Oct 31, 2007

Afmælisfréttir

Fannar Ingi Helgason er orðinn 3 ára. Drengurinn fékk eiginlega 4 daga afmælisveislu með gleði, gjöfum og góðum (g)veitingum.
Þegar drengurinn vaknaði upp á föstudagsmorgni voru afi og amma á Selfossi mætt og þótti hinu tilvonandi afmælisbarni og bróður hans ekki slæmt að fá eitt knús áður en haldið var á leikskólann. Ekki versnaði það þegar afi og amma komu með að sækja og það snemma! Nú eins og hefð er þegar ömmur og afar koma í heimsókn var haldið í miðbæinn þar sem bærinn var skoðaður, smá búðaráp og matur. Síðan fór eftirmiðdagurinn í afmælisundirbúning

Á afmælisdaginn (laugardag 27.10) hófst dagurinn með smá kökubakstri en fljótlega voru fengin lánuð hjól fyrir "gamla" liðið og farið í klukkutíma hjólreiðaferð í kringum vatnið.
Afmælisveislan hófst klukkan 15:00 en þetta var tvöföld veisla því Kristján (á 203) varð 2 ára á föstudaginn og slógum við því saman í góða veislu fyrir báða strákana. Það var troðfullt hús og voða gaman.
Drengurinn fékk mikið af dóti og er alsæll með allt saman! Stoltastur er hann þó af því að vera kominn í nýtt rúm, svona með engum rimlum............ enda tími til kominn, barnið orðið þriggja ára!

Á sunnudag fengum við bílaleigubíl til að geta keyrt með ömmu og afa um svæðið. Við sýndum þeim ströndina og Bambaskóginn fórum upp á Himmelbjerget og í Randers Regnskov. Um kvöldið elduðum við svo góðan mat enda síðasta kvöld áður en gestirnir góðu héldu aftur heim á Selfoss.

Á mánudag var svo afmælisveisla á leikskólanum. Búið var að setja dúk á borð og kveikja á 3 kertum þegar við komum með heimabakaða pizzasnúða fyrir alla krakkana á leikskólanum. Nei! Ekki fyrir alla krakkana............... við íslensku foreldrarnir höfðum ekki áttað okkur á því að múslimsku börnin á leikskólanum máttu auðvitað ekki fá snúðana því höfðum sett skinku á þá!!! Okkur þótti þetta auðvitað mjög leiðinlegt en leikskólakennararnir redduðu mandarínum fyrir þau í staðin.
Þetta er auðvitað spurning, það hefði verið ótrúlega lítið mál fyrir okkur (ef við hefðum áttað okkur á þessu) að sleppa skinkunni eða búa til eitthvað annað - en á móti kemur spurningin á að sleppa skinkunni á pizzunni hér í landi svínakjötsins? Verður fólk sem flytur til Danmerkur ekki bara að taka tillit til þess að hér borðar fólk svínakjöt á pizzuna? En þetta eru bara börn 3 -5 ára og þau vilja auðvitað fá veitingar í afmælinu eins og hin börnin................. ég sker bara niður ávexti í næsta afmæli, þá ættu öll trúarbrögð að geta verið með!

Aðrar fréttir tengjast allar mat því með Selfyssingunum fengum við allt það mikilvægasta! Lambakjöt sem borðað var með bestu lyst á mánudagskvöld og íslenskan fisk sem borðaður var í gærkveldi auk þess sem nú eigum við íslenskar súkkulaðirúsínur, lýsi og Hunt BBQ-sósu. Það eru aldeilis gleðitímar framundan!

Bestu kveðjur,

Oct 25, 2007

Aukafréttatími

Þessi aukafréttatími er í tilefni tveggja merkilegra frétta.
1. Jóel Kristinn er í ströngu námi á leikskólanum. Í gær fór hann með elstu krökkunum á leikskólanum í strætó í bíó. Þar lærði hann að drekka kók! Hingað til hefur barnið bara drukkið djús eða mjólk við hátíðleg tækifæri svo sem afmæli, bíóferðir eða annars konar matarveislur en í leikskólaferðinni var boðið upp á popp og kók (sem flokkast líklega undir nauðsynleg undirstöðu atriði í því að kunna að fara í bíó). Jóel Kristinn þáði auðvitað kókið með þökkum! Aðspurður um hvort þetta hafi verið gott svaraði hann ákveðinn, játandi. Reyndar hafi þetta verið dálítið sterkt en vinur hans var með vatn og hann fékk bara sopa hjá honum og þá var kókið mjög gott!!!

