Jan 31, 2008

Fréttir af hvíld

Erum búin að hvíla okkur mikið síðustu þrjá daga. Það veitir ekki af þar sem námsáætlanirnar hjá okkur báðum benda til þess að það verði alveg nóg að gera á önninni. Fórum í foreldraviðtal á leikskólanum í dag. Það var engin svona listi sem farið var yfir eins og á Grænatúni, engar svona beinar upplýsingar um stöðu barnsins líkamlega eða............. Nei, nei, við bara mættum og settumst inn á kaffistofu starfsfólksins með tveimur pedagógum og þær bara spurðu okkur hvort það væri eitthvað sem við vildum ræða, neeeeiiii , ekkert sérstakt sögðum við og þar með var það eiginlega afgreitt. Sátum nú samt og spjölluðum við þær í dálítinn tíma fengum jú að heyra að vel gengi og að þeir væru duglegir að tala og skilja dönskuna og svoleiðis. Vorum sammála um að það verði hollt og gott fyrir Fannar Inga að standa á eigin fótum næsta vetur þegar Jóel Kristinn fer í skólann.

Já, skólamálin! Fór með Jóel Kristinn í sprogscreening á þriðjudag. Það var bara mjög gaman og auðvitað stóð hann sig mjög vel, svaraði flestu og var bara duglegur. Fékk að vita það hjá talpedagógnum (hér eru sko allir pedagógar - leikskólakennarar -talkennarar o.s.frv.) að ekki væri spurning um móttökubekk þar sem hann er kominn það vel af stað með dönskuna en ef fjöldi tvítyngdra barna í hverfinu er mikill er þeim skipt á fleiri skóla með færri útlendingum. Í apríl fáum við sem sagt bréf með tilboði um einhvern skóla fyrir Jóel Kristinn, sá skóli gæti verið hverfisskólinn eða skóli einhversstaðar í burtu............. og þá kæmi leigubíll frá bænum á morgnana og sækir hann. Eftir skóla fara svo börnin í heilsdagsskóla (SFO) en þá yrðum við að sækja Jóel Kristinn þangað kl. 16:00 daglega - eins gott að skólinn sem hann fer í verði a.m.k. í þessum landshluta -hmmmm! Nei, nei það verður bara spennandi að sjá hvað kemur í bréfinu í apríl!

Framundan er margt skemmtilegt - næstu helgi er þorrablót Íslendingfélagsins og fáum við senda barnapíu frá Íslandi! Jamms, hvorki meira né minna. Benta systir ætlar að skreppa í smá helgarferð til Danmerkur, hitta Stóru systur sína og uppáhaldsfrændur sína, skoða aðstæður og passa á meðan við förum í fyrsta skiptið út að skemmta okkur án barnanna síðan við fluttum hingað til Árósa!
Um páskana eru svo Kristín Hrefna og Borgar búin að boða komu sína - og ekki verður það nú leiðinlegt heldur! Við hjónin eru nefnilega svo heppin með systur! (............ og auðvitað bræður....... þeir eru bara ekkert að heimsækja okkur................ ennþá!)

Annars bara bestu kveðjur í vetrarhörkurnar á Íslandi,

Jan 28, 2008

Loksins!

Jæja, þá er það loksins helst í fréttum að próf og ritgerðir eru búin (í bili).
Það er því staðfest að ég er búin með 1/4 af mastersnámi. En það er sko ekki hægt að segja annað en að það sé alveg haft fyrir þessu - mikið rosalega hljótum við að koma heim með mikinn fróðleik miðað við magnið á þekkingu sem maður hefur þurft að innbyrða fyrir þessi próf.

Annars bara - ekki tala um próf við mig - þau eru búin!

Ekki halda samt að það eitthvað frí eða svoleiðis. Helgi Kristinn er kominn á fullt aftur og þegar ég kom heim úr prófinu í dag var búið að setja inn hvað ætti að lesa fyrir næstu tíma sem eru á mánudag og miðvikudag í næstu viku og það er alveg margra daga lestur - takk fyrir!

Annars tekur nú við hið dæmigerða fjölskyldulíf - nú munum við spjalla og leika við strákana - ekki bara segja USS mamma er að læra eða USS pabbi er að læra. Það er nú aldeilis jákvætt!

Helgi Kristinn er reyndar alveg uppgefinn eftir prófatörn konu sinnar - því hann "þurfti" að sjá um börn og mat í heila viku, nú situr hann bara og bíður rólegur eftir því að maturinn verði tilbúinn. Þakka fyrir að þurfa ekki að mata hann!
Hann má nú samt alveg eiga það að hann er búinn að vera rosa duglegur - alltaf góður matur (auðvitað - enginn átti von á öðru) og svo fór hann og var hann í allan gærdag með Jóel Kristinn og Fannar Inga í legelandet þar sem þeir skemmtu sér saman feðgarnir.

