Sep 25, 2007

Fótboltafréttir

Í fréttum er þetta helst að á sunnudaginn keppti Jóel Kristinn Helgason, 5 ára Íslendingur fyrir hönd Viby í lokamóti sumarsins Jysk-3.
Drengurinn stóð sig með afbrigðum vel, var nokkrum sinnum nálægt því að skora og kom í veg fyrir ótal mörk með efnilegum varnartöktum.
Mótið var haldið í um 35 km fjarlægð frá heimabænum, Viby en öll fjölskyldan var virk í stuðningsliðinu og skemmti sér konunglega. Mikið fjölmenni var á vettvangi en fjölmörg lið tóku þátt og spilaði drengurinn 3 leiki hver öðrum skemmtilegri fyrir áhorfendur og aðra aðdáendur keppenda.
Að móti loknu fengu keppendur verðlaunapening um hálsinn en þá kom reyndar smá babb í bátinn þar sem yngri bróðir leikmannsins umrædda, Fannar Ingi grét fögrum tárum vegna ósanngirni í úthlutun verðlaunapeninga. Þjálfari Viby -liðsins brást skemmtilega við og útvegaði eina medalíu til viðbótar og verðlaunaði litla bróður fyrir besta stuðning dagsins!
Hélt fjölskyldan því heim með tvo verðlaunapeninga og fjögur bros á vör. Þess má geta að veðrið var vægast sagt gott, sól og um 20° hiti sem okkur Íslendingum þykir bara fínt nú í lok september.
Svo fréttaritari haldi áfram að lofa upp í ermina á sér, þá eru framundan myndir frá liðnum vikum svo fylgist spennt með.
Fótboltakveðjur,

Sep 23, 2007

Gestafréttir

Í fréttum er þetta helst:
Við erum búin að fá fyrstu gestina okkar að heiman!
Á miðvikudag fengum við skemmtilega gesti í kaffi. Erna Niluka og kærastinn, hann Gulli, komu í heimsókn en þau voru í vikuheimsókn hjá fjölskyldu Gulla í Horsens. Alltaf jafn gaman að hitta Ernu (og auðvitað Gulla líka) en vonandi stoppa þau lengur næst þegar þau koma til DK.

Á fimmtudagskvöldið komu svo fyrstu næturgestirnir, afi Jóel og amma Stína. Þau voru búin að vera í viku í Köben og nú var röðin komin að Árósum til að taka út heimilishaldið og umhverfið í Bogeskovparken.
Á föstudaginn sýndum við ömmu og afa miðbæinn hér í Árósum og gáfum þeim svo gott að borða um kvöldið en á laugardaginn fórum við saman að borða Frokost í bænum og fórum svo í Bambaskóginn og á ströndina að grilla pyslur enda var bara hið besta veður.
Það voru nú allir á heimilinu ánægðir að fá svona góða gesti að heiman og ekki verra að heimilishaldið og umhverfið var samþykkt af gestunum þannig að við getum búið hérna róleg áfram.

Þið megið svo búast við fótboltafréttum mjöööög fljótlega
Med venlig hilsen

Sep 18, 2007

Saumafréttir!!!

Já, trúið mér, fréttapistill dagsins fjallar um saumaskap. Pistillinn verður að sjálfsögðu ekki langur - bara rétt í samræmi við magn saumaskapsins.
Þannig er að efri hæðin hjá okkur hefur verið gardínulaus frá flutningum, teppi fyrir glugganum í hjónaherberginu, pappi hjá strákunum og ekkert í gestaherberginu/skrifstofunni. Nú er von á gestum og þá þarf að setja fyrir gluggann svo nágrannarnir þurfi ekki að horfa upp á gestina vakna illa greidda og óbaðaða á morgnana.......... nú eða hátta á kvöldin!
Þá er komið að fréttunum!
Húsmóðirin á heimilinu á saumavél.......... hún (eða réttara sagt ég) tók fram saumavélina og saumaði tvær gardínur á bara brot úr kvöldstund. Ég held nú bara að amma Benta hefði orðið stolt......... Handbragðið er kannski ekki eins og hjá ömmum mínum eða Völu Sig en þetta tókst með viljann að vopni!

