla í götunni, það var reyndar svo heitt í garðinum að flestir flúðu inn yfir heitasta tímann. Fórum svo eftir afmælið til Horsens að hjálpa Lilju, Jóni og Bentu Völu að flytja í íbúð þar sem þau ætla að búa næstu tvo mánuðina.

Í dag fórum við svo á ströndina. Það er alltaf gott að fara á ströndina í svona hita því það getur orðið ansi heitt hér í lokuðum garðinum! Hver veit nema við skellum okkur bara aftur á ströndina á morgun og náum okkur í smá meiri lit ... (Þórunn! líst þér ekki vel á það??? hehe)

Af Helga er það helst að frétta að hann er "alltaf " að kaupa sér nýtt dót! Í matarboði hjá Svenna og Regínu í Íslandsferðinni fékk hann þessa svakalegu flugvéla/þyrlu/fjarstýringa-bakteríu. Núna er hann búinn að lesa og lesa um fjarstýrðar þyrlur og kaupa sér tvær....


Bestu kveðjur héðan úr sólarlandaveðrinu,

Jul 22, 2008

Drengirnir í sumarfríi

Hér á heimilinu ríkir mikil óregla varðandi svefntíma þeirra bræðra. Drengirnir "fengu" aldrei að fara að sofa á eðlilegum tíma á meðan veisluhöldunum á Íslandi stóð og nú eftir að heim er komið er erfitt að koma svefninum í rétt horf annað hvort er erfitt að sofna vegna fyrri óreglu eða eitthvað annað skemmtilegt að gera.

Fórum t.d. í dag í dýragarðinn í Álaborg. Lögðum ekki af stað heim fyrr en um hálf níu og þá átti eftir að keyra í rúman klukkutíma. Fannar Ingi sofnaði í bílnum en sá stóri (þessi með lausu tönnina) ekki fyrr en eftir að heim var komið. Annars var gaman í dýragarðinum, fullt af spennandi dýrum t.d. ísbirnir, ljón og tígrisdýr sem alltaf er spennandi að skoða, skemmtilegir apar og fleira. Þrátt fyrir öll þessi spennandi dýr fannst strákunum eiginlega skemmtilegast í klifrugrindinni og búðinn þar sem þeir fengu að kaupa sér smá dýr sem minjagrip...

Nú er bara að finna eitthvað skemmtilegt til að viðhalda óreglunni á þeim bræðrum næstu daga, framundan gott veður (ef veðurspáin rætist) þannig að við verðum bara úti að leika...

Bestu kveðjur,

Jul 18, 2008

Komin heim - búin að fara heim

Við erum sem sagt búin að fara heim til Íslands og komin aftur heim til Danmerkur.

Íslandsferðin varð að einni alsherjar matarveislu! Nautalundir, lambalundir, kálfalundir, HUMAR, lambalæri... og allir hinir veisluréttirnir. Þetta kemur sér einstaklega vel þar sem næstu þrjár vikur mun húsmóðirin á heimilinu sjá um eldamennskuna að mestu, þar sem eiginmaðurinn verður meira og minna upptekinn!

Til að gera langa sögu stutta þá þökkum við bara öllum sem gáfu okkur góðan mat og góðan félagsskap kærlega fyrir okkur!

Nú erum við bara í rólegheitunum framundan mikil rigningahelgi samkvæmt veðurspánni, það er allt í besta, alltaf nóg hægt að þrífa ... og svoleiðis skemmtileg inniverk.

Þangað til næst...
Bestu kveðjur,

Jul 5, 2008

Erum að koma heim ... á eftir!

Jæja, eftir frábæra viku í sumarfríi hér í Danaveldi erum við á leiðinni heim - verðum í 10 daga!

Við erum sko vægast sagt búin að hafa það gott hér í sumarfríinu. Fyrri hluta vikunnar voru strákarnir ennþá á leikskólanum og þá notuðum við tækifærið og fórum í golf á frábæran golfvöll hér í Árósum.
Nýju garðhúsgögnin okkar eru heldur betur búin að sanna gildi sitt - við erum heldur betur búin að sitja í garðinum, oft með nágrönnum okkar ...
Við fengum líka óvænta hringinu frá Simma og Hrund "matarklúbbs"vinum okkar en þau voru staðsett í sumarbústað hér rétt hjá. Við skelltum okkur til þeirra og gistum eina nótt. Fórum á ströndina og elduðum góðan mat og spjölluðum.

Jóel Kristinn er nú formlega hættur á leikskólanum og byrjar næst í Viby skole í byrjun ágúst. Kennslan byrjar 11. ágúst en hann byrjar fyrst í SFO-inu (skolefritidsordningin) þar sem hann fær nokkra daga til að kynnast krökkunum, skólanum og starfsfólkinu áður en skólinn byrjar formlega.
Fannar Ingi er auðvitað kominn í sumarfrí og fer næst "aleinn" á leikskólann í ágúst. Það verða viðbrigði fyrir hann að vera án bróður síns - en hann hefur sko bara gott af því.

Annars ætla ég núna að skella í ferðatöskur, og undirbúa ferð í Löveparken. Við ætlum nefnilega í dýragarðinn á leiðinni út á flugvöll.

Lendum í Keflavík seint í kvöld - sjáumst

Jun 29, 2008

Amma afmælisbarn!

Í dag á amma Guðlaug afmæli - á eftir er afmæliskaffi og þar sem við getum ekki mætt, sendum við bara kveðjur á netinu. Til hamingju með afmælið amma Guðlaug.

Lilja frænka er reyndar nýbúin að eiga afmæli líka - svo við sendum henni líka afmæliskveðjur!

Annars bara ekkert nýtt. Erum búin að vera mest í því að borða og spila...........

Strákarnir að leika sér - eins og alltaf
Helgi í golfi - eins og hann myndi helst "alltaf" vilja vera...
húsmóðirin í tölvunni, búin að taka til, borða köku ...

Bestu kveðjur

Jun 27, 2008

Sumarfrí :-)

Jæja, þá er þessari prófatörn lokið!

Þessa dagana erum við fullorðnafólkið mjög upptekið við að hvíla okkur, fara í bæinn og svoleiðis. Það er líka svo ánægjulegt fyrir okkur námsmennina að versla svolítið á útsölunum þar sem gengið á dönsku krónunni er "bara" rúmlega 17 núna.

Þannig að kannski við notum bara sumarfríið í að finna út hvernig við getum sparað...

Strákarnir eru svolítið í því að meiða sig þessa dagana. Jóel fékk gat á hausinn í síðustu viku, en hann harkaði það nú af sér og við slepptum því að heimsækja slysó - það er víst svo roooosalega löng bið þar og þetta var nú ekkert alvarlegt! Í dag var hringt af leikskólanum út af Fannari. Hann meiddi sig á puttanum sem bólgnaði vel upp og létum við læknirinn kíkja á puttann sem sem betur fer reyndist í lagi - bara bólginn.

Annars er núna komið helgarfrí ... framundan matarboð fyrir nágranna okkar sem björguðu okkur algerlega í upphafi verkfallsins þegar við allt í einum vorum upp fyrir haus í verkefnaskilum og próflestri og strákarnir heima - allan daginn!

Minnum svo á að við komum heim að kvöldi 5. júlí og förum aftur 15. júlí...

Bestu kveðjur,

Jun 21, 2008

Örstutt

Hér er allt í rólegheitunum

Strákarnir alsælir með að vera komnir aftur á leikskólann!

Helgi Kristinn alsæll með að vera kominn í sumarfrí.

Ég alsæl með að það sér bráðum fyrir endann á þessara löngu verkefna- og prófatörn. Eitt próf eftir nk. miðvikudag!

Eftir miðvikudaginn verður svo hafist handa við að sinna öllu því sem ekki hefur verið sinnt sl. 1000 vikur (kannski smá ýkjur en mér líður samt eins og þess törn sé búin að vera svona lengi). Ofarlega á listanum eru hversdagslegir hlutir eins og þrif og svoleiðis en engu að síður mikilvægt má búast við ferð á golfvöllinn, í miðbæinn, á ströndina, út í garð að nota nýju garðhúsgögnin, dýragarðurinn með strákunum......................
Gott ef ég er bara ekki farin að hlakka til að vakna næsta fimmtudagsmorgun og byrja að vinna úr þessum verkefnum.

