Mar 31, 2008

Þroskakippir og rólegheit

Jæja eftir páskaátið er allt komið í sinn vanalega gír - veikindatörnin búin - við farin að mæta aftur í ræktina og búin að brenna páskaeggjunum!

Lærdómurinn hefur tekið við. Æfingapróf og verkefnaskil til skiptis hjá okkur námsmönnunum og strákarnir bara leika sér - þrælgóðir eins og venjulega.

Þeir eru reyndar báðir að taka einhverja þroskakippi. Nú er auðvitað rétt rúmlega mánuður þangað til Jóel Kristinn verður 6 ára og heimspekilegar pælingar hans eru ótrúlega skemmtilegar þessa dagana. Hann er mjög áhugasamur um Ástrík og Steinrík þessa dagana þar sem Herkúles og rómversku guðirnir eru söguhetjur (heyrist mér af því sem ég heyri útundan mér af þessu sjónvarpsefni). Nú drengurinn er þvílíkt upptekinn af því að spá í guð, ósýnileika og aðrar álíka tilvistarpælingar en fær yfirleitt sömu svörin frá móður sinni, "ég veit nú ekki hvernig það er, en hvað heldur þú?" Ég sem sagt ræð ekkert við að svara spurningum barnsins og læt hann bara svara sér sjálfur og þá myndast bara nýjar skemmtilegar hugleiðingar!
Í bílnum á föstudaginn sagði hann líka "mamma, ég sakna allra vina minna og afanna og ömmurnar mínar á Íslandi. Mest sakna ég samt langafa sem er dáinn því ég hitti hann ekki aftur". Bara sætur!

Fannar Ingi er líka að stækka og þroskast, hann er farinn að ræða málin og koma með athugasemdir sem maður trúir varla að "litla krílið" láti frá sér. Hans stærsta áhugamál þessa dagana er að verða næst 4 ára og svo 5 ára og sýnir aldurinn alltaf á puttunum á sér. Það er nefnilega þannig að 5 ára börnin eru svo oft "på tur" á leikskólanum og Fannar Ingi er að bíða eftir því að verða 5 ára og komast oftar "på tur". Reyndar er hann einmitt "på tur" í dag, fór í heimsókn í annan leikskóla. Jóel Kristinn fór síðast á föstudag en þá var Naturholdet (sem eru elstu krakkarnir) boðið í heimsókn í tannlæknaskólann þar sem þau fengu að skoða allar tannlæknagræjurnar - ótrúlega spennandi.

Á morgun á svo húsbóndinn, kokkurinn, golfarinn, ljósmyndaáhugamaðurinn, viðskiptafræðineminn, ......... Helgi Kristinn afmæli. Þá fær hann pakka...................

Bestu kveðjur til ykkar allra, sérstaklega ömmu í sveitinni
Beykiskógarfjölskyldan á 215

Mar 25, 2008

Í hvaða landi búum við?

Ég var að koma heim með strákana af leikskólanum. Þegar við komum inn úr dyrunum, setjast drengirnir niður við eldhúsborðið í rólegheitunum til að fá smá hressingu eftir átök dagsins. Á svona stundum er oft spjallað, eftirfarandi spjall átti sér stað áðan:
Jóel: mamma afhverju ert þú ekki með svona hettu yfir hárinu eins og hinar mömmurnar?
mamman: ha?
Jóel: já eða sko næstum allar mömmurnar, svona eins og bóndakonur eða þannig?
.........
þess má geta að mamman varð eiginlega hálf orðlaus því hún hélt að hún hefði farið með fjölskylduna til Danmerkur ............ en hver veit kannski erum við bara í vitleysu landi........ það er ekki furða að mér finnist erfitt að skilja dönskuna, kannski er þetta bara alls ekki danska........

með bestu kveðju frá útlöndum

Mar 23, 2008

Gleðilega páska! - og nýtt gengi...........

Jæja hér er nú aldeilis búið að vera gaman - eða kannski fyrst of fremst gott að borða - sem er gaman!
Fyrir viku síðan kom Kristín Hrefna í langþráða heimsókn. Hún kom með flugi til Billund frá Osló þar sem hún var í einhverri vinnutengdri ferð, sem sagt pólitík! Um leið og Kristín mætti á svæðið byrjaði mikil átveisla. Hún kom auðvitað með íslenskt nammi í poka (nokkuð stórum) með sér og svo var hún einnig búin að lýsa því yfir að einu áhyggjurnar hennar af ferðinni snerust um hvort hún fengi gott að borða! Við höfum líka reynt að viðra hana reglulega, skruppum í gönguferð á ströndina þar sem Helgi "neyddist" til að vaða út í ískaldan sjóinn til að bjarga verðmætum American Style frisbí-diski sem lenti óvart í sjónum - Helgi er í stuttu máli búinn að vera veikur síðan!!!