2. Kristín Hrefna Halldórsdóttir 23 ára "tengdadóttir" forsætisráðherra hefur verið ráðin framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
http://www.eyjan.is/ordid/
Fyrir þá sem aðeins lesa fréttirnar má upplýsa að Kristín Hrefna er auðvitað miklu miklu meira en "tengdadóttirin.is" hún er framkvæmdaforkur frá A - Ö. Hæfileikarík, dugleg, skemmtileg, jákvæð....... Við sem hana þekkjum vitum að hún hefur augljóslega verið ráðin í stöðuna af eigin verðleikum. Það er svo sem eðlilegt að fjölmiðlar sýni fjölskyldutengslunum áhuga en við vonum að fólk fái tækifæri til að meta hana af eigin verðleikum fyrst og fremst. Nú er þessari hallelúja frétt um ágæti Kristínar lokið. Kristín til hamingju með starfið!

Bestu kveðjur,

Oct 23, 2007

Fréttir eftir efterårsferie

Jæja, þá er allt komið á fullt aftur hér í Beykiskóginum. Ekkert afslappelsi meir (þangað til næst alla vegana).
Viðskiptafræðineminn er að fara að skila fyrstu ritgerð vetrarins. Hún fjallar um efnahagsmál í Tyrklandi - gæti ekki verið meira spennandi!!! Áhugasamir um efnahagsmál Tyrklands ættu að geta leitað til Helga Kristins í lok vikunnar - þegar hann verður orðinn sérfróður á þessu sviði.
Kandidat - studenten i matematikkens- didaktik er rétt kominn inn úr dyrunum eftir lestarferð og kennslustund í Kaupmannahöfn (eins og langflesta þriðjudaga). Í dag gerðust þau undur og stórmerki að hinn alíslenski og ekki dönskumælandi nemi bara talaði og talaði - á dönsku (eða svona næstumþvídönsku) í umræðunum í tímanum. Fram til þessa hefur neminn (sem einnig er fréttaritari hér) verið hin þögla týpa í kennslustundunum en í dag gat Íslendingurinn bara ekki þagað meir (rétt upp hönd sem er hissa!!!!!!!).

Jóel Kristinn er farinn að segja slatta á dönsku og er alltaf að prófa. Í síðustu viku voru þeir bræður "einir" sem sagt án hinna íslensku strákanna á leikskólanum í einn dag og eftir daginn flutti pædagoginn á deildinni þeirra okkur þær fréttir að Jóel hefði bara sagt fullt m.a. "min mor kommer klokken tre" sem er alveg fimm orða setning.
Fannar Ingi er alltaf að spyrja hvernig hitt og þetta sé á dönsku og prófar stundum. Oft þegar hann prófar að tala dönsku verður hann voða feiminn á eftir - algjört krútt!
Þetta sem sagt kemur hjá þeim endanum þó að þeir leiki sér bara á íslensku og bara við íslensk börn bæði hér heima og á leikskólanum..............

Framundan er skemmtileg helgi. Fannar Ingi verður 3 ára á laugardaginn og þá verður auðvitað veisla. Vinum og fjölskyldu er að sjálfsögðu boðið - hehe. Reyndar fáum við gesti að heiman því Ingi afi og amma (Anna)Þóra eru væntanleg á fimmtudagskvöldið. Þau taka því þátt í veisluhöldunum með hinum Íslendingunum hér í Beykiskóginum.

Með bestu kveðju til ykkar allra

Oct 21, 2007

Fréttamyndir frá miðjum september

Hér eru nokkrar myndir, þetta flokkast nú eiginlega undir gamlar fréttir. Grill á ströndinni, fjölskylduferð til Köben og ein af bræðrunum héðan frá Árósum. Allar myndirnar eru teknar um miðjan septmeber.
Verið að grilla pylsur og ströndinni. Pylsubrauðin eru ekki eins og við þekkjum heima á Íslandi heldur svona frönsk með gati.
Frændurnir Pétur Orri og Jóel Kristinn í hinu eina sanna Tivoli í Kaupmannahöfn.
Margrét eða "Magga móða" á leið í rússíbana með Tómas Atla. Þess má geta að ferðin gekk mjög vel og móður og barni heilsast vel á eftir.... hehehe
Bræðurnir á göngu í einum að görðunum hér í Árósum. Danirnir eru ekki eins uppteknir af þéttingu byggðar og "sumir" aðrir og skilja því eftir græn svæði hér og þar í bænum, meira að segja í miðbænum!!!!
Fannar Ingi í hringekjunni í Tivoli. Þrátt fyrir að vera orðinn vanur maður í rússíbanaferðum er alltaf jafn gaman að fara á hestbak í hringekjunni. Fyrir aftan hann sést glitta í Tómas Atla sem líka var á hestbaki.
Bless í bili,
Næstu fréttamyndir ættu svo að sýna fótboltamanninn í keppni.