Komum svo heim 5. júlí og verðum í 10 daga!!!

Bestu kveðjur,

Jun 13, 2008

Ha! Verkfallið að leysast...

Fékk SMS frá einni hér í götunni áðan - verkfallið er að leysast, leikskólarnir opna á fimmtudaginn!

Þetta passar vel fyrir strákana mína. Í síðustu viku léku þeir með afa og ömmu og þessa vikuna með Tinnu og Hörpu. Þær fara heim á mánudag og leikskólinn opnar á þriðjudag!

Helgi Kristinn er kominn í sumarfrí. Vaknaði með þvílíkt bros í morgun, bros af stærðargráðu sem hefur ekki sést lengi hér i Beykiskóginum. Nú er bara að sinna heimilinu og áhugamálunum á meðan húsmóðirin klára prófin sín "bara" 12 dagar eftir...

Kuldahretið sem Jyllands-Posten sagði yfirvofandi er komið. Hitastigið hefur farið allt niður í 16°gráður auk þess sem það hafa fallið nokkrir dropar! Þetta gengur náttúrlega ekki - persónulega finnst mér þetta nú ekki nóg til að tala um kuldahret og sumarlok - þetta er bara hin fínasta sumarblíða + örlítið auðveldara að hanga inni yfir bókunum í þessu veðri.
Annars vorum við að fá nýtt glæsilegt útiborð og stóla. Maður verður að eiga almennilegt sett svona þegar maður er svona mikið úti í garðinum!

Sem sagt framundan er í næstu viku:
Helgi Kristinn: sumarfrí (örugglega reynt að komast í golf!)
Lóa Björk: próflestur (próf mánudag og miðvikudag í næstu viku og svo eitt viku síðar)
Jóel Kristinn: fótbolti og leikskóli frá þriðjudegi
Fannar Ingi: leikskóli frá þriðjudegi - loksins!

Bestu kveðjur,

Jun 8, 2008

Hver er að sjá um börnin?

Nú þegar verkfallið virðist verða endalaust og foreldrarnir alltaf í próflestri þarf einhver að sjá um börnin.

Drengirnir voru þvílíkt heppnir í síðustu viku en á sunnudagskvöld mættu hingað afi og amma á Selfossi tilbúin til að sjá um börnin alla vikuna - þvílíkur lúxus og þjónusta. Strákarnir nutu þess að þvælast um allt með ömmu og afa, í göngutúra, fótboltavöllinn og strætóferð í bæinn og svoleiðis. Á fimmtudag var svo Grundlovsdag sem er frídagur og þá fórum við öll í 3 ára afmælisveislu til Egå sem var mjög gaman! Afi og amma fóru svo heim á föstudagseftirmiðdag.

Fótboltinn hjá Jóel einkennir föstudaga og laugardaga þessar helgarnar. Um helgina fórum við með Jóel á mót í Solbjerg. Það er ótrúlega gaman að fara í alla þessa litlu bæi með flottu fótboltavellina að spila á mótunum, bæir sem maður annars kæmi líklega aldrei til!

Eftir fótboltamótið í gær fórum við (ekki pabbinn samt) í Legoland. Tilgangurinn var sem sagt að sækja næstu barnapíur en það eru sem sagt Tinna og Harpa sem eru úr Snælandsskóla. Við nýttum nú ferðina til að fara í nokkur tæki - auðvitað áður en við fórum heim með stelpurnar. Hitinn nú um helgina hefur verið "einum of" nánast bara erfitt að vera í bílnum á leiðinni í Lego þar sem hitinn í forsælu var kominn hátt í 30°.

Í dag eru svo strákarnir bara að þvælast um hverfið með Hörpu og Tinnu. Kíkt á leikvellina auk þess sem við fengum lánaða buslulaug í garðinn til að börnin réðu betur við hitann! Nú er svo komið að því að veðurspáin segir að næsta vika verði bæði kaldari og með rigningu. Reyndar stendur í Jyllands-Posten að sumarið sé búið í bili og kuldahret á leiðinni en skv. veðurspánni er það allt niður í 18° hita. (Ég sem hélt að 18° væri bara ágætishitastig!!!)

Jæja verð að halda áfram lestrinum,

Kv.

May 31, 2008

Bara að ítreka góða veðrið

Bara svona ef einhver skyldi efast um að hér væri raunverulega alltaf svona gott veður!

http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2008/05/31/solrikasti_manudur_i_danmorku/

Nú í góða veðrinu í dag sem var ennþá betra en síðustu daga þar sem hitastigið fór a.m.k. í 25 gráðurnar (í skugganum og vindinum - ekki á skjólsæla sólpallinum með gashitaranum...) höfðum við það alveg frábært.

Helgi fékk að eyða deginum í tölfræðiprófi og svo á bókasafninu þar sem stutt er í næsta próf!

Við þrjú (fréttaritari og bræðurnir) hófum daginn á fótboltamóti eða eiginlega fótboltamótum. Við vorum mætt galvösk á Viby völlinn kl. 9:00 í morgun þar sem raðað var í þrjú lið. Tvö liðin áttu að keppa á einu móti en eitt annars staðar. Við fórum með hópi til Harlev þar sem við héldum að við ættum að keppa en kl. 10 þegar mótið var að byrja kom í ljós að þarna átti Viby bara að vera með eitt lið en tvö á hinum vellinum í öðrum smábæ ca. 7 km í burtu. Við brunuðum ásamt einum öðrum bíl yfir í næsta bæ þar sem Jóel Kristinn spilaði þrjá leiki af miklum móð. Hann var rosalega duglegur, þeir voru ekki með neina varamenn þannig að hann bara hljóp og hljóp og hljóp og hljóp án þess að fá nokkra pásu því leikirnir voru hver á eftir öðrum þar sem við komum allt of seint á völlinn. Það var (og er) auðvitað sól og blíða hitinn kominn upp í 23° strax í morgun (fór miklu hærra seinni partinn) svo þetta var bara snilldarmorgun hjá okkur þremur!

Í dag eru svo bræðurnir búnir að vera úti að leika, þar af í nokkra klukkutíma í uppblásinni garðsundlaug hjá nágrönnunum þar sem buslað var í lengri tíma.

Pabbanum var svo bjargað af bókasafninu um 16:30..............

Rétt í þessu vorum við svo að koma inn úr garðinum þar sem við grilluðum BBQ ribs og pylsur og borðuðum úti.

Sem sagt það fer væntanlega ekki á milli mála að við höfum það gott,

sendum svo tiltektarkveðjur til ömmu og afa á Selfossi..........

May 29, 2008

Hið ljúfa líf vs. bókasafnslíf!

Jæja, á þriðjudaginn var verkefnahlassinu skilað. Ég sem sagt náði að skrifa síðustu bókstafina í stærsta verkefnið rúmlega 5 að morgni ............ þá var úthaldið búið þannið að síðasti kaflinn í verkefninu var ekki einu sinni lesinn yfir............ hhmmmmmmmmm.
En mér eiginlega bara alveg sama ég er bara svo fegin að mér tókst að klára þetta að gæðin verða bara að koma í ljós. Aðalmálið er að ég náði að skila og uppfylla þar með lágmarksskilyrði til að fá að fara í próf!

Þetta tókst nú samt ekkert án hjálpar.............. ég er nokkuð viss um að það eru ekki allir sem eiga eins góða nágranna og við :-) Á mánudaginn fór Helgi snemma að morgni á bókasafnið enda próf hjá honum á þriðjudagsmorgni, eftir sat ég með þvílíkt magn af óunnum verkefnum og tvo yndislega drengi sem samt þarf nú að sinna. Fljótlega voru nágrannar mínir hér niður í dalnum (sami pabbinn og bjargaði allri síðustu viku og nú mamman á heimilinu líka sem var búin með sín próf) búin að taka yfir umsjá barnanna minna, þar fengu strákarnir að borða í hádegi, kaffi og kvöldmat auk þess sem afgangurinn af kvöldmatnum var sendur hingað til mín þannig að ég fékk líka að borða! (........ samt bara fyrir framan tölvuna þar sem ég mátti engan tíma missa). Strákana fékk ég svo senda hálfsofandi í teppum hingað heim, rétt kyssti þá góða nótt og hélt svo áfram lærdómnum. Þvílíkt þjónusta!

