Aug 27, 2008

Örstutt stopp á Íslandi - en án barna

Jamms við hjónin erum að pakka niður til að koma heim í brúðkaupið hennar Regínu og auðvitað hans Svenna líka.

Komum seint á fimmtudagskvöld og förum aftur eldsnemma á sunnudagsmorgun þannig að við gerum nú ekki mikið meira en að mæta í brúðkaupið og fara aftur heim. Við þurfum nefnilega að drífa okkur aftur heim til að bjarga geðheilsu nágrannakonu okkar sem ætlar að passa strákana okkar tvo auk barnanna sinna þriggja ... það verður víst ekki mikið um rólegheit þar þessa helgina - þó svo að öll börnin fimm séu auðvitað draumabörn!

Erum búin að hafa það nokkuð gott hérna í vikunni. Héldum morgunpartý á sunnudaginn fyrir alla íslensku nágranna okkar. Allir komu með eitthvað gott á morgunverðarhlaðborð, íslenski fánin, húfur og fleira í fánalitunum skreyttu gestina og Danirnir á móti héldu líklega að við værum endanlega gengin af göflunum. Ekki hversu oft hefur maður tækifæri til að sjá Ísland leika til úrslita á Ólympíuleikum - það hefur nú verið haldið partý af minna tilefni.

Er að fara að pakka,
Bestu kveðjur,

Aug 22, 2008

Tíminn flýgur og áfram Ísland!!!!

Það er eiginlega alveg ótrúlegt hvað tíminn líður alltaf hratt - einmitt þegar maður hefur það gott og tíminn ætti að silast áfram, ja svona til að fríið endist sem lengst! (maður verður auðvitað að sýna lit og vera aðeins á heimspekilegu nótunum Ólafi Stefánssyni til heiðurs ;-) )

Jóel Kristinn er núna búinn að vera alvöru skólastrákur í 2 vikur. Hann er mjög ánægður í skólanum, segist vera stilltur og prúður og við bara trúum því! Fyrsti foreldrafundurinn var haldinn á fimmtudagskvöld þar sem skólastarfið var kynnt. Það var mjög gaman að fá í fyrsta sinn að prófa að mæta sem foreldri í grunnskólann. Foreldrahópurinn virkaði mjög hress og skemmtilegur og "rifist" var um að fá að vera í foreldraráðinu - bara gaman! Það er ýmislegt í boði fyrir Jóel í SFO-inu er að byrja Beatbox-námskeið (söngur, dans, hljóðfæraleikur, sögur......) þar sem þau fá indverskan dansara og afrískan tónlistarmann og leikara sem kennara. Frítt og á skólatíma - flokkast sem lúxus!

Fannar Ingi á pínu erfitt á leikskólanum nú þegar stóri bróðir er farinn í skólann. Mætir sæll og glaður á morgnana en er oft lítill í sér og stundum grátandi þegar við komum að sækja hann. Er oft farinn að spyrja um mömmu sína, sérstaklega ef Ísak vinur hans er farinn heim. Þetta kemur nú samt vonandi allt saman hjá honum...

Við fjölskyldan skruppum til Köben með lestinni um síðustu helgi og fórum í Tívolí með ömmu Stínu og afa Jóel og "Svíunum" okkar. Alltaf gaman að koma í Tívolí. Horfðum á Ísland -Danmörk á bar í tívolíinu - bara gaman. Gengum líka um miðbæinn með öllum hinum túristunum. Kíktum á lífvarðaskiptin enda gistum við í frábærri íbúð nánast í bakgarði drottningarinnar. Strákarnir alsælir bæði með að fá að hitta ömmu og afa og frændur sína og að fá loksins af fara í lestina.

Vikan hefur liðið hratt. Handbolti, ræktin, keyra og sækja í skólann hafa verið helstu viðfangsefnin. Engum leiddist hér í dag þegar við horfðum á Ísland - Spán. Það var líka gaman að mæta með Jóel á fótboltaæfinguna strax eftir leikinn og ræða aðeins um handboltann við Danina!!!! Jóel þarf reyndar að sleppa einu fótboltamóti á sunnudagsmorgun þar sem við ætlum að horfa á úrslitaleikinn með nágrönnum okkar. Það verður sko þvílík veisla.

Áfram Ísland

Aug 13, 2008

Síðan síðast

Hér sé stanslaust fjör og nóg um að vera!

Erum búin að hafa góða gesti frá Svíþjóð síðustu 5 daga, mikið fjör. Margrét systir með fjölskylduna eru búin að skoða með okkur miðbæ Árósa, Legoland og rigninguna þess á milli. Litlu frændurnir voru í stuði allan tímann - leiddist ekki augnablik, þannig að þögnin sem er nú í húsinu er nánast yfirþyrmandi (hehe). Hittum þau reyndar aftur á laugardag í Köben því afi Jóel og amma Stína eru um það bil að lenda í Kaupmannahöfn þar sem þau eru með íbúð á leigu í viku. Þangað eru Svíarnir farnir og við förum á eftir þeim um helgina. Að þessu sinni ætlum við með lestinni en þeir bræður Fannar og Jóel er þvílíkt spenntir að fá loksins að fá að fara í lestina ...