Annars eru Fannar og Jóel alltaf jafn glaðir með allt saman. Nú eru þeir með æði fyrir því að láta lesa fyrir sig, þannig að það er best að drífa sig núna, skella matnum á borðið og lesa svo fyrir prinsana.

Kv.

Jan 21, 2008

próf og ekki fleiri próf ......og fleiri próf

Jæja þá er Helgi Kristinn búinn í prófum og búinn að skila ritgerðinni - og vorönnin byrjuð! Þetta var nú nokkuð strembin törn en frábært að hún sé búin og "eðlilegra" líf taki við.......

Jæja þá er Lóa Björk (ég) búin í fyrsta prófinu af þremur. Munnlegt próf í kennslufræði stærðfræðinnar í dag - gekk vel en þvílíkt erfitt! Mætti í prófið ísköld á höndunum og rennsveitt af stressi. Gekk vel að kynna efnið en síðan tóku við spurningar prófdómaranna sumar mjöööög svínslegar, þeir voru nú samt almennilegir greyin og gáfu mér fína einkunn.
Vorkenndi meira aumingja manninum sem þurfti að sitja við hliðina á mér í 3 klukkutíma í lestinni á leiðinni heim - angandi af svitastressfílunni.............. hehe.

Þegar heim var komið sló svo húsbóndinn í gegn!!!
Það var þvílíkt búið að taka til, ryksuga og skúra heimilið. Leggja fínt á borð, taka fram freyðivín og alles. Nú síðan var bara eldaður góður matur skálað fyrir próflokum Helga og fyrsta prófinu mínu...........

... svo er bara að rífa sig upp úr sæluvímunni snemma í fyrramálið og byrja að læra undir næsta próf. Fer aftur til Köben á fimmtudag til að verja ritgerð sem ég skilaði 3. janúar. Það eru sömu prófdómarar og voru í dag þannig að ég á von hörku spurningum!!!!!!!!!! Best að vera búin að átta sig á göllunum og tilbúin að verja þá fyrir stórskotaliðinu.........
Síðasta prófið er svo næsta mánudag, hér í Árósum

Nú af þeim bræðrum er bara allt gott að frétta. Brosandi út að eyrum alla daga, ánægðir með leikskólann, leikfélagana, foreldrana (nema svo kannski rétt á meðan enginn má vera að því að sinna þeim vegna prófa........) og umfram allt hvorn annan. Jóel Kristinn sagði nú til dæmis í kvöld þegar við vorum að skála í freyðivíni og appelsínudjús með kertaljós á mánudagskvöldi að hann ætti bestu fjölskyldu í heimi - við erum barasta sammála því.

Well, best að hætta þessu röfli undir áhrifum freyðivíns á mánudagskvöldi í miðjum prófum,
kveðjur úr Beykiskóginum,

Jan 17, 2008

Skráður í skóla

Hér með er Jóel Kristinn Helgason skráður í Vestergårdskolen, í börnehaveklassen. Mættum í skólann í dag, öll fjölskyldan en skráningin fór fram í kennslustofu 6 ára barnanna. Mjög svona hyggelig stemning og dejlige mennesker. Allir svona ligeglad og þægilegir. Eeeeeen það er náttúrulega þetta með dönskukunnáttuna, þeir eru svo gáfaðir hérna í Árósum að tunglumálaprófin standa yfir næstu tvær vikurnar. Jóel fer í próf 29. janúar til að kanna hvort hann kunni næga dönsku til að fara í hverfisskólann í ágúst. Ég spurði reyndar að því afhverju prófin væru núna, þar sem börnin lærðu nú vonandi eitthvað frá janúar og fram í ágúst en þá fékk ég þetta fína svar "sådan er det bare!".

Þetta er reyndar svolítið asnalegt að gera þetta svona, barnið er boðað í skólann og fær að sjá kennslustofuna sína og verða mjög spenntur fyrir nýja skólanum, svo fer hann í próf (í janúar) en er þá líklega ekki nógu vel staddur í dönskunni til að fá aðgang að hverfisskólanum og er því vísað frá í annan skóla.
Nú svo byrjar hann í hinum skólanum í ágúst, kynnist fólkinu þar en þar sem hann verður vonandi búinn að læra meiri dönsku þá (7 mánuðum eftir tungumálaprófið), verður hann kannski bara........ sendur aftur í hverfisskólann...........

Nei, nei þetta verður í góðu lagi! Við fórum og héldum upp á þennan merka áfanga í lífi drengsins með því að bjóða honum út að borða. Fórum á mexíkóskan restaurant niðrí bæ sem var bara mjög fínt.

Annars bara þetta sama, Helgi Kristinn í ritgerðarvinnu núna, ég í próflestri - byrja af fullri alvöru á morgun að lesa og Fannar Ingi bara sæll og glaður.