Ég er algerlega búin að komast að því að ég á sko ekki að þetta prófskírteini mitt úr neinum Coco Puffs pakka! Verkefnin töldu sem sagt vel á annað hundrað síður sem er mun meira en lokaönnin þegar kandidatsritgerðinni verður skilað (mastersritgerð). Um morguninn um klukkan 05:30 fékk ég email frá einni sem ég var að vinna eitt verkefnið með en hún var þá að klára að fara yfir leiðréttingar í verkefninu okkar, og um tveimur mínútum seinna fékk ég email frá þeirri sem ég var í samstarfi við í stóra projektinu mínu. Þannig að það var sko ekki bara ég sem vakti alla nóttina til að klára. Þegar ég skilaði verkefnunum mínum svo á skrifstofuna hér í Árósum voru þar nemendur úr öllum deildum að skila. Þegar ég rétti fram verkefnin mín var ég spurð hvort ég væri að skila svona miklu? Ertu í þremur fögum? Nei, nei, svaraði ég bara venjulegu námi. Það besta er að samstarfskonan mín var líka spurð að þessu inn í Kaupmannahöfn þegar hún skilaði en það er víst þannig að allar aðrar deildir þurfa bara að skila ca. eðlilegum blaðsíðufjölda....................
En svo er það náttúrlega Pollýannan í þessu....... spáið í það hvað ég læri miklu meira á þessu en allir hinir....................... hehe.

Helgi er, var og verður á bókasafninu...............

Strákarnir mínir eru búnir að endurheimta móður sína. Á þriðjudaginn þegar ég skilaði biðu þeir nánast við útidyrnar eftir mín og settust bara niður og gáfu endalaust knús. Í gær fórum við svo með tveimur nágrannafjölskyldum okkar í Djurs Sommeraland þar sem börn og fullorðnir léku sér ALLAN daginn. Ég fékk að fara tvisvar í nýja stóra rússíbanan - sem er frábær og öll hin tækin og strákarnir fengu líka að leika sér - hehe! Við þrjú vorum sko öll dauðþreytt en alsæl þegar við sóttum aumingja pabbann á bókasafnið um níuleytið um kvöldið. Hann lærði tölfræði á meðan............

Við þrjú áttum aftur yndislegan dag í dag. Úti var auðvitað sól og blíða (eins og svo oft áður) og við fórum í gönguferð með Sigurði Ragnari vini Jóels, mömmu hans og litlu systur niður á Viby Torv. Það fórum við í búðir og kaffihús........ sem selur hvítvín og Nachos, ökologiskan solberjasafa og muffins............ og allt hitt sem við keyptum ekki! Löbbuðum svo aftur heim mörgum klukkutímum síðar með barnakerrur sem varla sást í fyrir innkaupapokum! Bara gaman, síðan er bara endalaust verið að hygge sig, þangað til að næsta törn tekur við.

Ef einhver hefur sérstakar áhyggjur af því að Helgi fái ekki að gera neitt skemmtilegt á meðan við hin höfum það svona gott - þá vil ég minna á að Helgi klára prófin 12. júní en ég 27. júní þannig að fær þetta allt til baka síðar - hehe

Bestu kveðjur héðan úr hinu ljúúúúfa lífi.......

May 24, 2008

This is my life!!!!!!!

Jæja hér er lífið í Beykiskóginum í "stuttu" máli:

Jóel og Fannar hringsóla hér hálf sjálfala um göturnar í verkfalli leikskólakennaranna sem nú hefur staðið yfir í viku. Ólíkt því sem myndi gerast heima á Íslandi - er ekki nokkur maður að stressa sig yfir þessu! Danirnir taka sér launalaust frí frá vinnu, með bros á vör, pínu svekktir með þetta en laaaang frá því að kvarta, sådan er det bare! Fjölmiðlarnir fjalla nánast ekki neitt um málið, enda ekkert að gerast og "enginn" með áhyggjur af því! Í vikunni var t.d. í Nyhedsavisen meira fjallað um kostnaðinn við lífrænt ræktað fæði inn á leikskólana árið 2010 en það að þessa dagana (vikurnar) væri leikskólinn lokaður og gríðarlegur fjöldi foreldra í vandræðum..........
Nú þetta hefur nú samt allt gengið - auðvitað - strákarnir fengu stærstan hluta af vikunni gott húsaskjól og góða þjónustu hjá pabba vinar síns hér í götunni sem hefur algerlega bjargað okkur fyrir horn!

Helgi er nánast fluttur búferlum á bókasafnið. Prófin eru 5 talsins þar af tvö sem hann hefur miklar áhyggjur af og þarf að leggja allt í sölurnar.............

Skiladagurinn mikli er handan við hornið. Mér reiknast til að ég þurfi að prenta út u.þ.b. 390 bls. til að skila. Þetta reikna ég þannig að samtals blaðsíðufjöldi allra verkefnanna er um 130 síður og ég þarf að skila öllu í 3 eintökum! Ég á ennþá slatta eftir. Þar sem dagarnir nýtast ekki alveg nógu vel, þó svo að þetta séu ótrúlega góðir drengir sem ég á - þá hef ég verið að reyna að skrifa á kvöldin og frameftir en þá er meiri friður hér á heimilinu!

Eeeen ég get samt EKKI skrifað í kvöld!!!!!!!!!!!! Ó NEI !!!!!!!!!!!!!!

Ég get ekki einu sinni almennilega lýst því hvað ég er ótrúlega sátt við Eurovision frammistöðu Íslendinga í ár. Það er ekki nokkur vafi á því að þó svo að Regína og Friðrik vinni ekki keppnina sjálfa þá eru þau nýjir Evrópumeistarar í útgeislun!!!!!!!!! En það er allavegna ljóst það er ekki séns að nokkur læri á þessu heimili í kvöld. Hér verður fylgst með Eurovision og skálað fyrir Regínu!

Jæja this is our life!
Bestu kveðjur,

May 15, 2008

Jú, jú, ennþá sól og blíða eeeeeeeennnn

Nú held ég bara að einhver sé að grínast í okkur og að á mánudaginn sé aftur kominn 1. apríl!

Sko málið er:
1. Helgi er í prófum, og þarf að lesa fyrir þau nánast 24/7 ........ svoleiðis er þetta hjá háskólanemum!
2. Ég er í verkefnavinnu, á núna í þessum töluðu orðum 44 bls eftir (þökk sé frábærri frammistöðu í dag að það er ekki meira - var í vinnustuði). Þessum 44 bls (ásamt því sem er nú þegar búið) þarf að skila fallega frágengnu, yfirlesnu o.s.frv. 27. maí!

Þetta þótti okkur hjónum alveg feikigóður verkefnaskammtur og sáum fram á að reyna að skiptast á með börnin milli kl. 4 og 8 (frá því að leikskólinn er búinn og fram að háttatíma)
eeeeeeeeeeeen
Þá kom skellurinn!!!!
Verkfall. Jamms á mánudaginn næsta (í prófa- og verkefnavikunni miklu) fara leikskólakennarar í Árósum í verkfall! Sérfræðingar telja enga von um lausn þar sem því hefur verið líst yfir að ekki verði gengið að frekari kröfum pædagoganna! Nú og ekkert mun gerast fyrr en í fyrsta lagi 29. maí þegar úrslit eru ljós úr annarri kjaradeilu sem leystist í síðust viku.
Góða skemmtun við - í næstu viku.
Vil samt taka það sérstaklega fram að auðvitað reddast þetta allt hjá okkur - og við styðjum að sjálfsögðu kjarabaráttu pædagoganna...............
Og ef einhver hefur áhuga segja blöðin laun þeirra vera ca. 23.000 dkr (x 16) og hækkunin sem þeim var boðið - en þeir felldu var 2000 - 3000 dkr (x 16 =isl. kr)
Hér sé og verði fjör
Farin að læra - og

May 12, 2008

Ennþá meiri sól og blíða

Jæja - þá er hitinn búinn að ná 26° - sko í forsælu!
Verkefnin eru öll á sínum stað því í svona góðviðri getum við Íslendingar bara ekki setið stanslaust inn og lært! Það þarf að nota veðrið...................
Við höfum meira að segja verið að brenna okkur á því að halda að börnin þurfi alltaf að vera úti að leika í góða veðrinu, en svo kemur bara í ljós að svona um miðjan daginn fá þau bara alveg nóg og verða að fá að koma inn og leika inni "í kuldanum"!

