Dec 25, 2008

Gleðileg jól!

Við fjölskyldan sendum ykkur öllum okkar bestu óskir um gleðileg jól!

Við höfum það mjög gott hér í Danaveldinu.  Jólaundirbúningurinn gekk vel og miðað við það sem við erum vön frá fyrri árum vorum við bara tímanlega með þetta allt saman. Á mánudaginn redduðum við síðustu pökkunum og sóttum hamborgarahrygginn sem var pantaður hjá slátraranum til að fá hann með beini. Á Þorláksmessu var jólagjafarúnturinn farinn. Í stað þess að keyra frá Kópavogi um alla Reykjavík og út á Seltjarnarnes með viðkomu í Mosfellsdal og enda á Selfossi var bara farið á einn stað - til Gedved!

Um kaffileytið á Þorláksmessu, eftir jólagjafarúntinn var komið að því að versla það sem vantaði í matinn.  Við hálf kviðum því að fara með drengina í verslunarleiðangur um kaffileytið á Þorláksmessu, áttum auðvitað von á lööööngum röðum á kassana og troðningi í búðinni en létum okkur nú hafa það og stefndum í Bilka.  Þegar þangað var komið var óvenju mikið úrval af bílastæðum og einstaklega rólegt í búðinni og engin röð á kassana.  Danir eru sem sagt ekki að versla svona á síðustu stundu eftir kaffi á Þorláksmessu!!!!  

Aðfangadagurinn hófst snemma (ca. kl. 06:15) hér á heimilinu eins og allir síðustu 13 dagarnir fyrir jól!  Þrátt fyrir að hafa fengið að vaka lengi við að skreyta jólatréð og svoleiðis skemmtilegheit vöknuðu drengirnir eldsnemma til að kíkja á jólapakkann frá síðasta jólasveininum!  Dagurinn gekk samt ótrúlega vel og voru þeir bræður ótrúlega góðir miðað við að sitja í stofunni með fullt af pökkum undir jólatrénu sem mátti ekki opna fyrr en klukkan sex!  

Við ákváðum að hafa jólamatinn með hefðbundnu sniði, hamborgarahryggur með brúnuðum kartöflum og rauðvínssósu og sveppirnir góðu á sínum stað.  Þrátt fyrir að allir hafi borðað á sig gat......... og rúmlega það...... sá varla högg á vatni, magnið hefði dugað fyrir a.m.k. tvær fjölskyldur í viðbót, en það er bara fínt - við höfum nægan tíma þessi jólin til að vera heima í rólegheitunum og borða afgangana.  

Pakkamaraþonið var mikil skemmtun hér á heimilinu.  Jóel Kristinn las á alla pakkana og þeir bræður voru þvílíkt glaðir með innihaldið.  Það var alveg sama hvort pakkarnir voru mjúkir eða harðir, stórir eða litlir þeir voru alltaf jafn ánægðir með innihaldið.  "Mig hefur alltaf langað í svona" "Mig langaði einmitt í svona vettlinga" .............. o.s.frv.  Gaman að því!  Foreldrar þeirra voru að sjálfsögðu einnig mjög ánægð með allt sitt.  Við þökkum fyrir okkur!

Eftir pakkamaraþonið spiluðum við í smá stund fjölskyldan en svo voru drengirnir orðnir úrvinda af þreytu og vildu komast í rúmið......... í glænýjum náttfötum að sjálfsögðu.

Núna erum við fjölskyldan bara í rólegheitunum á jóladagsmorgni.  Hugsum auðvitað heim í jólaboðin en í staðinn höldum við lítið jólaboð seinni partinn þegar Lilja, Jón Freyr og Benta Vala koma frá Gedved í jólahangikjötið.

Með jólakveðju,

Dec 17, 2008

Tilkynning um heimkomu!

Við erum búin að kaupa flugmiða til Íslands!!!!

Komum seinnipartinn föstudaginn 6. febrúar og förum aftur snemma morguns mánudaginn 16. febrúar!

Bestu kveðjur,

Dec 16, 2008

...og hratt líður desember...

Fannar Ingi jólaklipptur
Jóel Kristinn með jólaklippinguna sína

Tíminn líður hratt nú á gervihnattaöld, hraðar sérhvern dag, hraðar sérhvert kvöld..... sérstaklega nú þegar nóg er að gera!

