Jan 26, 2009

Letilíf

Jæja þá er prófatörninni lokið!!  Loksins, loksins, loksins....

Við sem sagt kláruðum sl. föstudag og tók letin við alveg um leið!  Við vorum svo heppin að nágrannar okkar buðu okkur í mat á föstudagskvöldið þannig að við þurftum hvorki að elda né hafa ofan af fyrir drengjunum þar sem allt var til alls í veislunni - matur og leikfélagar.  Við spiluðum auðvitað frameftir nóttu og entumst ótrúlega lengi miðað við hve þreytt við vorum.  Ég hafði t.d. vaknað kl. 05:10 um morguninn þar sem ég þurfti að leggja af stað kl. 06 um morguninn til Köben í prófið mitt!

Ég verð nú samt að nefna það sérstaklega að ég afrekaði að mæta með strákana á fótboltaæfingu kl. 09 á laugardagsmorgun !!!!  Þetta var auðvitað fótboltaæfingin hans Jóels en það mæta svo fáir strákar á æfingarnar þessar vikurnar að Fannari var boðið að vera með og stóð sig ótrúlega vel og brosti út að eyrum allan tímann!

Eftir að komið var heim af fótboltaæfingunni var ekki meira afrekað þann daginn!  Foreldrarnir voru einfaldlega of latir þannig að dagurinn leið án þess að það næðist að gera neitt af viti, ekki einu sinni að fara út í búð að versla í matinn ;-)  (McDonalds reddaði kvöldmatnum við miklar vinsældir drengjanna!)

Á sunnudaginn skruppum við fjölskyldan í keilu.  Strákarnir höfðu aldrei áður farið í keilu og skemmtum við okkur öll mjög vel.  Það er keilusalur hérna rétt hjá okkur og höfum við oft talað um að fara en aldrei látið verða af því fyrr en nú.  Þess má geta að úrslitin fóru þannig að Helgi burstaði keiluna, Jóel varð í 2. sæti , Fannar Ingi í 3. sæti eftir að hafa verið í 2. sæti lengst af en mamman sjálf rak lestina og átti víst aldrei minnstu von á verðlaunasæti :-(

Nú eru svo bara rólegheit framundan.  Lítið sem Helgi á að mæta í skólann þessa vikuna og ég þarf bara að vinna smá í rannsóknarspurningunni minni og vinnuáætlun fyrir mastersritgerðina. Þannig að stærstu verkefnin verða bara að mæta í ræktina og vera latur ... svona til skiptis 

Svo má minna einu sinni enn á að við erum að kíkja heim þann 6. febrúar... vona bara að það verði fleiri umræðuefni í boði en ástandið í landsmálunum!  Við sitjum hérna á refresh-takkanum á fréttamiðlunum og fylgjumst með............ en ég er bara of löt til að skrifa allt sem mér finnst...

Bestu kveðjur

Jan 16, 2009

Próflestrardagar

Nú snýst heimilislífið bara um próflestur foreldranna.  Ekki það að við séum alltaf að læra - nei nei alls ekki - við bara eigum alltaf að vera að læra eða erum að reyna að vera læra.... og stundum erum við að læra ;-) 

Ég var svo "heppin" að lenda á fyrsta mögulega prófadeginum í stærðfræðiprófinu mínu sem verður ansi erfitt!  Það er alltaf jafn erfitt að fara í þessi munnlegu próf og tala útlensku þar að auki en auðvitað reddast það nú samt (vonandi) það þarf bara að hafa fyrir því. Ég hef nú ekki verið dugleg við að halda einbeitingu eftir verkefnaskilin og er núna að vinna upp það sem ég ætlaði að gera á ca. 10 dögum fyrir próf svona síðustu 3 dagana..... prófið er sem sagt á mánudagsmorgun.  Seinna prófið mitt er á föstudagsmorgun en eftir það byrja ég bara í rólegheitunum að vinna í mastersritgerðinni minni.

Helgi er í rólegheitunum að undirbúa sig fyrir próf sem er næsta föstudag og þá er hann líka búinn í prófum.

Jóel Kristinn missti í fyrsta sinn daga úr skólanum en hann var lasinn heima í gær og í fyrradag. Þar sem við foreldrarnir vorum upptekin við að reyna að læra þurfti hann nú að sætta sig við lágmarksathygli allan daginn, horfa á sjónvarp og svoleiðis.  Til að gera þetta aðeins flóknara þá er tölvan okkar í viðgerð (þar sem allt barnaefnið og leikirnir eru) og Play Station tölvan ónýt ... en einhvern veginn komst fólk af áður en tölvurnar komu......... við erum bara búin að gleyma því hvernig börn léku sér fyrir tíma Play Station þannig að Helgi fór til nágrannanna og fékk leikjatölvuna þeirra lánaða .... hehe.   Jóel Kristinn var svo alsæll í morgun þegar hann fékk leyfi til að fara í skólann enda var afmælisveisla heima hjá einum bekkjarbróður hans.