Helgin hefur mjög góð hjá okkur.
Á föstudag hófum við leikinn á fótboltaæfingu með Jóel, auðvitað í brakandi sól og blíðu. Um kvöldið var svo sannkallað stelpudjamm. Þá safnaðist saman hópur af íslenskum "stelpum" sem eiga það sameiginlegt að vera vinkonur Þórunnar hér í götunni og svo var bara fjör fram eftir öllu. Ég fór sem sagt í fyrsta sinn niður í bæ (að kvöldi - um helgi) hér í Árósum. Tímasetningin vekur athygli nú þegar verkefnin bíða, sólin tekur frá manni allan daginn þá allt í einu hlaðast upp pókerkvöld og stelpudjömm............ (það hlýtur að vera langt í 27. maí - sko skiladaginn mikla)

Á laugardagsmorgun fórum við og keyrðum Helga eldsnemma (kl. 10) upp í skóla - á bókasafnið! Nú það var sem sagt sól og blíða og ég og strákarnir byrjuðum á því að fjárfesta í sumarfötum handa strákunum. Hluti af því var reyndar afmælisgjafir. Síðan tók bara við góður dagur í sólinni. Ég var með öll verkefnin tilbúin á borðstofuborðinu en eyddi samt stærri hluta af deginum út í garði og með strákunum. Það er víst þannig að strákarnir þurfa sína athygli og manni verður ekki sérstaklega mikið úr verki einn með þá. Við sóttum svo pabbann seinni partinn og grilluðum lambalæri og borðuðum úti í garði - þannig að húsbóndinn fékk smá sól.

Pinsedagen var dejlig! Við fórum í Djurs Sommerland sem er einn alskemmtilegasti fjölskyldugarðuinn hérna á svæðinu og er af nógu að taka! Þar voru fleiri nágrannar svo þetta var ennþá skemmtilegra fyrir vikið. Strákarnir nutu þess að leika og fara í tækin með vinum sínum. Það var farið í stelpuferð í nýja rússíbanann í Djurs - sem er geeeeðveikur! Strákarnir fengu bjór í laun fyrir að passa börnin á meðan. Annars er garðurinn fullur af skemmtilegheitum og á einum degi notar maður bara hluta af garðinu - en við erum með árskort þarna þannig að við förum bara aftur - og aftur...............

Nú er 2. pinsedag - og frí í leikskólanum. Það styttist í fyrsta prófið hjá Helga, hagfræðipróf úr efni heils vetrar! Hann á því daginn í dag, ég mun sitja við tölvuna og reyna að skrifa eitthvað þess á milli sem ég sinni börnunum og fer í eftirlitsferðir um hverfið - þar sem börnin eru úti að "nota" góða veðrið! Á morgun verða strákarnir svo einir heima - þeir eru að verða vanir - þar sem ég fer til Köben í tíma á þriðjudag og miðvikudag auk þess sem ég verð að vinna með hópnum mínum í stærsta verkefninu mínu.

Annars bara lærdóms- og sólarkveðjur

May 8, 2008

Jóel 6 ára

Nú eru sem sagt liðin 6 ár frá því að Jóel Kristinn Helgason kom í heiminn! Við héldum auðvitað upp á tímamótin - öll fjölskyldan.

Dagurinn hófst með pakkaflóði uppi í rúmi þar sem þeir bræður (hjá Fannar Ingi fékk líka pakka) rifu utan af fyrstu pökkunum. Jóel var í stuttu máli ánægður með allt sem hann fékk. Sagði eftir hvern pakka - skælbrosandi - "þetta var einmitt það sem mig langaði í ".
Nú þar sem pabbinn á heimilinu átti að mæta klukkan 8:00 í skólann ákváðum við hin að taka því aðeins rólegra og labba bara í rólegheitunum. Reyndar ekki að labba því Jóel fékk hlaupahjól í afmælisgjöf og gaf um Fannari gamla hlaupahjólið sitt. Strákarnir fóru því á hlaupahjólum í leikskólann þar sem börnin tókum fagnandi á móti Jóel, búin að vera að teikna myndir og pakka inn fyrir hann. Gaman að því!

Foreldrarnir eyddu svo deginum í undirbúning afmælisveislu - enginn lærdómur í dag (tvöfaldur á morgun í staðinn!!!!). Klukkan tvö var svo afmæli á leikskólanum. Þá mættum við með ís sem Jóel bauð félögum sínum á leikskólanum upp á - ekki slæmt fyrir þau að fá ís í hitanum en það var um 23° í forsælu í dag. Helsta vandamálið var að ísinn bráðnaði svo hratt í sólinni að krakkarnir þurftu öll að flýta sé að borða ísinn.

Íslensku leikfélagar Jóels í götunni komu svo í veislu strax eftir skóla/leikskóla. Það var þvílíkt gaman - allir stilltir og prúðir og skemmtilegir. Það var sjóræningjaþema í afmælinu og Helgi bjó til ótrúlega flotta sjóræningjaköku. Við fórum svo í sjóræningjaratleik um hverfið þar sem krakkarnir stóðu sig ótrúlega vel. Um klukkan 18 komu svo fullorðnafólkið og litlu og stóru börnin í götunni í grill. Við settum bara upp svona langborð út í garði í hitanum og grilluðum pylsur og kjúkling og höfðum það huggulegt - við búum jú í Danmörku þar á maður að hafa það huggulegt.

Frábær dagur
kv.

May 5, 2008

Góðviðrisdagar í Árósum

Jæja þá er draumahelgi að baki
Amma Guðlaug í heimsókn frá miðvikudagskvöldi til sunnudags. Þá var reynt að slaka á, verið úti að leika, farið í bæjarferð með ömmu (sko bara amma og strákarnir), spilaður póker öll kvöld (sko bara amma og fullorðna fólkið), farið á kræmmermarket og lystbådehavnen í þvílíkri sól og blíðu.

Nú er sumarið greinilega komið. Hitastigið komið í 20°, sólin skín núna dag eftir dag, allir að taka smá lit og hárið á strákunum að lýsast aftur.

Nýjasta græjan hans Helga er sími. Það hefur sína kosti og galla eins og alltaf. Gallarnir eru augljóslega allur sá ómældi tími sem fer í að læra á hvern einasta "fídus" í símanum. Kostirnir eru að auðvelt er að taka fínar myndir á nýja símanum og senda þær beint inn á netið. Slóðin hans Helga er: http://www.flickr.com/photos/23533601@N07/. Þarna er einhverjar myndir m.a. frá því um helgina.

Nú eru bara 3 dagar í afmælið hans Jóels Kristins - sumir eru farnir að hlakka til.

Bestu kveðjur

Apr 26, 2008

Töffaradrengir

Jóel Kristinn rétt fyrir páska
Fannar Ingi á fimmtudag

Þeir bræður eru opinberlega yfirlýstir töffarar - hér með!!


Það var reyndar fyrir páska sem Jóel Kristinn fór með pabba sínum í klippingu og kom heim með þvílíka töffaragreiðslu. Fannar Ingi var veikur heim og fékk því ekki að fara með en nú er búið að bæta úr því og fóru Fannar og Helgi í feðgaferð í klippingu á fimmtudaginn. Hér að ofan má sem sagt sjá útkomuna. Þess má geta að við förum alltaf á íslenska hárgreiðslustofu - auðvitað - allt svo íslenskt hjá okkur hér í DK!!! hhmmmmmmmmmmm
Annars er bara allt á fullu í lærdómi og útiveru í góðu veðri. Strákarnir þrír voru einir heima tvo daga (eina nótt) í vikunni þegar húsmóðirin skellti sér í verkefnavinnu í Köben. Þeir létu sér ekki leiðast og héldu grillpartý bæði kvöldin! Nú er bara verið að reyna að vinna og vinna, það verður að viðurkennast það þetta er ansi tæpt hjá mér með að ná að ljúka öllum verkefnunum. Ég á eftir að skrifa u.þ.b. 106 bls. af skilaverkefnum á 30 dögum (skil 27. maí) fyrir utan vikulegan lestur og dæmi fyrir fyrirlestrana sem hefur yfirleitt verið nóg fyrir vinnuvikuna! Var t.d. til kl. 00:00 í gærkvöldi og ætla nú snarlega að hætta þessu blog-veseni til að halda áfram!!!
Verð samt að minna ykkur á þá merkilegu staðreynd að það eru bara 12 dagar þangað til Jóel Kristinn verður 6 ára!!!!!!!!!! Getur það verið - hann sem fæddist eiginlega bara í fyrradag! En áður en að því kemur fáum við ömmu Guðlaugu í heimsókn. Það er eins gott að drífa sig í að læra svo maður nái a.m.k. að segja hæ og kannski aðeins að njóta þess að fá hana í heimsókn - þrátt fyrir annatíma.
Bestu kveðjur úr Beykiskóginum sem er að verða sumar-grænn!