Jóel Kristinn var sem sagt í SFO-inu sínu í síðustu viku og gekk bara mjög vel. Á mánudag var svo fyrsti skóladagurinn með kennaranum og hefur drengnum bara gengið ljómandi vel. Hann kom heim með stærðfræðibókina sína þar sem foreldrar hans áttu að pakka henni inn í bókapappír! Þvílíkt föndur - að taka fagurskreytta, litríka og plasthúðaða bókina hans og pakka henni inn í brúnan umbúðapappír (minnir á svona ca. 1935 og reyndar kröfurnar í Landakotsskóla hjá Bentu systur hérna fyrir nokkrum árum). Í staðinn fékk mamman smá tíma til að skoða bókina sem á að duga börnehaveklassen í ALLAN vetur. Markmið bókarinnar er að nemendur geti talið frá 1 - 10, þekki hugtökin hringur, þríhyrningur og ferhyrningur auk þess að geta notað hugtökin stærri en, minni en og þar með borið saman (en samt bara 1 - 10).... Ég man ekki betur en að þetta hafi allt verið prófað í 3 og 1/2 árs þroskaprófinu - þar sem drengurinn svaraði nánast öllu 100%!!! Hann ætti sem sagt að geta staðið undir kröfum vetrarins...
Á sama tíma og kröfurnar til barnsins er að geta talið upp að 10 í maí/júní á næsta ári .... þá er búið að afhenta honum strætókort til að fara einn í strætó á ein stærstu gatnamótin hér í Viby (7 akreinar til að fara yfir á ljósunum...) - já maður verður eiginlega bara hálf ruglaður í því hvað 6 ára börn eiga að vera fær um!

Fannar Ingi fer létt með að vera án stóra bróður á leikskólanum! Fékk frí mánudag og þriðjudag til að vera með Tomma frænda og öllum hinum en nú er rútínan hafin og það er bara fínt.

Helgi Kristinn er kominn í sumarfrí númer 2 og er nú að glíma við bílaviðgerðir með aðstoð Jóns Freys. Gamli skrjóðurinn okkar er víst ekkert unglamb lengur og núna þarf að skipta um alla bremsudiskana og bremsuklossana. Ætluðum varla að komast heim úr Legolandi á mánudaginn og höfum ekki getað notað bílinn síðan þá.

Ég er búin að fá kennsluáætlanir og bókalista fyrir veturinn. Líst bara vel á! Verð í einu fagi hér í Árósum og öðru inn í Köben. Bæði líta bara vel út, mikill lestur og mörg verkefni, eeeen þannig á það víst að vera. Er líka að mæta í ræktina og skokkaði meira að segja hring hér í hverfinu snemma á sunnudagsmorgun - er á meðan er!

Jæja, þá er langlokunni lokið,
Bestu kveðjur

Aug 5, 2008

Fyrsta tönnin farin!

Hér með tilkynnist að Jóel Kristinn Helgason, nemi er búinn að missa fyrstu barnatönnina. Fullorðins tönnin er nú þegar komin nokkuð langt upp en liggur bara fyrir aftan fyrrverandi barnatönnina sem hefur hangið laflaus síðustu daga og verið algerlega fyrir fullorðinstönnninni góðu!

Barnatönnin liggur nú undir kodda barnsins ...... hver veit nema það verði eitthvað annað undir koddanum í fyrramálið þegar barnið vaknar.

Þessi tannmissir hefur nú þegar lagt sitt af mörkum til þroska barnsins. Í kvöld er drengurinn lagðist upp í rúm tilkynnti hann móður sinni hátíðlega að nú myndi hann hvorki vilja vatnsglas né söng því hann væri orðinn stór strákur! Móðirinn samþykkti án andmæla.

Með kveðju frá skólastrákunum,

Aug 3, 2008

Eitt ár!

Þá er komið eitt ár frá því að við fluttum hingað til Danmerkur!

Á þessu ári höfum við lært vægast samt mjög mikið....

Fannar Ingi var bara smápeð með bleiu þegar við fluttum en er núna "stór" strákur sem talar bæði dönsku og íslensku, hleypur hér sjálfur milli húsa til vina sinna. Hann er mikill rússíbanamaður og í skemmtigörðunum eru það bara hæðatakmarkanirnar sem stoppa hann af í tækjunum! Frá og með þriðjudeginum (þegar sumarfríið er búið) verður hann í fyrsta skipti einn á leikskólanum þ.e. án stóra bróður, það verður nú bara gott fyrir hann.

Jóel Kristinn var auðvitað orðinn nokkuð sjálfstæður og duglegur þegar við fluttum og hefur honum bara farið fram síðan þá. Hann er helsti framburðarsérfræðingur fjölskyldunnar er kemur að dönskunni. Hann er hættur á leikskóla og orðinn alvöru skólastrákur, byrjar meira að segja á morgun í SFO-inu (heilsdagsskólanum) og næsta mánudag (11. ágúst) í skólanum sjálfum!
Hann er búinn að keppa á nokkrum fótboltamótum og fá tvo verðlaunapeninga auk þess sem hann er mikill áhugamaður um hina ýmsu skemmtigarða!

Við foreldrarnir erum auðvitað búin að læra eitthvað smá í dönsku, kynnast fullt af nýju fólki, læra einhvern slatta í náminu okkar en umfram allt erum við búin að læra að slaka svolítið á og gefa okkur tíma til að vera saman fjölskyldan! (það á nú samt bara við þegar það eru ekki próf... en það eru svolítið oft próf...)
Helgi er nú búinn að kynnast nokkrum nýjum golfvöllum og eignast slatta af nýjum græjum á árinu ... hehe
Sjálf er ég nýbúin að prófa að vera stungin af geitungi og get sagt ykkur, að það er verra en ég átti von á!

Annars er bara gott að frétta af okkur hér í upphafi okkar annars árs í DK. Við erum búin að vera með góða gesti, afi Sæli og Benta frænka eru búin að vera með okkur síðustu daga og eru nú í Horsens hjá Lilju frænku og fjölskyldu. Saman erum við öll búin að taka hefðbundinn túristarúnt, þ.e. Djurs Sommerland, Löveparken og miðbæ Árósa, borða og slappa af!

Framundan eru svo góðir gestir frá Svíþjóð sem fá einnig einhverja góða túristameðferð!

Bestu kveðjur,