Í páskafríinu var leikskólinn lokaður alla vikuna fyrir páska sem þýðir að samtals fá drengirnir 10 daga páskafrí - við bætast svo 9 daga veikindafrí, þannig að samtal verður Fannar Ingi í 19 daga fríi, hann er líka farinn að spyrja um leikskólann á hverjum morgni. Á meðan Helgi og Kristín tóku svona sófadag sl. mánudag fór ég í skólann til Köben, þar mætti bara hálfur bekkurinn þar sem fólk var komið í páskafrí. Á þriðjudeginum skruppum við Kristín Hrefna svo með Jóel og Fannar í Legoland á meðan Helgi lá veikur heima. Það var auðvitað rosa gaman. Reyndar svolítið kalt en hvergi raðir og svo fórum við í 4D bíó og skoðuðum vel allt sem var innan hús á milli þess sem strákarnir fóru á kostum (og við stelpurnar líka) í tækjunum.
Á miðvikudag kom svo Borgar til okkar og þá hófst matarveislan fyrir alvöru.

Á miðvikudag varð líka skyndilega helmingi dýrara að búa hér í Danmörku. Eitt stærsta verkefni okkar þessa dagana er að reyna að hafa húmor fyrir þessu "nýja" gengi á dönsku krónunni. Við til dæmis versluðum í matinn á miðvikudaginn og í íslenskum krónum kostaði matarkarfan u.þ.b. 50% meira en hún hefði kostað fyrr í vetur. Við erum með ógreidda reikninga upp í hillu sem eru á gjalddaga eftir mánaðamót -þeir hafa hækkað um u.þ.b. 20%
síðan við fengum þá senda! Staðan er nefnilega þannig að við höfum engar tekjur í dönskum krónum, þannig að við þurfum að millifæra íslenskar krónur fyrir öllu sem við gerum hér - og í stuttu máli þá er þetta stórmál ef þetta verður niðurstaðan..................... ekki það að við séum að kvarta....................... strákunum finnst grjónagrautur góður!

Það er fleira sem hefur tekið óvænta niðursveiflu á síðustu dögum en það er hitastigið. Í allan vetur er búið að vera "vor". Við fengum einu sinni smá snjó sem var farinn morguninn eftir og 2 - 3 hefur orðið kalt. 1. mars hófst svo vorið skv. dagatalinu hér í DK, blómin farin að springa út, brum komið á tré og hitastigið oftast nálægt 10°C................ en svo komu Kristín og Borgar með golfsettið og um leið kom snjór, frost og almennur "skítakuldi".
Helgi og Borgar létu sig nú samt hafa það og fóru tvisvar sinnum í golf í vikunni (svona á milli þess sem Helgi var veikur) og núna er Borgar veikur - en það er í lagi, þeir komust í golf!

Jæja, nú er páskadagur með tilheyrandi átveislu framundan - fengum íslenskt páskalamb sent frá Selfyssingunum og verður það borðað í kvöld, þangað til borðum við íslensk Nóa Siríus páskaegg og njótum dagsins með íslensku gestunum okkar............

Jæja, best að fara að undirbúa páska"brunch".....

Með páskakveðju,

Mar 11, 2008

Sjúklingalíf

Það kom að því! Þeir bræður hafa verið svo heppnir að missa ekki dag úr leikskólanum vegna veikinda frá því er þeir byrjuðu, 16. ágúst í fyrrasumar en nú er Fannar Ingi orðinn lasinn.
Hann sem sagt var lasinn um helgina en hitalaus í gær (mánudag) og héldum við að hann kæmist aftur á leikskólann í dag þriðjudag og gæti því verið með í "ferðalaginu" í dag. En í morgun var hann aftur rokinn yfir 39 gráðurnar og lá eins og slytti í allan dag, svaf og slappaði af til skiptis, miklu meira veikur en um helgina........... fúúúúlt! En það þýðir sko ekki að kvarta ekki mörg leikskólabörn sem ná svona löngum tímabilum án veikinda.................... og þó betra að vera lasinn núna en í næstu viku þegar allir eru í páskafríi og Kristín Hrefna - með alla sína aksjón - mætt á svæðið.
Verð víst að viðurkenna að litli snáðinn náði líka að smita mömmu sína sem vaknaði einnig með hita í morgun og því erum við búin að liggja saman í allan dag!