Oct 18, 2007

Efterårs -"frí"

Það er helst að frétta að hér í DK er efterårsferie þessa vikuna. Frí í skólunum en samt ekki. Fannar og Jóel fóru á leikskólann mánudag - miðvikudag á meðan foreldrarnir unnu í skólaverkefnum. Í dag á fimmtudegi tókum við okkur öll frí og fórum í Kattegatcenter að skoða hákarla, seli og hina ýmsu fiska. Þetta var bara alveg frábær dagur sól og blíða mest allan daginn en það var nú eiginlega skítkalt, samt 8 - 10 gráður, brrrrrr.

Til að gleðja Kristínu Hrefnu má nefna að þegar við komum heim elduðum við okkur góðan mat, kveiktum á kertum og svona.

Húsmóðirin á heimilinu fékk hjól í gær. Forláta TREK fjallahjól með dempara og alles..... Húsbóndinn og yfirkokkur heimilisins tók að sér að prufukeyra hjólið í hjólatúr með nágrönnunum. Þeir hjóluðu að Moesgaard-ströndinni og þar eftir stígum meðfram allri ströndinni og niður í miðbæ og svo þaðan heim. Hjólið reyndist ótrúlega vel en hjólreiðamaðurinn var rennsveittur eftir átökin enda dágóður spotti sem hjólaður var á ca. 70 mín.
Fannar Ingi fékk reyndar líka hjól í vikunni, í fyrirframgreidda afmælisgjöf. Hjól með hjálpardekkjum! Stefnan er nú samt að kaupa stól á nýja fjallahjólið fyrir Fannar svo hægt verði að fara í aðeins lengri hjólreiðatúra.

Bestu kveðjur úr Beykiskóginum,

Oct 15, 2007

Hjólafréttir Jóels

Fréttaritari vill tilkynna það sérstaklega að Jóel Kristinn Helgason getur hjólað án hjálpardekkja! Hingað til hefur hjólreiðakappinn ekki verið sérstaklega viljugur að reyna (hann vill sko helst bara gera það sem hann kann og getur) en í gær hjólaði drengurinn sjálfur fram og til baka um götuna án aðstoðar.

Við höfum það bara gott áttum góða helgi. Á föstudagskvöld var Kulturnat í Árósum og löbbuðum við og kíktum á barnadagskrá í ráðhúsinu. Hittum þar skólafélaga Helga úr viðskiptafræðinni og löbbuðum með hans fjölskyldu og ætluðum að fá okkur að borða. Það var nú ekkert svo einfalt - allt troðfullt þannig að við enduðum bara á McDonalds.

Á laugardag fórum við með tveimur nágrannafjölskyldum okkar í Den gamle by. Veðrið var alveg frábært, glampandi sól og blíða (eins og alla helgina - og er enn!) og við löbbuðum um og skoðuðum gömlu húsin. Strákarnir fóru líka í leiktæki frá því í eldgamla daga (svona þegar langamma (amma Lóa eða jafnvel amma Stína voru ungar!). Fengum svo þriðju nágrannafjölskyldu okkar í heimsókn þegar við komum heim og borðuðum með þeim. Gaman að eiga svona mikið að góðum nágrönnum!

Á sunnudeginum var sett met í rólegheitum. Slappa af, baka köku, tölvuleikir, úti að leika, inni að leika, allt í rólegheitunum. Ótrúlega notalegt.
Það eru þó fréttir að í kvöldmatinn í gær var lax. Það er í fyrsta sinn síðan við komum hingað 1. ágúst sem við fáum eitthvað sem líkist fiski. Kokkurinn á heimilinu gerði máltíðina auðvitað snilldarlega og kannski verður bara fiskur aftur í matinn hér í DK.

Ingi afi á Selfossi átti afmæli í gær, er bara ungur karlinn - ennþá. Menn sem klífa fjöll og firnindi í hverri viku (og öll hærri en Himmelbjerget) geta nú varla flokkast undir að vera gamlir þó þeir séu á sjötugsaldri (hmmmm sjötugsaldri - getur það verið!!!!!!!!!!!)
Til hamingju með daginn, Ingi afi!!!

Bestu kveðjur,

Oct 9, 2007

Fréttamyndir

Þá eru hér nokkrar myndir, svona til að byrja með. Meira að sjálfsögðu væntanlegt von bráðar. Í næsta myndaholli má t.d. búast við myndum af fyrsta fótboltamótinu hans Jóels Kristins og Kaupmannahafnarferð. En hér kemur svona smá............. það gleymdist reyndar að snúa þessari fyrstu.............. en það er allt í lagi.