Með saumakveðju,

Sep 17, 2007

Kaupmannahafnarpistill

Fjölskyldan hélt í langferð um helgina. Við skruppum til kóngsins Köbenhavn snemma á laugardagsmorgun og fórum á ættarmót! Það eru nú ekki allir sem skreppa á ættarmót til Köben en það gerðum við og skemmtum okkur vel.
Fyrir þá sem hafa áhuga á ættfræði þá á amma Stína (Kristín Orra) föðursystur sem hafa verið búsettar hér í áratugi og eiga þær eiginmenn, börn og barnabörn hér. Nú er sem sagt öll fjölskyldan hennar ömmu Stínu hér í Danmörku.
Við hófum leikinn í fínni veislu á veitingahúsi í Nyhavn, þangað sem við rötuðum beint með aðstoð nýja GPS-tækisins hans Helga (eða okkar allra) en svo fórum við í íbúð sem afi Jóel og amma Stína eru með í Nörrebro, þar voru líka Jóel frændi (Jóel bróðir) auk þess sem Margrét og Arnar komu auðvitað með Pétur Orra og Tómas Atla með lestinni frá Stokkhólmi frábært að hitta einn hluta fjölskyldunnar sinnar aftur.
Strákarnir voru auðvitað alsælir að fá að hittast og leika sér og þeir litlu Fannar og Tommi náðu saman í fyrsta sinn og brostu auðvitað út að eyrum!

Á sunnudeginum fóru afi og amma svo með barnahópinn (þ.e. okkur öll) í Tivoli - hið eina sanna. Það var hlaupið á milli tækja fram á kvöld.
Fannar Ingi hélt auðvitað áfram að sýna snilli sína í tækjunum setti hendur upp í loft, hló og skríkti í hverri ferð.
Jóel Kristinn hefur líka mjög mikinn áhuga á tívolí-tækjum, er alvarlegri á svip á meðan rússíbaninn þýtur áfram en um leið og hann stoppar brosir hann út að eyrum og leitar að næsta tæki.
Fullorðna fólkið stóð sig einstaklega vel í þessari Tivoli-ferð. Amma Stína og afi Jóel fengu það skemmtilega hlutverk að sinna barnabörnunum þegar stóru börnin þurftu að leika sér. Við skelltum okkur öll (Margrét samt ekki alveg alltaf) í fullorðinstækin, í rólurnar (sem fara ansi mikið hátt), í fallturninn (sem var alveg frábær) og svo auðvitað í drekann þar sem húsmóðirin í Beykiskóginum fékk hláturskast þar sem hún og hinir skemmtu sér svo vel.
Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt allt saman - og fyrir allan aldur!

Um áttaleytið var svo ekið af stað heim til Árósa, strákarnir steinsofnuðu á fyrstu mínútum ökuferðarinnar og voru bornir sofandi inn í rúm hér heima.

Fyrir þá sem eru að bíða eftir myndabloggi þá er það rétt handan við hornið. Ritari fréttabloggsins fær fljótlega lánaða fartölvu eiginmannsins þar sem ekki tekst að koma myndunum inn á fréttatölvuna sjálfa.

Með bestu kveðju,

Sep 10, 2007

Engar fréttir eru góðar fréttir!

Nú er staðan þannig að það er eiginlega ekkert að frétta. Þessi fréttapistill verður því um ekki neitt!

Þessu fréttaleysi átti að redda með því að skella inn nokkrum myndum en þá vildi tölvan ekki taka við myndunum úr myndavélinni og þrátt fyrir að á heimilinu búi maður sem bæði er sérstaklega flinkur í tölvum og myndavélum þá eru myndirnar enn fastar í myndavélinni - sjáum til kannski reddast þetta fljótlega.

Skemmtanalífinu í götunni er bróður/systurlega skipt á milli kynja. Strákarnir í götunni (þeir íslensku) skelltu sér á djammið á föstudagskvöld. Fóru í Go-Kart, póker og á pöbbana í miðbænum. Stelpurnar fóru á laugardagskvöld, hittust í heimahúsi og spiluðu actionary með miklum tilþrifum.
Strákarnir (litlu) skemmta sér svo bara stanslaust alla daga.

Nú byrjar Naturholdet hjá Jóel Kristini á morgun. Hann þarf að mæta tímanlega á leikskólann á þriðjudögum og pakka í bakpoka, fötum og nesti fyrir daginn. Einnig fær hann drykkjarbrúsa sem hann á að fylla með vatni og taka með. Hann er kominn með dagskrá fyrir næstu 7 - 8 þriðjudaga, ferðir hingað og þangað, voða spennandi!
Það verður svo spennandi að sjá hvað Fannar Ingi gerir þegar Jóel Kristinn verður farinn í ferðinar sínar................

Annars erum við bara í því að reyna að læra eitthvað í skólunum okkar og æfa okkur á nýja GPS-tækið!