Skólakveðjur,

Jan 12, 2008

Við erum búin að..........

............fá nýja þvottavél.
Þar með þurfum við engan rafvirkja. Við töluðum við tvo rafvirkja, einn náskyldan á Íslandi sem taldi viðgerð varla borga sig og einn hér í nágrenninu sem samkvæmt dönskum sið gat komið u.þ.b 10 dögum seinna, kl. 7:30 að morgni - takk fyrir það. Hann taldi samt miðað við lýsingarnar að það myndi ekki borga sig að gera við vélina. Helgi hringdi því í leigufélagið og sannfærði þá um að það væri ekki þess virði að við barnafjölskyldan væru látin bíða í 10 daga í viðbót eftir því að fá rafvirkja fyrir 600 danskar krónur til að segja okkur að það þyrfti nýja vél. Við fengum nýja vél sem er byrjuð að þvo fyrir okkur.

........... að gera við blástursofnin.
Keyptum bara nýtt element í gegnum netið, fengum það sent með póstinum og Helgi skellti því í. Við vorum svo rétt áðan að klára þess fínu súkkulaðiköku, bakaða í ofninum. Það þarf því engan rafvirkja í það djobb heldur.

......... taka eitt próf til viðbótar.
Eða sko Helgi Kristinn. Fór í munnlegt próf í dag - stóð sig vel. Nú er næsta próf hjá honum á mánudag og svo ritgerðarskil 21. janúar og þá er törnin búin hjá honum.

......... fá próftöflu.
Eða sko Lóa Björk. Fékk loksins í gær að vita hvenær ég á að mæta í prófin. Fer í 3 munnleg próf, þann 21. og 24. janúar í Köben og svo 28. janúar hér í Árósum. Fór á smá kynningu um munnleg próf í gær og held að ég viti nokkurn vegin út á hvað þetta gengur. Veit að minnsta kosti að ég á að kynna efnið fyrst í 10 mínútur en svo fæ ég spurningar og spjall við prófdómarana í hálftíma í viðbót. Eftir það ákveða þeir einkunnina og segja mér hana með rökstuðningi - spennandi, hmmmm.

........ ákveða framtíðina.
Eða sko Jóel Kristinn. Í gær vorum við að horfa á danska X-faktorið og spurði ég Jóel hvaða lag hann myndi syngja ef hann færi í svona prufu. "Ekkert!" sagði hann. "Nú, myndir þú ekki vilja verða söngvari?" spurði ég til baka. "Nei, ég ætla bara að vera venjulegur maður, í venjulegri vinnu!" svaraði drengurinn.

......... hafa það gott.
Öll en ekki síst Fannar Ingi sem kemur svo glaður heim af leikskólanum á hverjum degi og finnst alltaf "mjög gaman!" Hann liggur hérna við hliðina á mér núna í Turtles búningi sem hann fékk í afmælisgjöf frá ömmu Guðlaugu. Það komu nefnilega áðan fullt að bæklingum frá dótabúðunum í tilefni af Fastelavn og þurftu þeir bræður auðvitað að skella sér í búningana sína - gaman að því.

annars bara bestu kveðjur frá próflestrarheimilinu mikla,

Jan 5, 2008

Við óskum eftir.......................

Þvottavél í lagi!
Þvottavélin er biluð sem gengur varla hjá fjögurra manna fjölskyldu sem á nú ekkert endalaust föt til skiptanna! Í dag prófuðum við eitt alveg nýtt og ótrúlega spennandi - við fórum í möntvaskeri (með dönsku ö-auðvitað), eða mynt-þvottahús. Fórum með þvottinn og skelltum í fjórar þvottavélar, biðum auðvitað á meðan þvotturinn hringsnerist þarna í vélunum, rosa gaman en eiginlega bara rándýrt, 26 kr vélin (sinnum 12 til að fá íslenskar) og svo 5 kr. fyrir þvottaefnið. Síðan var þvotturinn bara fluttur blautur heim og er nú á víð og dreif um íbúðina, auk þess sem eitthvað er í þurrkaranum!
Ef einhver þekkir góðan rafvirkja hér í nágrenni við Beykiskóginn, vinsamlegast látið okkur vita.

Ofn í lagi!
Blástursofninn hitnar ekki. Það er ekki vinsælt hér á heimilinu. Á morgun er t.d. sunnudagur og hljótum við að þurfa að baka!!!!
Annað verkefni fyrir rafvirkjann!

Uppþvottavél sem þvær leirtauið!
Við nánast þvoum í vélina, en svo kemur meirihlutinn skítugur úr henni, sérstaklega frá efri hæðinni og svo skilur hún leifar af þvottaefninu eftir sem við þurfum að skola burtu.
Getur rafvirkinn ekki kíkt á það líka!