Apr 20, 2008

Gaman hjá okkur!

Þá er helgin eiginlega liðin! Að þessu sinni var löng helgi þar sem að á föstudaginn var store bededag og þá eru auðvitað allir í fríi.

Við héldum upp á daginn með því að fara í Cirkus!! Þetta var sko svona alvöru - Cirkus Arena - 3 tíma show með fílum, hestum, sæljónum, trúðum, akrobati, Kung-fu listamönnum, brasilískum mótorhjólamönnum sem keyrðu í lítilli kúlu - fimm í einu!!! - og miklu miklu fleira. Þetta var skemmtun fyrir alla fjölskylduna - ekki bara minni börnin.........

Á laugardaginn fóru strákarnir í afmæli hjá vinum sínum og jafnöldrum hér í götunni. Bræður sem héldu upp á 4ra og 6 ára afmæli í sól og sumaryl. Við fullorðna fólkið söfnuðumst saman í öðrum garði og sóluðum okkur á meðan. Eftir laugardagsgrillið okkar var svo spilað við nágrannana.

Í dag var ekki ský í himni - í allan dag! Þvílík veðurblíða. Við bara sátum í garðinum, bökuðum sunnudags-súkkulaðikökuna og höfðum það gott. Seinni partinn skruppum við svo í göngutúr um lystbådehavnen að skoða allar flottu skúturnar. Þetta er æðislegt svæði - með veitingastöðum og huggulegheitum að dönskum stíl. Eigum pottþétt eftir að taka að skreppa þangað oftar. Ótrúlegt hvað það virðist endalaust vera hægt að finna nýja og nýja skemmtilega staði til að skreppa á hér í Árósum!

Eins og sést á þessari upptalningu - var EKKERT lært um þessa löngu helgi. Það var fyrst og fremst vegna veðurs - hmmmmm - en hvernig verður þetta þá í júní ef ekki er hægt að læra vegna veðurs í apríl!!!!!!!!!!
Nei, nú verða námsmennirnir að taka sig á og setja í gírinn - Power study alla næstu viku - ekkert annað í boði!!!

Jóel Kristinn er loksins búinn að fá bréf frá kommununni varðandi skóla fyrir næsta vetur. Hann var sem sagt metinn (úr dönskuprófinu - í janúar) þannig að hann fer í venjulegan bekk með meðalstuðning í dönsku. Það er bara fínt. Þar sem það er kvóti á fjölda tvítyngdra barna í hverjum bekk fékk hann ekki boð um hverfisskólann - eins og við bjuggumst eiginlega við - en fékk boð um Viby skole, sem er ekkert mikið lengra frá en hverfisskólinn. Það verður vonandi bara allt í lagi. Það eru reyndar nánast engar upplýsingar um skólann á netinu þannig að við vitum lítið um þennan skóla - annað að hann er þekktur fyrir að vera með mörg tvítyngd börn og kemur vel út úr 9. bekkja prófunum hér í DK.
Nú er bara að fara að huga að undirbúningi 6 ára afmælis stóra stráksins!!! Það er eiginlega bara ótrúlega stutt í 8. maí!
Verð að bæta við einu sætu gullkorni frá kvöldverðarborðinu áðan. Allt í einu og alveg upp úr þurru segir drengurinn: "Mér finnst mjög leiðinlegt að amma mín fótbrotnaði aftur!" (Amma Lóa er nefnilega búin að lærbrotna tvisvar í vetur). Það er sem er nú fallegast við þetta að hvorki amma Lóa né nokkuð henni tengt var til umræðu þannig að þetta koma bara beint frá hjartanu! Sætur!

Annars bara lærdómskveðjur,

Apr 15, 2008

fréttir úr sólskininu........

Hér er bara komið alvöru vor - svona eiginlega íslenskt sumar! Nú er t.d. sól og blíða um 13°C sem er bara frábært.

Staðan á fullorðna fólkinu er þannig að það styttist í próf og alls konar verkefnaskil en mikið magn óunnið. Þannig að það er nokkuð ljóst að við verðum að reyna að halda okkur aðeins innan dyra og stunda námið - við fluttum jú hingað til að læra!

Í síðustu viku voru strákarnir einir heima í tvo daga þar sem ég þurfti að vinna í hópverkefni inn í Köben. Það gekk bara vel og er ljóst að þeir geta verið einir heima, a.mk. í stuttan tíma í einu!

Um helgina höfðum við það bara rólegt og gott. Byrjuðum helgina á fótboltaæfingu og pizzu á föstudagseftirmiðdaginn. Á laugardeginum fórum við í óvissuferð hér um nágrennið okkar og uppgötvuðum nýjan leikvöll hér í nágrenninu sem við vissum ekkert um. Þar voru lítil fótboltamörk þar sem við kepptum í fótbolta mamman og Fannar Ingi á móti Jóel og pabbanum. Úrslitin voru þannig að Jóel tryggði sínu liði sigur m.a. með þvílíku glæsimarki að annað eins ................... Þarna var líka klifurveggur og fleira spennandi fyrir börn á öllum aldri, mjög gaman.

Á sunnudaginn skruppu strákarnir saman að veiða og fundu skemmtilegan stað hér ekki svo langt frá - það veiddist reyndar enginn fiskur en strákarnir höfðu allir gaman af þessu. Mamman tók svo á móti veiðimönnunum með vöfflum og fór svo út að leika á meðan pabbinn kíkti í bók - já það verður að lesa líka ekki bara að hafa gaman og slappa af.

Reyndar er það þannig að sunnudagskvöld eru orðin uppáhaldskvöld strákanna. Þá fá þeir að slást við pabba sinn! Það hefur sem sagt þróast sú skemmtilega hefð að eftir mat á sunnudögum fara strákarnir í sturtu og fá svo "að slást" við pabba sinn upp í okkar rúmi hreinir og fínir. Ótrúlegt hvað þetta framkallar mikla gleði hjá þeim bræðrum!

Bestu kveðjur úr Beykiskóginum,

Apr 7, 2008

Helgarlífið...........

Okkur fjölskyldunni hér í Beykiskóginum tekst einhvern veginn alltaf að skemmta okkur vel um helgar!

Við hófum nýliðna helgi með því að fara á fyrstu útiæfingu ársins í fótboltanum. Þar var gríðarlegur fjöldi af upprennandi knattspyrnumönnum mættir. Flestir voru þarna í glænýjum og glansandi takkaskóm en þar sem Jóel Kristinn hafði ekki enn eignast svoleiðis "pro" útbúnað varð hann að láta sér venjulega íþróttaskó duga - að þessu sinni. Nú þar sem við foreldrarnir viljum auðvitað standa okkur í hlutverkinu og veita drengjunum allt hið besta drifum við okkur í Sportmaster strax á laugardagsmorgun og fjárfestum í "komplet fodboldpakke" sem innihélt takkaskó, stuttbuxur og treyju auk sokka! Þannig að nú getum við fjölskyldan varla beðið eftir næstu æfingu!

Eftir æfinguna á föstudaginn vorum við svo heppin að okkar beið bara tilbúinn matur hjá einum nágrannanum. Og á laugardagskvöldið buðum við svo öðrum nágrönnum til okkar. Það er nefnilega þannig að við erum með grasekkjur sitthvorum megin við okkur (karlarnir á Íslandi) og þá getur verið gaman að fá félagsskap frá nágrönnunum auk þess sem strákarnir (sérstaklega Jóel) njóta þess þvílíkt að fá að borða með vinum sínum og vaka lengur ......... miklu lengur!