Bestu kveðjur úr Beykiskóginum

Sep 5, 2007

Fréttir af skólagöngum

Staðan á skólagöngu fjölskyldunnar er eftirfarandi:

Helgi: Skólinn leggst alveg gríðarlega vel í drenginn! Er enn að vinna í því að fá eitthvað metið úr Háskólanum á Akureyri, einhverjar einingar líklega í höfn, eitthvað nýtist ekki og annað kemur í ljós síðar.......... hmmmm. Staðfesting eftir nokkrar vikur en samt þarf að sækja strax um ef hann ætlar að fá inn kúrs í staðinn þetta er allt saman frekar flókið og óljóst en svona er þetta bara.
Í bekknum eru 4 - 5 Íslendingar og svo allra þjóða kvikindi, allt fer fram á ensku sem leggst vel í námsmanninn.

Lóa Björk: Fór til Köben á mánudag á kynningardag. Engin bjór, engin söngur eða leikir eins og hinir Íslendingarnir í götunni þekkja af kynningardögunum í sínum skólum. Engir útlendingar eins og hjá hinum Íslendingunum. Bara ljóshærðir, skolhærðir og brúnhærðir Danir og þeir sem dekkstir eru, eru bara nýkomnir heim af sólarströndinni! BARA töluð danska og það á miklum hraða!
Fékk 1 1/2 tíma fyrirlestur um stefnu skólans, uppeldis- og kennslufræðimál. Eftir það var síðan 1 1/2 klst kynning á náminu þar sem hinn hraðmælti umsjónarmaður námsins fór yfir skipulag og námsmat vetrarins á miklum hraða. Þurfti að kynna mig fyrir hópnum á dönsku, segja frá bakgrunni og væntingum - á dönsku.........
Fór í kúrsinn sem kenndur er hér í Árósum á þriðjudag leist mjög vel á kennarann sem talar alveg þokkalega skiljanlega dönsku og mjög vel á hópinn sem er að stórum hluta mastersnemar í dönskukennslu (þeir ættu kannski að æfa sig á mér!!!!!!!!). Frábært skipulag á þessum kúrsi sem er að hluta til fjarnám, fáum fyrirlestra frá Kaupmannahöfn með videóupptökum á netinu og í stað umræðutíma erum við öll komin með bloggsíður þar sem við hugleiðum efnið og kommentum á hvort annað......... þannig að Lóa Björk er með bloggsíðu um námskrár- og kennslufræði á DÖNSKU!!!! - áhugasamir: NEI síðan er sko lokuð almenningi!!!
Á morgun er svo önnur ferð til Kaupmannahafnar - brottför úr Beykiskóginum kl. 05:45, strætó kl. 06:02 og lest kl. 06:27.

Jóel Kristinn: Sem einn af þessum stóru, í leikskólanum er Jóel Kristinn frá og með mánudeginum hluti af Naturholdet og fær eigin bakpoka og drykkjarflösku. Hvað Naturholdet er kemur í ljós síðar en nafnið bendir til þess að þetta sé eitthvað ótrúlega heilbrigt og umhverfisvænt!

Fannar Ingi: Allt að koma, er bara hættur að væla yfir því að vera skilinn eftir á leikskólanum og er farinn að vera jafnlengi og stóri bróðir eða ca. frá 9 - 15. Drengirnir verða komnir upp í fullan dag í næstu viku enda mikill lestur framundann hjá foreldrunum!

Skólakveðjur,

Sep 4, 2007

Helgarfrí í Viby

Nú svo að þið séuð nú öll nokkuð vel upplýst um hvernig við eyðum tímanum hér í DK þá fer hér á eftir smá umfjöllun um helgina hjá okkur fjölskyldunni.

Nú helgarnar byrjar alltaf með föstudagskvöldi en þá var bara skroppið í næsta hús og spilað með smá stuðningi rauðvíns og fleira góðgætis, hentugt að eiga svona fína nágranna hér út um allt!

Á laugardagsmorgun brunaði húsbóndinn með vini sínum til Þýskalands þar sem fyllt var drykkjarbirgðir tveggja íslenskra fjölskyldna. Það skal sérstaklega tekið fram að laaaaang mest var keypt af gosi og meira að segja Pepsi Max, svo nú geta pabbi og Krístín alveg farið að koma í heimsókn. Á meðan á innkaupaleiðangrinum stóð tók húsmóðirin á heimilinu húsmæðrahlutverk sitt mjööög alvarlega og bakaði sínar fyrstu lummur.
Amma Benta bjó alltaf til heimisins bestu lummur sem ég (LBJ) fékk glóðvolgar í kaffitímum alla mína æsku, uppskriftirnar hennar voru nú þannig að það var bara slumpað á magnið af hinu og þessu en þrátt fyrir það tókst þessi lummutilraun bara vel. Jóel Kristinn var allavegana gríðarlega sáttur og borðaði óteljandi lummur, svona þangað til allt var búið!