Hér eru flottustu bræðurnir - þið verðið bara að halla hausnum til að skoða myndina!!!
Hér er Jóel Kristinn á fyrstu fótboltaæfingunni sinni í ágúst - í Man Utd. búning
Bræðurnir með sykurhúðuð epli á miðaldarfestival í Horsens
Dauðinn og feðgarnir á miðaldarfestivalinu í Horsens
Með nágrönnunum Hildi, Magnúsi (7 ára) og Halldóri á miðaldarfestivalinu

Fréttir frá ömmuheimsókn

Nú er það helst í fréttum að amma Guðlaug er búin að koma í heimsókn og leggja formlega blessun sína yfir búskapinn og umhverfið hér í Bøgeskovparken.

Þegar fjölskyldan fær góða gesti er er ekkert verið að hanga í aðgerðarleysi. Strax við komuna á laugardagskvöldið var ráðist í “gourmet” eldamennsku “a la” Helgi Kristinn. Þess má geta að Helgi var drifinn í eldhúsið beint af golfmóti þar sem spilað var á fínum velli í ótrúlega góðu veðri! Fyrir áhugasama þá gekk spilamennskan alveg ágætlega þó drivin hafi ekki hrokkið í gang fyrr en á síðustu holunum.

Á sunnudeginum fórum við öll í Randers Regnskov sem er yfirbyggður dýra- og plöntugarður í um 30 – 40 mínútur frá Århus. Þarna er búið að búa til svæði með dýrum og gróðri frá Suður Ameríku, Asíu og Afríku. Það er sko alveg hægt að mæla með þessari skemmtun. Á bakaleiðinni keyrðum við meðfram ströndinni og enduðum á ströndinni “okkar” Moesgård-ströndinni. Þar vildi svo ótrúlega skemmtilega til að tvær aðrar fjölskyldur úr götunni voru mættar á sama tíma (eina fólkið fyrir utan okkur á allri ströndinni). Þórunn og Jói með börnin sín þrjú og Palli og Hjördís með strákana tvo. Þarna fékk amma Guðlaug óvænt tækifæri til að kynnast aðeins 2/5 hluta íslensku nágranna okkar í Beykiskóginum. Nú eins og svo oft áður var góður matur á boðstólnum um kvöldið, svona gestinum ti l heiðurs.

Á mánudeginum fékk amma Guðlaug að sjá leikskóla strákanna og miðbæ Árósa. Til að koma lesendum á óvart þá var haldið heim og eldaður góður matur um kvöldið!!!

Næst eru það svo bara amma og afi á Selfossi sem mæta á svæðið (í lok mánaðarins) en það eru auðvitað allir spenntir að fá fleiri svona afa og ömmur í heimsókn.
Bedste hilsner,

Oct 4, 2007

Fréttir fyrir óþolinmóða

Í tilefni kvörtunar frá óþolinmóðum lesanda verður hér skellt inn smá aukafréttatíma um nánast ekki neitt.
Þegar lítið er að frétta er lítið að skrifa um en það dugar ekki óþolinmóðum lesendum og þá sérstaklega óþolinmóðum háskólanemum sem þurfa að borða heima hjá sér þar sem bestu ættingjarnir eru fluttir til útlanda!!! (Kristín mín þú ert velkomin í mat hvenær sem er!)

Nú hér er bara lært og leikið. Allir hegða sér vel þessa dagana - eins og það sé nú fréttnæmt!
Fannar Ingi hefur gerst sérstakur áhugamaður um hafragraut í morgunmat.
Jóel Kristinn er stilltur og prúður og búinn í hegðunarátakinu með góðum árangri.
Helgi Kristinn fer í skólann, lærir, leikur sér......... við börn og fullorðna.
Lóa Björk verður að gjöra svo vel að fara að læra þessa dönsku - og það strax!

Nú eins og sjá má er lítið að frétta.................... myndirnar eru enn á leiðinni. Nú til að upplýsa lesendur um stöðu myndamála þá eru myndirnar í tölvu húsbóndans sem fer með honum í skólann á daginn. Á kvöldin er tölvan í notkun í þágu lærdóms eða skemmtunar húsbóndans en er þess á milli læst með aðgangsorði sem fréttaritari kann ekki............ það er því ekkert einfalt mál að komast að til að skella inn myndunum........... þessu verður nú samt reddað !!!!

Nú að lokum má segja frá því að amma Guðlaug er væntanleg í heimsókn á laugardaginn og þá fær hún tækifæri til að samþykkja heimilishaldið og nánasta nágrenni.

Bestu kveðjur,
"ekki"fréttaritarinn