Í gær, sunnudag fórum við að heimsækja sumarhöll drottningarinnar hér í Árósum. Við höfðum aldrei áður skoðað höllina eða hallargarðinn og fórum því í góðan göngutúr um svæðið sem er opið þegar drottningin er ekki "heima". Í sumar þegar drottningin kemur þá verður garðurinn lokaður en í staðinn verður hægt að sjá hin frægu lífvarðaskipti kl. 12 að hádegi.
Við hliðina á hallargarðinum er skemmtilegur leikvöllur þar sem við lékum okkur þegar við vorum búin að rölta um hallargarðinn og stúdera listaverkin sem þar eru. Við enduðum svo ferðina niðrí bæ - þar sem strákarnir fengu að velja sér stað til að borða - þannig að við fengum að sjálfsögðu einn McDonalds til að draga aðeins niður í hinum heilbrigða lífsstíl.

Nú er sem sagt helgin búin og lærdómurinn tekin við. Húsmóðirin þarf meira að segja að gista eina nótt í Köben í vikunni þar sem hún þarf að læra svo roooosalega mikið í þessari viku! Þá verða strákarnir bara að sjá um sig sjálfir - eða fá hjálp frá nágrönnunum (joke...)

Bestu kveðjur,

Apr 4, 2008

Ein mynd


Þar sem ég á aldrei neinar myndir í tölvunni minni - set ég aldrei neinar myndir hér inn. Fékk eina mynd senda frá manninum sem átti afmæli 1. apríl. Skelli henni inn svona til að gefa ykkur innsýn í lífið á leikskólanum. Þarna eru þeir bræður Fannar Ingi og Jóel Kristinn að smíða á leikskólanum með Sigurði vini sínum.

Annars er að koma helgi ............... páskaliljurnar sprungnar út í garðinum. Í dag byrjar líka fótboltinn hjá Jóel á fullu aftur eftir hlé.


Bestu kveðjur

Mar 31, 2008

Þroskakippir og rólegheit

Jæja eftir páskaátið er allt komið í sinn vanalega gír - veikindatörnin búin - við farin að mæta aftur í ræktina og búin að brenna páskaeggjunum!

Lærdómurinn hefur tekið við. Æfingapróf og verkefnaskil til skiptis hjá okkur námsmönnunum og strákarnir bara leika sér - þrælgóðir eins og venjulega.

Þeir eru reyndar báðir að taka einhverja þroskakippi. Nú er auðvitað rétt rúmlega mánuður þangað til Jóel Kristinn verður 6 ára og heimspekilegar pælingar hans eru ótrúlega skemmtilegar þessa dagana. Hann er mjög áhugasamur um Ástrík og Steinrík þessa dagana þar sem Herkúles og rómversku guðirnir eru söguhetjur (heyrist mér af því sem ég heyri útundan mér af þessu sjónvarpsefni). Nú drengurinn er þvílíkt upptekinn af því að spá í guð, ósýnileika og aðrar álíka tilvistarpælingar en fær yfirleitt sömu svörin frá móður sinni, "ég veit nú ekki hvernig það er, en hvað heldur þú?" Ég sem sagt ræð ekkert við að svara spurningum barnsins og læt hann bara svara sér sjálfur og þá myndast bara nýjar skemmtilegar hugleiðingar!
Í bílnum á föstudaginn sagði hann líka "mamma, ég sakna allra vina minna og afanna og ömmurnar mínar á Íslandi. Mest sakna ég samt langafa sem er dáinn því ég hitti hann ekki aftur". Bara sætur!

Fannar Ingi er líka að stækka og þroskast, hann er farinn að ræða málin og koma með athugasemdir sem maður trúir varla að "litla krílið" láti frá sér. Hans stærsta áhugamál þessa dagana er að verða næst 4 ára og svo 5 ára og sýnir aldurinn alltaf á puttunum á sér. Það er nefnilega þannig að 5 ára börnin eru svo oft "på tur" á leikskólanum og Fannar Ingi er að bíða eftir því að verða 5 ára og komast oftar "på tur". Reyndar er hann einmitt "på tur" í dag, fór í heimsókn í annan leikskóla. Jóel Kristinn fór síðast á föstudag en þá var Naturholdet (sem eru elstu krakkarnir) boðið í heimsókn í tannlæknaskólann þar sem þau fengu að skoða allar tannlæknagræjurnar - ótrúlega spennandi.

Á morgun á svo húsbóndinn, kokkurinn, golfarinn, ljósmyndaáhugamaðurinn, viðskiptafræðineminn, ......... Helgi Kristinn afmæli. Þá fær hann pakka...................

Bestu kveðjur til ykkar allra, sérstaklega ömmu í sveitinni
Beykiskógarfjölskyldan á 215

Mar 25, 2008

Í hvaða landi búum við?

Ég var að koma heim með strákana af leikskólanum. Þegar við komum inn úr dyrunum, setjast drengirnir niður við eldhúsborðið í rólegheitunum til að fá smá hressingu eftir átök dagsins. Á svona stundum er oft spjallað, eftirfarandi spjall átti sér stað áðan:
Jóel: mamma afhverju ert þú ekki með svona hettu yfir hárinu eins og hinar mömmurnar?
mamman: ha?
Jóel: já eða sko næstum allar mömmurnar, svona eins og bóndakonur eða þannig?
.........
þess má geta að mamman varð eiginlega hálf orðlaus því hún hélt að hún hefði farið með fjölskylduna til Danmerkur ............ en hver veit kannski erum við bara í vitleysu landi........ það er ekki furða að mér finnist erfitt að skilja dönskuna, kannski er þetta bara alls ekki danska........

með bestu kveðju frá útlöndum

Mar 23, 2008

Gleðilega páska! - og nýtt gengi...........

Jæja hér er nú aldeilis búið að vera gaman - eða kannski fyrst of fremst gott að borða - sem er gaman!
Fyrir viku síðan kom Kristín Hrefna í langþráða heimsókn. Hún kom með flugi til Billund frá Osló þar sem hún var í einhverri vinnutengdri ferð, sem sagt pólitík! Um leið og Kristín mætti á svæðið byrjaði mikil átveisla. Hún kom auðvitað með íslenskt nammi í poka (nokkuð stórum) með sér og svo var hún einnig búin að lýsa því yfir að einu áhyggjurnar hennar af ferðinni snerust um hvort hún fengi gott að borða! Við höfum líka reynt að viðra hana reglulega, skruppum í gönguferð á ströndina þar sem Helgi "neyddist" til að vaða út í ískaldan sjóinn til að bjarga verðmætum American Style frisbí-diski sem lenti óvart í sjónum - Helgi er í stuttu máli búinn að vera veikur síðan!!!

Í páskafríinu var leikskólinn lokaður alla vikuna fyrir páska sem þýðir að samtals fá drengirnir 10 daga páskafrí - við bætast svo 9 daga veikindafrí, þannig að samtal verður Fannar Ingi í 19 daga fríi, hann er líka farinn að spyrja um leikskólann á hverjum morgni. Á meðan Helgi og Kristín tóku svona sófadag sl. mánudag fór ég í skólann til Köben, þar mætti bara hálfur bekkurinn þar sem fólk var komið í páskafrí. Á þriðjudeginum skruppum við Kristín Hrefna svo með Jóel og Fannar í Legoland á meðan Helgi lá veikur heima. Það var auðvitað rosa gaman. Reyndar svolítið kalt en hvergi raðir og svo fórum við í 4D bíó og skoðuðum vel allt sem var innan hús á milli þess sem strákarnir fóru á kostum (og við stelpurnar líka) í tækjunum.
Á miðvikudag kom svo Borgar til okkar og þá hófst matarveislan fyrir alvöru.

Á miðvikudag varð líka skyndilega helmingi dýrara að búa hér í Danmörku. Eitt stærsta verkefni okkar þessa dagana er að reyna að hafa húmor fyrir þessu "nýja" gengi á dönsku krónunni. Við til dæmis versluðum í matinn á miðvikudaginn og í íslenskum krónum kostaði matarkarfan u.þ.b. 50% meira en hún hefði kostað fyrr í vetur. Við erum með ógreidda reikninga upp í hillu sem eru á gjalddaga eftir mánaðamót -þeir hafa hækkað um u.þ.b. 20%
síðan við fengum þá senda! Staðan er nefnilega þannig að við höfum engar tekjur í dönskum krónum, þannig að við þurfum að millifæra íslenskar krónur fyrir öllu sem við gerum hér - og í stuttu máli þá er þetta stórmál ef þetta verður niðurstaðan..................... ekki það að við séum að kvarta....................... strákunum finnst grjónagrautur góður!