Barnapössun 9. febrúar!
Við hjónin erum sem sagt búin að kaupa okkur miða á þorrablót Íslendingafélagsins hérna í Árósum eins og allir hinir nágrannar okkar hér í Beykiskóginum. En hver á þá að passa? Ef einhver hefur hugmynd um lausn á þessu skemmtilega vandamáli þá vinsamlegast látið okkur vita.
Rafvirkinn þarf samt ekkert að leysa úr þessu vandamáli...............

Góðu gengi í prófunum!
Helgi Kristinn er búinn í sínu fyrsta prófi sem gekk vonandi a.m.k. þokkalega. Nú á hann tvö próf eftir + eina ritgerð.
Ég (Lóa Björk) skilaði öllum prófverkefnunum svona eftir bestu getu þann 3. janúar. Gæðin eru því miður minni en ég vildi, sem má rekja til tungumálaerfiðleika - en því miður þá hef ég aldrei verið neinn tungumálasnillingur - vonum bara að þetta sleppi fyrir horn. Fer svo í þrjú munnleg próf úr efninu 21 - 31. janúar og þá reynir nú heldur betur á tungumálakunnáttuna, leiðinleg samt að geta ekki skilað sínu besta þar sem maður hefur ekki réttu orðin til að lýsa því sem maður kann. Þetta kemur vonandi á endanum...............

Annars bara gott að frétta - höfum það mjög gott. Fengum bréf frá tilvonandi skólanum hans Jóels Kristins þar sem við eigum að mæta með hann til skráningar um miðjan mánuðinn. Hann þarf reyndar að fara í tungumálapróf áður en hann fær að byrja í skólanum (næsta haust) og ef hann er ekki búinn að læra næga dönsku þá, á hann að fara í móttökuskóla nálægt miðbæ Árósa. Sem sagt ef að það, að hann er bara með íslenskum börnum á leikskólanum (og heima) hefur komið í veg fyrir að hann hafi náð dönskunni ætla Danirnir að bæta úr því með því að setja hann í skóla með öðrum útlenskum krökkum! Já, sæll! Þetta eru engin geimvísindi, til að barnið læri dönsku þarf hann kannski bara að fá tækifæri til að vera með dönskum börnum! Annars er móttökuskólinn örugglega mjög fínn, börnin hérna í götunni eru flest í honum og bara ánægð, þetta voru bara svona smá hugleiðingar......
Fannar Ingi er eiginlega bara orðinn stór, hefur tekinn mikinn þroskakipp að undanförnu og er voða duglegur.

Bestu kveðjur ykkar allra og munið nú að redda mér rafvirkja og barnapíu hingað í Beykiskóginn (hehe)

Jan 1, 2008

Gleðilegt ár!

Við fjölskyldan þökkum fyrir allt gamalt og gott!

Þá er sem sagt kominn 1. janúar 2008. Síðastliðin ár (Silja veit töluna) höfum við staðið í undirbúningi Galaveislu á nýársdag. Jamm - hvert nýárskvöld höfum við fengið skemmtilegasta fólk í heimi (eða sko nokkra af þeim- það vantar auðvitað Kristínu Hrefnu og fleiri skemmtilega til að hægt sé að segja allt skemmtilegasta fólk í heimi (innskot: 02.01. eftir þarfa ábendingu í commentunum) - að minnsta kosti) og slegið upp stórveislu með glæsilegum réttum og svo spili fram á morgun. Núna erum við hjónin búin að ganga frá sparistellinu upp í skáp, búin að opna tölvurnar og erum að byrja að læra!
Við vonum bara að Kristján og Silja, Daði og Þóra Sif, Regína og Svenni fái öll örugglega eitthvað gott að borða í kvöld - annars verðum við með samviskubit!

Annars voru áramótin mjög skemmtileg þó svo að hefðin um veislumat og áramót á Öldugötunni væri brotin! Við pöntuðum nautalund hjá slátraranum og fengum veislumat a la Helgi Kristinn sem er jú alltaf toppurinn á öllu í matarmálum. Dessertinn fengum við í næsta húsi en kokkurinn þar er húsmæðraskólagenginn og klikkar heldur ekki í eldhúsinu. Um hálf tólf stóðu Íslendingarnir í götunni og gestir þeirra fyrir flugeldasýningu að íslenskum hætti í logni og heiðskýru veðri. Um miðnætti toppaði svo Daninn á móti okkur sýninguna með stærstu tertunni. Jóel Kristinn var ekkert hress með ósköpin og fór bara inn að horfa á teiknimynd. Fannar endist lengur yfir flugeldunum en sofnaði svo í sófanum hjá nágrönnunum yfir teiknimynd fljótlegaeftir miðnætti.

Jæja þá er best að snúa sér að ritgerðaskrifum.
Með nýárskveðju,