Á sunnudeginum hélt helgarfríið auðvitað áfram. Helgi Kristinn og Fannar Ingi fóru saman í hjólatúr og týndu nokkur epli sem dottið höfðu af trjánum hér í nágrenninu (samt ekki inn á neinum einkalóðum!) og svo fórum við fjölskyldan með eplin í Bambaskóginn og gáfum bömbunum. Eftir göngutúr í Bambaskóginum fórum við á ströndina með einnota grill, pylsur og pylsubrauð með gati og grilluðum og lékum okkur.

Jamms, þetta var dæmi um helgarfrí í Viby.
Kv.

Sep 2, 2007

Síðasta sögustundin

Hér á eftir fyrir síðasta sögustundin sem tileinkuð er upprifjun á síðari hluta ágústmánaðar.
Eftir að bílaleigubílnum var skilað tóku við 5 bíllausir dagar! Já, í upphafi var bara svolítið notalegt að vera bíllaus t.d. var veitt rauðvínsglas (í eintölu) á mann með hádegismatnum og svoleiðis lúxus.

Strákarnir byrjuðu á leikskólanum, Gröften þann 16. ágúst og snerust næstu dagar (og vikur) eiginlega um að aðlaga prinsana. Jóel Kristinn stökk jú bara inn og byrjaði að leika en eins og fram hefur komið hefur þetta tekið lengri tíma hjá Fannari Inga!

Við prófuðum strætó! Það var bara talsverð upplifun, eitthvað alveg nýtt! Strákarnir skemmtu sér konunglega svona svipað og í meðal góðum rússíbana. Við fórum niður í miðbæ, röltum um Strikið og fengum okkur snarl við ánna og fórum svo í lestarferð heim. Það var enn meiri upplifun fyrir drengina, líklega álíka og stór rússíbani - að þeirra mati.

Bíllinn okkar kom til landsins á föstudegi en við gátum ekki fengið hann afhentan fyrr en eftir hádegi á mánudegi. Konan í símanum gaf þá skýringu að hún þyrfti að vinna yfirvinnu ef þetta ætti að nást á föstudeginum! ............... svona svipað þjónustustig og konan skólanum mínum sem gat ekki svarað mailinu mínu af því að hún fékk svo mörg mail................ og konan á pósthúsinu sem ég fór á um daginn sem ætlaði að hætta að faxa fyrir mig afþví að það var komið matarhlé hjá henni......... Ég legg til að næst þegar kennari með stóran bekk fær próf eða ritgerðir frá nemendum skili hann bara fyrstu 15 til baka og tilkynni hinum að hann hafi ekki getað farið yfir öll prófin því þau hafi verið svo mörg..............

Jæja, nóg um þjónustustigið hér í DK. Síðasta vika ágústmánaðar var tíðindalítil hjá flestum fjölskyldumeðlimum.
Jóel Kristinn: Leika, leika, leika og leika. Smá hegðunarátak þar sem það var full gaman að leika á köflum en það er allt í góðu núna.
Fannar Ingi: Æfa sig að vera á leikskólanum fram að hádegi, tókst oftast. Annars bara að leika sér í rólegheitunum úti og inni eða bara að vera með mömmu sinni. Vinsamlegast takið samt eftir að Fannar Ingi er hættur með bleiu fyrir 2 vikum síðan, bæði á nóttu og degi og stendur sig eins og hetja og rúmlega það.
Lóa Björk: Lagðist í rúmið, lasin. Á milli ferða til og frá leikskólanum var allt í rólegheitunum því þetta er ekki góður tími til eyða í margra daga lasleika. Heilsan er að koma, svona fyrir þá sem hafa einhvern áhuga á að fylgjast með heilsufari húsmóðurinnar.
Helgi Kristinn: Fyrsta vikan í skólanum. Kynningarvika með bjór og helstu upplýsingum um skólann og námið framundan. Hápunktur vikunnar var þegar bekkurinn lék kaktusa í Western Party í Botanisk have (som er ved siden af skolen og Den gamle by). Alvaran tekur við í næstu viku.

Jæja, nú hefur ágústmánuður verið reifaður í nokkrum pistlum og hér eftir verður bara sagt frá hlutunum jafn óðum eins og á alvöru fréttamiðlum

Bestu kveðjur,