Það er fleira sem hefur tekið óvænta niðursveiflu á síðustu dögum en það er hitastigið. Í allan vetur er búið að vera "vor". Við fengum einu sinni smá snjó sem var farinn morguninn eftir og 2 - 3 hefur orðið kalt. 1. mars hófst svo vorið skv. dagatalinu hér í DK, blómin farin að springa út, brum komið á tré og hitastigið oftast nálægt 10°C................ en svo komu Kristín og Borgar með golfsettið og um leið kom snjór, frost og almennur "skítakuldi".
Helgi og Borgar létu sig nú samt hafa það og fóru tvisvar sinnum í golf í vikunni (svona á milli þess sem Helgi var veikur) og núna er Borgar veikur - en það er í lagi, þeir komust í golf!

Jæja, nú er páskadagur með tilheyrandi átveislu framundan - fengum íslenskt páskalamb sent frá Selfyssingunum og verður það borðað í kvöld, þangað til borðum við íslensk Nóa Siríus páskaegg og njótum dagsins með íslensku gestunum okkar............

Jæja, best að fara að undirbúa páska"brunch".....

Með páskakveðju,

Mar 11, 2008

Sjúklingalíf

Það kom að því! Þeir bræður hafa verið svo heppnir að missa ekki dag úr leikskólanum vegna veikinda frá því er þeir byrjuðu, 16. ágúst í fyrrasumar en nú er Fannar Ingi orðinn lasinn.
Hann sem sagt var lasinn um helgina en hitalaus í gær (mánudag) og héldum við að hann kæmist aftur á leikskólann í dag þriðjudag og gæti því verið með í "ferðalaginu" í dag. En í morgun var hann aftur rokinn yfir 39 gráðurnar og lá eins og slytti í allan dag, svaf og slappaði af til skiptis, miklu meira veikur en um helgina........... fúúúúlt! En það þýðir sko ekki að kvarta ekki mörg leikskólabörn sem ná svona löngum tímabilum án veikinda.................... og þó betra að vera lasinn núna en í næstu viku þegar allir eru í páskafríi og Kristín Hrefna - með alla sína aksjón - mætt á svæðið.
Verð víst að viðurkenna að litli snáðinn náði líka að smita mömmu sína sem vaknaði einnig með hita í morgun og því erum við búin að liggja saman í allan dag!

Það er útivist og fjör á leikskólanum alla vikuna - þetta er sem sagt síðasta vikan fyrir páskafrí þar sem það er lokað alla næstu viku. Endalaust verið að kveikja bál og poppa, baka brauðbollur o.s.frv á bálinu - voða gaman örugglega. Í dag fór allur leikskólinn saman í Bøgeskov gård sem er víst leikvöllur hér rétt hjá okkur og áttu allir að mæta með frokost-nesti í léttum bakpoka. Voða spennandi allt saman. Auðvitað missti Fannar af þessu en honum var nú alveg saman. Jóel Kristinn sagði samt þegar hann kom heim í dag að honum finndist betra að hafa Fannar hjá sér á leikskólanum af því að þegar hann verður eitthvað leiður þá kemur Fannar Ingi alltaf til hans og spyr hvað sé að! Þeir eru nú dáááldið góðir bræður!!!!

Skólinn er víst í fullum gangi hjá okkur fullorðnafólkinu - við kannski þurfum "aðeins" að auka við lesturinn eftir páskafrí en vonandi er þetta allt í lagi. Ég ætla að skila fyrsta hópverkefninu mínu á dönsku á mánudaginn. Skrepp til Köben á föstudag, heim til einnar í bekknum og við ætlum að vippa upp svokölluðu mini-projekti. Fyrir áhugasama þá erum við semsagt að fara að setja um diffurjöfnu módel sem lýsir útbreiðslu smitsjúkdóma í ákveðnu umhverfi! Þeir sem hafa gagnlegar ábendingar - rétt upp hönd!

Sendum Bentu systur svo aðalkveðjur dagsins!

Bestu kveðjur úr Beykiskóginum

Mar 4, 2008

Sumarbústaðarferð og skemmtilegheit

Um helgina skruppum við ásamt okkar næstu nágrönnum í sumarbústaðarferð til Vestur-Jótlands (Ringköbing fjord). Það var ekki leiðinlegt! Við vorum reyndar nánast viss um að það yrði brotist inn hjá einhverju okkar þar sem þrjú hús í röð voru alveg mannlaus alla helgina, engir bílar hjá húsunum inn í þessari lokuðu götu. Í hvert skipti sem síminn hringdi um helgina vorum við viss um að það væri símtal frá Þórunni um að nú væri búið að hreinsa út úr húsinu. (Þórunn býr sko líka í götunni okkar)............. en viti menn ekkert símtal og allt á sínum stað þegar við komum heim!

Ferðalagið gekk reyndar mest út á mat - sem er vel við hæfi þar sem flestir í götunni eru í þvílíku átaki og hafa kílóin verið að fljúga af fólki (ekki af okkur hér á 215 samt - við erum bara í ræktinni til að lifa svolítið heilsusamlegra lífi - og kílóin fara um leið þá er það bara plús!!!)
Við fórum nú líka á milli máltíða í góðan bíltúr um svæðið sem er mjög skemmtilegt og örugglega algjör paradís á sumrin og smá göngutúr til að gera okkur klár í næstu máltíð...........
Eins og í flestum sumarbústaðarferðum var skroppið í pottinn og svo var spilað fram á nótt. Að þessu sinni var spilaður póker - sem er mikið spilaður hér í götunni, sérstaklega af karlmönnunum. Ég hafði reyndar ekki spilað póker áður en hafði nú lítið val um annað en að læra spilið snarlega og hafði bara gaman af (og stóð mig alveg vel...).

Drengirnir nutu sín vel í bústaðnum. Þeir voru þarna með tveimur nágrannastrákum sem eru reyndar aðeins eldri en þeir en það var alveg í góðu lagi. Fannar Ingi tók smá syrpu í að prófa sig áfram með að segja ljóta hluti við foreldra sína - svona til að tékka á viðbrögðunum. Nú er sem sagt ljóst að dónaskap læra börn á leikskólanum. Allavegana er það eini staðurinn sem Fannar heyrir dönsku og hann kann bara að vera dónalegur á dönsku!!!! "Du dumme far/mor!" Svo veit hann ekkert hvað þetta þýðir á íslensku - hehe!

Nú einhverjir eru farnir að skipuleggja sumarfrí - þið skemmtilega fólk sem ætlið að hitta okkur í sumar t.d. með því að heimsækja okkur mættuð alveg fara að hafa samband með hugmyndir að dagsetningum svo við getum pússlað sumrinu saman sem allra best. Það væri allavegana fúlt að við værum búin að kaupa flugmiða heim til Íslands á sama tíma og þið komið út að heimsækja okkur!
Ég er í prófum 16 - 27. júní og Helgi eitthvað aðeins fyrr (höldum við).

Bestu kveðjur,

Feb 28, 2008

Afmæliskveðjur heim til Íslands

Eitt af því sem erfiðast við að búa í útlöndum er að vera í burtu þegar aðal fólkið á afmæli eða eitthvað svoleiðis.
Pabbi - afi Jóel - átti afmæli 21. febrúar og er ekki búinn að fá kossa og knús frá Beykiskógarfjölskyldunni.

Teitur "litli bróðir" er 25 ára í dag og fær einnig kossa og knús frá okkur öllum"

Skrítið þegar litlu systkini manns eru að verða jafn gömul og maður sjálfur!

Bestu kveðjur,

Feb 24, 2008

This is my life!

Frábært!
Við hér í DK fullkomlega sátt - en ekki hvað! Hér var auðvitað Euro-partý og horft í gegnum netið - allt ætlaði um koll að keyra þega ruv.is slökkti á útsendingunni kl. 23:00 (auglýstur útsendingatími búinn) og við fengum ekki að fylgjast með spennunni þegar úrslitin voru tilkynnt, frekar fúllt - en útsendingin kom aftur inn og náðum við að fagna sigri þegar lagið var endurtekið.

