May 18, 2009

Námsmannalífið í DK

Jæja þá er komið að smá uppfærslu veðurfrétta og annarra frétta.  Það er líklega helst í veðurfréttum að það var betra veður á Íslandi í gær en hér í DK.  Ég ætlaði að fara að kvarta en Helgi minnti mig á að við værum búin að hafa sumar og sól meira og minna síðan í apríl og Íslendingarnir heima ættu þetta bara skilið eftir allt saman.  Veðrið í dag er fínt en það er eitthvað úrhelli og jafnvel þrumuveður í kortunum fyrir vikuna..... það er kannski fínt fyrir námsmennina en Fannar Ingi á að fara í spennandi vorferð á miðvikudaginn þegar mesta rigningin er í kortunum - úff!

Það var mikið fjör í afmælinu hjá Jóel Kristni.  Við fengum allan bekkinn hans hingað í eldhresst morgunpartý þann 7. maí.  Grilluðum pylsur í garðinum og buðum upp á fótboltaköku og saftevand. Það getur verið mjög athyglisvert að fá svona litríkan hóp í afmælisboð þ.s. nokkrir mega ekki borða svínakjöt og svo er einhver með eggjaofnæmi ........ þannig að við auðvitað suðum kjúklingapylsur í eldhúsinu svo þær myndu ekki komast í snertingu við svínakjötið á grillinu og svo var sett eggjalaust deig í muffins-form til að gæta að eggjaofnæminu.  Það er eins gott að vera með þetta allt á hreinu!

Kristín Hrefna, Borgar, Breki og Marselía mættu hér um miðja nótt aðfararnótt afmælisdagsins 8. maí og voru því hér með öllum nágrönnum okkar í smá grillafmæli fyrir Jóel á afmælisdaginn.  Á laugardaginn hélt prógrammið áfram því við brunuðum í Djurs Sommerland þar sem hlaupið var á milli rússíbana og annarra skemmtitækja fram að lokun með smá nestishléum þó.  Síðan var auðvitað farið heim að grilla!

Sunnudagsprógrammið var svo ferð í Ljónagarðinn (Givskud Zoo) sem er alltaf jafn skemmtilegur.  Ljónin vöktu að venju mesta lukku!!!!  Nú um kvöldið var svo auðvitað farið heim að grilla ..... en ekki hvað...  Á mánudeginum var margþætt prógramm Fannar og Jóel fóru í skólann, Borgar og Helgi í golf og við hin í bæinn í H&M ferð,  eftir að allir höfðu klárað sitt fórum við öll saman með epli og gulrætur í Bambaskóginn og svo smá á ströndina.  Um kvöldið var svo farið út að borða ....mmmm...  

Eftir þessa viðburðaríku og góðu daga þurftu allir bara að snúa sér að sínu og takast á við verkefnin sem biðu!

Framundan er í vikunni leiksýning og bekkjarkvöld hjá Jóel Kristni, vorferð og kaffiboð hjá Fannari, próflestur og ritgerðavinna hjá fullorðna fólkinu eeeeeen á föstudagskvöldið er aftur von á góðum gesti - að þessu sinni er von á Jóel bróður eða doktor Jóel sem er núna í útskriftardjammi með læknisfræðinni en kemur til okkar og verður hér í Árósum í nokkra daga.  Bara gaman!  

Jæja bestu kveðjur,

May 5, 2009

Hmmmmm.... dropar úr lofti!

Hér er áframhald á veðurfréttum - hehe - eftir 270 sólarstundir í apríl eru farnir að koma rigningadropar við og við.  Sumir segja að þetta sé gott fyrir gróðurinn aðrir fyrir lærdóminn en ég held jafnvel að þetta sé í tilefni þess að Kristín og Borgar og börnin eru að koma um næstu helgi!!!

Kristín og Borgar komu um páskana í fyrra og þá voru köldustu páskar í DK í manna minnum..... það er spurning hvað gerist núna.....

Annars er það að frétta af Fannari Inga 4ra ára að hann er farinn að hjóla um allt hverfið án hjálpardekkja.  Drengurinn settist upp á hjól nágrannans í síðustu viku og bara hjólaði af stað þannig að pabbi hans tók hjálpardekkin af litla hjólinu hans og nú hjólar hann bara út um allt með bros á vör!!!

Nú erum við fullorðna fólkið að átta okkur á því að það er kominn maí og nú verður sko aldeilis að taka sig á í náminu.  Ótrúlegt að flytja til útlanda til að læra og mega svo eiginlega bara ekkert vera að því að læra.... en þessu verður reddað á næstu dögum og vikum.  Fram til ca. 18. júní verða "allar" lausar mínútur notaðar í lærdóm.

Bestu kveðjur