Apr 24, 2009

Sól og blíða

Þar sem lítið sem ekkert er að frétta verður þetta bara stutt fréttayfirlit og veðurfréttir.

Jóel Kristinn leikur sér úti í sólinni þess á milli sem hann er í skólanum.
Fannar Ingi leikur sér úti í sólinni .... líka í leikskólanum.
Helgi Kristinn reynir að sinna náminu en þarf stundum (svolítið oft) að fá langa pásu til að geta verið úti í sólinni.
Lóa Björk reynir stundum að sinna ritgerðarskrifum en vill frekar bara vera úti í sólinni.

Veðurfréttir:  Hér er sól alla daga og hitinn á bilinu 15°- 20° (auðvitað heitara þegar maður situr í sólinni).  Apríl stefnir skv. dönsku veðurfréttunum í met í fjölda sólskinsstunda sem er bara gott.

Gestafréttir:  Eftir brottför afa og ömmu á Selfossi eftir páskana fengum við góðan gest í næturgistingu, mat og drykk.  Svenni (hennar Regínu) á leið framhjá og kom við hjá okkur við góðar undirtektir heimilisfólksins.  Í næstu viku er von á ömmu Guðlaugu sem ætlar að hitta börn og barnabörn í nokkra daga.  Viku síðar er svo von á Kristínu Hrefnu og öllu hennar liði í nokkra daga skemmtiferð og munum við einmitt halda upp á afmæli Jóels 8. maí þegar Kristín og fjölskylda verða hér - voða gaman!  Nú þar á eftir síðar í maí er von á doktor Jóel og það verður sko varla leiðinlegt heldur.....  Frekari gestakomur hafa ekki verið boðaðar .... sumarið ekki planað hjá fjölskyldunni en það kemur bara í ljós hvernig það verður.

Næst á dagskrá er svo að fagna fæðingu enn eins frændans í Svíaveldi en á allra næstu dögum munu Pétur Orri og Tómas Atli eignast lítinn bróður .... það verður sko fjör á Seltjarnarnesinu og í sveitinni þegar við systurnar mætum með liðið  - næst þegar við hittumst 5 strákar!!!!!

Jæja bestu kveðjur

Apr 13, 2009

Páskafríið á enda

Það er víst strax kominn 2. í páskum og gestirnir okkar góðu frá Selfossi bæði komnir og farnir.
Síðustu dagar hafa farið í að borða mikið af góðum mat, undirbúa máltíðir og ganga frá eftir máltíðir - hehe. Við höfum jú reynt þess á milli að ganga smá og smyrja nesti og svo höfum við að sjálfsögðu gefið okkur tíma til að borða íslensku páskaeggin okkar mmmmmmmmmmm......

Reyndar fórum við í Legoland á föstudaginn langa þar sem við þeyttumst á milli tækjanna í 7 og hálfan klukkutíma og skemmtum okkur konunglega að venju. Afinn og amman voru dregin upp í alls konar lestir og rússíbana og stóðu þau sig með mikilli prýði.

Á páskadag var varla hægt að átta sig á því að við vorum ekki á Íslandi.  Allir fengu íslensk páskaegg frá Nóa og Síríus og svo var íslenskt lambalæri um kvöldið það eina sem kannski var svolítið ó-íslenskt var veðurfarið en það var auðvitað sólbaðsveður eins og er búið að vera síðustu vikuna og er spáð áfram þá næstu.  Við erum að tala um ca. 15 - 19° sem er bara alveg fínt í fyrri hluta apríl mánaðar. 

Á morgun tekur svo alvaran aftur við.  Strákarnir þrír fara allir í skólana sína - leikskólann - grunnskólann og háskólann og húsmóðirin verður að gjöra svo vel að koma sér aftur á skrið í lokaritgerðinni.  Stefnan er að klára ritgerðina í júní til að vera ekki með þetta hangandi yfir sér í allt sumar!

Sem sagt allir vel nærðir eftir gott páskafrí,
bestu kveðjur

Apr 2, 2009

Hér er sól og blíða

Já hér er sem sagt komið alvöru vor!  Páskaliljurnar eru byrjaðar að springa út í garðinum og hitastigið er komið vel yfir 10° sem er fínt í byrjun apríl.  Spáin gerir meira að segja ráð fyrir allt að 17° á laugardaginn........ jibbý.

Helgi Kristinn átti afmæli í gær og þá var bara frí hjá okkur fullorðna fólkinu!  Þegar drengirnir voru komnir í skólana sína brunuðum við með Þórunni og Jóa í golf og spiluðum til hádegis. Eftir það var svo haldið niðrí bæ þar sem við fengum okkur lunch við ána mmmmmmm........ röltum svo um í bænum - völdum sumarjakka á afmælisbarnið og fleira skemmtilegt!  Um kvöldið fórum við svo fjölskyldan saman út að borða ............. þannig að þetta var bara hinn besti dagur!

Fyrir utan afmælisveisluna er lítið um að vera hjá okkur í fjölskyldunni .... nema hjá Jóel - þar er allt á fullu!

Sl. fimmtudag var okkur boðið á sirkus í SFO-inu hans Jóels.  Þar voru krakkarnir búnir að undirbúa rosa flotta sýningu.  Jóel var í hlutverki karate-meistara.  Karate-meistaranir voru þrír gríííðarlega sterkir strákar sem fyrst brutu þunna litla spýtu (sem minnti mjög á hrökkbrauð), þá var höggið í sundur prik og að lokum heill múrsteinn!!!! Framlag drengsins var tekið upp á símann hans Helga og má sjá upptöku hér: http://share.ovi.com/users/hkh

Næsta sýning var svo á sunnudaginn þegar við fórum á lokasýningu fimleikanna. Þar sýndu fjölmargir hópar það sem þeir voru búnir að læra í vetur og stóð Jóel Kristinn sig auðvitað einstaklega vel. Hann tekur svona sýningum mjööööög alvarlega, er einstaklega einbeittur á meðan á sýningunum stendur en um leið og sýningarnar eru búnar kemur hann hlaupandi - brosandi út að eyrum - alsæll!

Skemmtiprógrammið átti nú heldur betur að halda áfram hjá Jóel í dag.  Í kvöld átti hann að mæta í sínu fínasta pússi í Galaveislu í skólanum þar sem hann átti að borða og dansa og á morgun er önnur veisla í skólanum því það er útiskemmtun frá kl. 12 - 14 með ýmsum þrautum og leikjum eeeeeeeen
Jóel vaknaði upp í nótt bókstaflega hundlasinn!  Ég hef reyndar bara einu sinni áður séð hann svona slappann en það var þegar hann fékk einkyrningssóttina þegar hann var 3 ára!  Nú liggur hann bara uppi í rúmi með 40° hita og sefur og sefur og sefur.  

Hann verður nú vonandi fljótur að hrista þetta af sér ..... amma og afi á Selfossi koma í næstu viku og svo hefur amma Guðlaug líka boðað komu sína en hún kemur um mánaðamótin apríl/maí þannig að það er ýmislegt framundan!

Bestu kveðjur,