Verst að keppnin er ekki haldin hér í Danaveldi þetta árið - það væri ekki leiðinlegt að vera í salnum og sveifla íslenska fánanum með Regínu á sviðinu! Það verður a.m.k. Eurovision-partý að bestu gerð þetta árið. Mikið ógeeeeeeeeðsleeeeeega verður gaman.

Elsku Regína þú veist að við erum óóóóótrúlega stolt af þér - eins og alltaf!

Eurokveðjur

Feb 22, 2008

Ræktin!!!!!!!!!

Jamms, hvort sem þið trúið því eða ekki - við hjónin erum búin að kaupa kort í ræktinni. Mætum nú nánast daglega í Equinox sem er auðvitað í eigu Íslendinga (World Class) og æfum þar með öllum hinum Íslendingunum. Það er eiginlega dálítið fyndið að fyrst þegar við mættum voru Íslendingarnir sem eru búnir að æfa þarna lengur en við að benda okkur á Tyrkina sem hópa sig þarna saman og láta eins og þetta sé einhver félagsmiðstöð - ................................ þegar við mættum í dag vorum við þarna 4 úr götunni á sama tíma og 2 ný farin og í gærmorgun vorum við einmitt 5 Íslendingarnir úr Beykiskóginum á sama tíma................ þetta er náttúrulega ekki hægt að Tyrkirnir hópi sig svona saman þarna í stöðinni......... Sem sagt hver veit nema við komum bara til með að líta þokkalega út - í góðu formi a.m.k. næst þegar við hittumst!

Annars bara allt í góðu gengi hér. Strákarnir í fínu formi. Jóel Kristinn fer á kostum í reikningi þessa dagana, svarar einföldum plús og mínus dæmum nánast án umhugsunar og notar svo puttana eða aðrar aðferðir þegar tölurnar stækka. Í dag í kaffinu spurði hann okkur foreldrarna stoltur hvað 100 + 100 væri, við auðvitað sögðum bara hmmm.....? En var svaraði sjálfur, nú 200! Í gær skrapp Helgi í smá Þýskalandsferð. Við hin lágum upp í rúmi og lásum Línu langsokk en Fannar Ingi sofnaði yfir bókinni og þá fórum við Jóel Kristinn að spjalla og vildi hann fara í stærðfræðileik, sem er þannig að við skiptumst á að búa til dæmi sem við reiknum svo til skiptis. Nú svo fórum við að spjalla um eitt og annað og spurði ég hann, hvað hann myndi vilja æfa og verða góður í þegar hann verður unglingur ég kom með hugmyndir eins og fótbolta, handbolta...... dans, söng, hljóðfæri og átti auðvitað von á því að svarið yrði fótbolti eða kannski dans - það er nefnilega mikið dansað þessa dagana. En nei, minn svaraði ákveðið - ég ætla vera góður í skóla!
Ég held kannski að við foreldrarnir ættum að fara endurskoða umræðuefnið á heimilinu og snúa okkur að fótboltaumræðum..............

Jæja, skemmtileg helgi framundan. Eurovision á Íslandi - varla hægt að lesa nokkuð íslenskt blað eða opna fyrir beinar útsendingar frá íslenskum fjölmiðlum án þess að allt sé veggfóðrað með Hey.... Hó klúbbnum. Þvílík auglýsingaherferð................... held samt með Regínu .......... ekki að það komi nokkrum á óvart. Enska útgáfan This is my life er mjög flott og gaman að lesa jákvæð comment um þau hjá Eurovision-nördunum á ESC today. Áfram Regína!!!

Góða helgi

Feb 16, 2008

.............það er að brenna..........

Nei, nei............. það hefur bara verið nokkuð rólegt í kringum okkur hér í Beykiskóginum! Reyndar lásum við í blöðunum að það var kveikt í bíl og endurvinnslugámi hér í næstu götu en mestu ólætin hér í Árósum hafa verið í Gellerup þar sem mikill fjöldi innflytjenda býr. Annars vonar maður auðvitað að ástandið fari að róast. Bækistöðvar Jyllands Posten eru hér í okkar hverfi og leikskóli drengjanna er bara örstutt frá..........

Það hefur verið nóg að gera í vikunni. Tvær ferðir húsmóðurinnar til Köben og meira að segja átti ég að vera þar þrjá daga í vikunni en það er bara í hreinskilni sagt of mikið - þannig að ég "skrópaði" einn dag. Á fimmtudag (eftir skóla) skelltum við okkur fjölskyldan í strætóferð niður í bæ - ótrúlega spennandi. Löbbuðum um í göngugötunni og fórum út að borða á Pizza Hut og svo í strætó heim um áttaleytið. Jóel Kristni og Fannari Inga finnst ótrúlega gaman í strætó en Fannar náði nú samt að steinsofna í sætinu sínu við hliðina á stóra bróður á leiðinni heim - þvílík dúlla!

Í Árósum var vetrarfrí í skólum og hjá fjölmörgum fjölskyldum alla síðustu viku. Leikskólinn var opinn en ekki svo mörg börn - aðallega öll íslensku börnin - hehe! Hér er sem sagt vetrarfrí núna í heila viku, mér sem finnst ég varla byrjuð aftur eftir jólafrí - og svo er einmitt svo stutt í páskafríið!!!! Því miður var samt ekki vetrarfrí í skólunum okkar Helga og voru okkar drengir því á leikskólanum mest alla vikuna. Þar sem börnin voru færri en venjulega var boðið upp á alls konar lúxus, nammi, videó og svoleiðis skemmtilegtheit. Við fengum reyndar samviskubit yfir því að okkar drengir fengju ekkert frí þannig að þeir fengu frí á föstudag - svona rólegan lúxusdag með mömmu sinni þar sem pabbinn var í skólanum allan daginn. Við spiluðum löngu vitleysu, lásum bækur, bökuðum köku og fleira skemmtilegt...................... það mætti gjarnan vera svona vetrarfrí alla daga...................

Annars er vika í úrslit íslenska Eurovision - höfum verið að horfa á lögin á netinu og haft gaman af - sumu. Ég þarf líklega ekkert að útskýra hvaða lag ég vil senda til Serbíu................ Hef reyndar haft mjög gaman af Hey hey hey, say ho ho ho auk þess að hafa alltaf haft gaman af Barða og mikið álit á honum sem tónlistarmanni. Ég verð bara að viðurkenna að ég efast um að hópurinn (nema Ceres4 - heitir hann það ekki) sé tilbúinn í live flutning í beinni útsendingu og því gríðarstóra apparati sem keppnin úti er fyrst útkoman varð svona vandræðaleg í "litlum" sjónvarpsþætti sl. laugardag. Mín skoðun er bara sú að það þurfi meiri reynslu til að ráða hreinlega við að skila kraftinum og húmornum til allrar Evrópu ef þetta á að vera skemmtilegt - sorrý - bara mín skoðun!
Sem sagt skemmtum okkur með Hey...Ho... heima á Íslandi en sendum svo eitthvað traust út til Evrópu t.d Regínu og Friðrik!

Skruppum til Horsens í dag.................. að hitta skemmtilegt fólk! Það er sem sagt þorrablót í Horsens í kvöld þar sem Bermúda spilar og Daði vinur okkar sér um hljóðið hjá þeim. Skelltum okkur því í bíltúr til Horsens (30 mín) til að hitta Daða og Þóru Sif. Það var sko frábært að fá aðeins að hitta vini sína að heiman - þó það hafi bara verið örstutt - enginn tími fyrir matarboð, spil eða annað. Jóel Kristinn var alsæll með ferðina, við fórum nefnilega í salinn þar sem hljómsveitin var að "soundtékka" og var drengurinn þvílíkt spenntur að fá að heyra í hljómsveitinni. Við fengum líka nýja diskinn þeirra - sem var spilaður bæði í bílnum og eftir að við komum heim og bað Jóel okkur um að hækka svona 20 - 30 sinnum (Fannar fékk bara hausverk - fannst "soundtékkið" allt of hátt!!!).
Jóel kvartaði líka undan því að Aníta væri ekki með pabba sínum en tók alveg gleði sína þegar hljómsveitin byrjaði að spila.

Sunnudagur á morgun og örugglega kaffi í Sveitinni - við erum orðin nokkuð flink í að sjá um sunnudagskaffið sjálf - þó svo að ekkert komi í staðinn fyrir Sveitina á sunnudegi!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Bestu kveðjur