Mar 21, 2009

Rólegheit

Allt gott að frétta héðan úr rólegheitunum.

Það er engin spurning að vorið er nánast komið hér í Danmörkunni.  Búið að vera upp undir 10° alla síðustu viku og menn hafa sest út í sólina .... í flíspeysunni ... og horft á vorlaukana sem eru komnir í ca. 15 cm hæð.  Annars hafa víst fæst orð minnsta ábyrgð því það á víst að kólna aftur í næstu viku en það verður nú vonandi sem minnst úr því.  Við erum sko alveg tilbúin að fá almennilegt vor - sem fyrst!

Við höfum bara verið mest hérna heima við og reynt að sinna skyldunum síðustu dagana.  Fórum reyndar í tvær góðar afmælisveislur um síðustu helgi þar sem við fengum hressilegan skammt af góðum kökum. Það besta var að veislurnar voru hvor á eftir annarri.  Fórum sem sagt fyrst kl. 13 í 5 ára prinsessuafmæli til Völu sem er dóttir eins skólafélaga Helga og svo beint þaðan til Jóns Freys sem var var víst aðeins meira en 5 ára!!! Helgi fékk að velja afmælisgjöfina hans Jóns Freys og auðvitað keypti hann fjarstýrða þyrlu.... en ekki hvað

Annars erum við Helgi bæði í ritgerðarskrifum þessa dagana. Helgi er að skila ritgerð um Heuristic algorithm of truckload bleeeeeeeeeee.... þetta er líklega eitt mest óspennandi ritgerðarefni sem ég hef kynnst og frekar ólíklegt að þetta eigi eftir að nýtast honum í framtíðinni. Í stuttu máli er hann að fjalla um og reikna út leiðarkerfi fyrir flutningabíla ....
Ég er bara að reyna að skrifa gengur hægt ......... en gengur þó!

Fannar Ingi er bara í leikskólanum að leika við íslensku börnin eins og venjulega, kemur svo heim og leikur við íslensku börnin eins og venjulega....
Jóel Kristinn er að undirbúa tvær sýningar. Á fimmtudaginn er sirkus hjá bekknum hans Jóels í SFO-inu og mun hann leika þar listir sínar sem einhvers konar bardagamaður - hann hefur það líklega frá Jóel frænda sínum (móðurbróður).  Á sunnudaginn eftir viku er svo lokasýning í fimleikunum eða springgymnastik.

Við eigum svo von á góðum gestum um páskana. Afi og amma á Selfossi munu mæta á svæðið og dekra við barnabörnin eins og venjulega ........... geri ég ráð fyrir :-)   

Sem sagt bara allt rólegt og gott hér í Viby,
Bestu kveðjur

Mar 9, 2009

Skemmtileg helgi að baki!

Það er víst komið nokkuð langt síðan fréttir af fjölskyldunni voru skrifaðar hér inn en það er kannski líka bara vegna þess að það hefur ekki verið svo mikið að frétta!

Fastelavn gekk vel fyrir sig, Jóel Kristinn fékk flottan sjóræningjabúning og gekk um sem vöðvastæltur sjónræningi og sló köttinn úr tunnunni og Fannar Ingi var í búningi úr Cars myndinni - og var því flottur kappakstursbílstjóri.  Allir borðuðu líka bollur og við fengum meira að segja saltkjöt og baunir á sprengidag - þannig að við fengum allan pakkann þó við séum hér í DK.

Hið daglega líf er í mjög föstum skorðum.  Jóel fer í skólann-SFO-springgymnastik-fótbolta og leikur sér við vini sína glaður með þetta allt.  Fannar Ingi fer í leikskólann og leikur sér sæll og glaður.  Helgi Kristinn mætir í ræktina, skólann og flýgur nýju fjarstýrðu þyrlunni sinni sæll og glaður.  Ég mæti í ræktina og reyni að skrifa lokaritgerðina mína sem fer hægt af stað - en mun vonandi hafast fyrir sumarið!

Við reynum svo að brjóta um hversdagleikann með skemmtilegheitum og vorum einmitt að koma úr frábærri sumarbústaðarferð þar sem við eyddum helginni með Þórunni, Jóa, Heiðrúnu Ósk, Sigurði Ragnari og Hildi Brynju á Vesturströnd Jótlands.  Börnin fengu sko heldur betur að njóta sín.  Við fórum í sund, spiluðum fótbolta, fórum í gönguferðir á ströndina (sem er svo stór að hún minnti næstum á eyðimörk - nema það var sjór ... ) fórum á skemmtilegan róló, spiluðum og umfram allt borðuðum góðan mat aftur og aftur... og aftur og aftur. 

Nú fyrir þá sem ekki muna setur Helgi stundum inn myndir úr símanum sínum hér: http://share.ovi.com/browse/mostrecent/member/hkh.
Það eru reyndar engar alveg nýjar myndir núna en mynd af tunnunni sem sett var upp hér á Fastelavns-festinu hér í götunni og keiluferð fjölskyldunnar og eitthvað svona.

Bestu kveðjur,