Smám saman tekst okkur að undirbúa komu jólanna.  Við höfum auðvitað aldrei áður þurft að hugsa fyrir því að eiga eitthvað í matinn um jólinn þar sem við höfum alltaf verið stanslaust í jólaboðum hjá öðrum og stundum tveimur á dag!  .... en með kokkamenntaðan mann á heimilinu hefst þetta nú.  Ég reyni svo bara að vera dugleg að leggja á borðið! (hehe)

Drengirnir fóru í jólaklippinguna í gær. Nú var sko engin kreppuklipping heldur bara alvöru töffaraklipping á íslensku stofunni niðrí bæ!  Myndir af drengjunum nýklipptum fylgja hér með.

Annars er allt við það sama, búið að fara á julehygge í leikskólanum þar sem dansað var í kringum jólatréð og gengin Lúsíu-ganga.  Þeir eru ekkert að stressa sig á því Danirnir hvort börnin eru með eða ekki í svona viðburðum og nú voru það bara 5 börn sem gengu (þar með yfir 15 sem gengu ekki). Fannar Ingi vildi ekki klæða sig í englabúning og ganga undir fögrum Lúsíusöngnum þar sem hann sagðist ekki kunna það......... þar með var það ákveðið!  

Ritgerðarskrif og lærdómur eru bara á sínum stað.  Við reynum að vera dugleg, gengur misvel svona þegar jólin nálgast en þetta reddast vonandi,

Bestu kveðjur,

Dec 8, 2008

Rólegur desember

Hér er allt í rólegheitunum og í raun ekkert að frétta og þar með ekkert merkilegt til að skrifa um!

Við fórum reyndar í jólaföndur í skólann hans Jóels á fimmtudag þar sem við föndruðum músastiga og fléttuðum hjörtu auk þess sem við bjuggum til kertaskreytingar og fengum eplaskífur og jólaglögg. Mjög skemmtilegt.

Annars er ég húsmóðirin rétt að jafna mig eftir heila viku með hita og nokkra daga af stanslausum hósta sem hefur valdið því að ég hef bara verið hálfgerður aumingi. Helgi Kristinn hefur þvert á móti staðið sig með prýði og vann og vann um síðustu helgi. Á föstudaginn frá kl. 18 - 04:15 og svo strax aftur á laugardag frá 12 - 18. Hann var að þjóna í fínum veislum, bera fram mat, dæla bjór og svoleiðis. Kemur sér vel að fá nokkrar danskar krónur svona rétt fyrir jólin.

Það var nú reyndar annað stórafmæli í fjölskyldunni því hann Jóel bróðir eða Jóel frændi (fer eftir því hver talar) varð 25 ára þann 6. desember. Við fjölskyldan sendum honum að sjálfsögðu hamingjuóskir með stórafmælið.

Annars bara það sama verið að læra og læra og drengirnir að leika og leika...

Bestu kveðjur

Dec 3, 2008

Til hamingju með afmælið!

Í dag er einn af þessum dögum þar sem það er pínu erfitt að vera ekki heima á Íslandi. Í dag á nefnilega mamman, tengdamamman og amman Anna Þóra 60 ára afmæli sem er sko bara ekkert smá!!
Við fjölskyldan óskum henni innilega til hamingju með afmælið!!!

Einn óvæntur kostur við að búa svona í útlöndum er að þá neyðist maður til að vera snemma í því með jólagjafirnar. Við erum sem sagt búin að afgreiða allar jólagjafir (nema hér inn á heimilið) og senda til Íslands. Lokaskiladagur á jólapökkunum til Íslands með skipinu er í dag sem er frábært fyrir fjölskyldu sem er vön að vera á síðustu stundu, korter í jól!

Nú er bara að setja í fluggírinn í lærdómnum. Helgi þarf að byrja að huga að prófinu sem hann fer í 3. janúar svo hann geti nú tekið sér eitthvað frí yfir jólahátíðina og ég þarf heldur betur að vera dugleg í ritgerðarskrifum. 2. janúar skila ég verkefnamöppu með fjórum verkefnum þar sem ég á eftir að gera eitt verkefnið og lagfæra hin, svo skila ég 40 blaðsíðna projekti um námsmat í stærðfræði (rúmlega hálfnuð með það), Rannsóknarritgerð í International and Comparative Education þar á ég eftir ca. 6 bls og svo að lokum prófverkefni í sama fagi þetta er víst alveg nóg fyrir desembermánuð!

Fannar Ingi og Jóel Kristinn eru alltaf jafn hressir borða nú súkkulaði í morgunmat á hverjum degi (jóladagatalið) og bíða spenntir eftir jólunum. Jóel talar ennþá eins og hann verði heima á Íslandi um jólinn en sættir sig nú samt alveg við að skreppa bara heim í vetrarfríinu í fyrri hluta febrúar. Fannar Ingi er bara alsæll, fagnar nú að hverjum morgni því að mega fara á leikskólann (eftir að hafa verið heima alla síðustu viku).

Bestu kveðjur