Það er útivist og fjör á leikskólanum alla vikuna - þetta er sem sagt síðasta vikan fyrir páskafrí þar sem það er lokað alla næstu viku. Endalaust verið að kveikja bál og poppa, baka brauðbollur o.s.frv á bálinu - voða gaman örugglega. Í dag fór allur leikskólinn saman í Bøgeskov gård sem er víst leikvöllur hér rétt hjá okkur og áttu allir að mæta með frokost-nesti í léttum bakpoka. Voða spennandi allt saman. Auðvitað missti Fannar af þessu en honum var nú alveg saman. Jóel Kristinn sagði samt þegar hann kom heim í dag að honum finndist betra að hafa Fannar hjá sér á leikskólanum af því að þegar hann verður eitthvað leiður þá kemur Fannar Ingi alltaf til hans og spyr hvað sé að! Þeir eru nú dáááldið góðir bræður!!!!

Skólinn er víst í fullum gangi hjá okkur fullorðnafólkinu - við kannski þurfum "aðeins" að auka við lesturinn eftir páskafrí en vonandi er þetta allt í lagi. Ég ætla að skila fyrsta hópverkefninu mínu á dönsku á mánudaginn. Skrepp til Köben á föstudag, heim til einnar í bekknum og við ætlum að vippa upp svokölluðu mini-projekti. Fyrir áhugasama þá erum við semsagt að fara að setja um diffurjöfnu módel sem lýsir útbreiðslu smitsjúkdóma í ákveðnu umhverfi! Þeir sem hafa gagnlegar ábendingar - rétt upp hönd!

Sendum Bentu systur svo aðalkveðjur dagsins!

Bestu kveðjur úr Beykiskóginum

Mar 4, 2008

Sumarbústaðarferð og skemmtilegheit

Um helgina skruppum við ásamt okkar næstu nágrönnum í sumarbústaðarferð til Vestur-Jótlands (Ringköbing fjord). Það var ekki leiðinlegt! Við vorum reyndar nánast viss um að það yrði brotist inn hjá einhverju okkar þar sem þrjú hús í röð voru alveg mannlaus alla helgina, engir bílar hjá húsunum inn í þessari lokuðu götu. Í hvert skipti sem síminn hringdi um helgina vorum við viss um að það væri símtal frá Þórunni um að nú væri búið að hreinsa út úr húsinu. (Þórunn býr sko líka í götunni okkar)............. en viti menn ekkert símtal og allt á sínum stað þegar við komum heim!

Ferðalagið gekk reyndar mest út á mat - sem er vel við hæfi þar sem flestir í götunni eru í þvílíku átaki og hafa kílóin verið að fljúga af fólki (ekki af okkur hér á 215 samt - við erum bara í ræktinni til að lifa svolítið heilsusamlegra lífi - og kílóin fara um leið þá er það bara plús!!!)
Við fórum nú líka á milli máltíða í góðan bíltúr um svæðið sem er mjög skemmtilegt og örugglega algjör paradís á sumrin og smá göngutúr til að gera okkur klár í næstu máltíð...........
Eins og í flestum sumarbústaðarferðum var skroppið í pottinn og svo var spilað fram á nótt. Að þessu sinni var spilaður póker - sem er mikið spilaður hér í götunni, sérstaklega af karlmönnunum. Ég hafði reyndar ekki spilað póker áður en hafði nú lítið val um annað en að læra spilið snarlega og hafði bara gaman af (og stóð mig alveg vel...).

Drengirnir nutu sín vel í bústaðnum. Þeir voru þarna með tveimur nágrannastrákum sem eru reyndar aðeins eldri en þeir en það var alveg í góðu lagi. Fannar Ingi tók smá syrpu í að prófa sig áfram með að segja ljóta hluti við foreldra sína - svona til að tékka á viðbrögðunum. Nú er sem sagt ljóst að dónaskap læra börn á leikskólanum. Allavegana er það eini staðurinn sem Fannar heyrir dönsku og hann kann bara að vera dónalegur á dönsku!!!! "Du dumme far/mor!" Svo veit hann ekkert hvað þetta þýðir á íslensku - hehe!

Nú einhverjir eru farnir að skipuleggja sumarfrí - þið skemmtilega fólk sem ætlið að hitta okkur í sumar t.d. með því að heimsækja okkur mættuð alveg fara að hafa samband með hugmyndir að dagsetningum svo við getum pússlað sumrinu saman sem allra best. Það væri allavegana fúlt að við værum búin að kaupa flugmiða heim til Íslands á sama tíma og þið komið út að heimsækja okkur!
Ég er í prófum 16 - 27. júní og Helgi eitthvað aðeins fyrr (höldum við).

Bestu kveðjur,