Það er nú lítið að frétta af Fannar Inga, en engar fréttir eru jú góðar fréttir.  Hann er að minnsta kosti sæll og glaður á leikskólanum og alveg dauðþreyttur á kvöldin.  Í kvöld sofnaði hann t.d. í sófanum yfir Disney stundinni klukkan rúmlega sjö.

Annars er að styttast í Íslandsferðina - bara 3 vikur þangað til við komum og dagskráin alveg að verða þétt skipulögð - hehe! Jóel Kristinn ætlar meira að segja að heimsækja 1.R í Snælandsskóla en þar eru gömlu vinir hans úr leikskólanum. Þá getur hans aðeins fengið að sjá hvernig þetta er í íslenskum skóla á meðan mamma hans hangir á kennarastofunni og spjallar við allt samstarfsfólkið í skólanum.

Jæja best að fara að læra.... eða sofa,
Bestu kveðjur

Jan 8, 2009

Rútína á ný!

Hér gengur lífið sinn vanagang. 

Drengirnir alsælir að vera komnir í skólana sína aftur. Jóel Kristinn verður í því sama og á haustönninni þ.e. springgymnastik og fótboltanum sem er bara fínt. Í skólanum bætist smá við, þar sem að nú kemur dönskukennari inn í bekkinn 1 eða 2 sinnum í viku.  Þetta er kennarinn sem mun taka við bekknum næsta vetur en hér í DK er það oftast þannig að það er sérstakur börnehaveklasselærer og svo tekur dönskukennarinn við umsjóninni í 1. bekk sem er reyndar 2. bekkur á Íslandi.  Fljótlega kemur líka inn stærðfræðikennari sem mun svo halda áfram með bekkinn í stærðfræði næsta skólaár. Jóel fór líka í hefðbundna heimsókn til skólahjúkkunnar í vikunni og staðfesti hún að drengurinn bæði sjái og heyri vel er 120,5 cm og bara í góðu lagi að öllu leyti!

Fannar Ingi harðneitar að halda áfram í Boldspilinu þrátt fyrir að það hafi verið mjög fínt námskeið og við ætlum nú ekki að neyða drenginn til að halda áfram.  Þeir bræður hafa báðir verið að tala um að spila á hljóðfæri og kannski getum við fundið út úr því fyrir næsta vetur, skv. skyndikönnun á netinu eru nú samt engir námsmannaprísar í boði í tónlistarnáminu sem er rándýrt eins og á Íslandi - en þetta kemur bara í ljós. Fannar Ingi mun því láta leikskólann nægja en segist þá ætla í fótboltann þegar hann byrjar aftur fyrir hans aldur í vor.

Helgi fór í próf 3. janúar sl. og gekk bara fínt.  Nú er hann í rólegheitunum að undirbúa sig fyrir næsta próf, ekkert stress ennþá en það á eftir að koma.  

Ég skilaði öllum mínum verkefnum þ.e. 115 bls í 4 eintökum samtals 460 bls. á þriðjudagsmorgun. Nú býð ég bara eftir að fá að vita hvenær ég lendi í prófunum mínum en prófadagarnir eru frá 19. - 30. janúar.  Ég hef verið að nota tímann aðeins síðustu daga til að undirbúa mastersritgerðina mína en ef ég næ öllum prófum á þessari önn þá á ég bara ritgerðina eftir!  Í gærkvöldi áður en ég skrapp í átveislu með nágrannakonum mínum þá skrifaði ég niður þá hugmynd sem ég hef að efni og í dag sendi ég hana til þess kennara sem ég helst vildi fá sem leiðbeinanda og viti menn 5 mínútum seinna svaraði kennarinn mailinu og samþykkti bæði að verða leiðbeinandinn minn og að hugmyndin að efninu væri eitthvað sem vel væri hægt að nota! Þá þarf ég amk ekki að hafa áhyggjur af því!

Í gær héldum við Íslendingarnir í götunni þrettándagleðina okkar, eins og í fyrra söfnuðumst við saman og kveiktum bál, brenndum jólatré og skutum upp afganga af rakettum og börnin fengu stjörnuljós. 

Nú erum við fjölskyldan öll farin að hlakka til að koma til Íslands í vetrarfríinu (6. - 16. febrúar) við verðum nú eins og venjulega að skipuleggja tímann vel til að ná að hitta sem flesta. Jóel Kristinn er búinn að leggja inn pöntun fyrir snjó á Íslandi enda er víst lítið um svoleiðis hér hjá okkur - sáum samt nokkur korn um síðustu helgi og var þeim fagnað gríðarlega í þær klukkustundir sem snjórinn var.

Bestu kveðjur,

Jan 1, 2009

Gleðilegt ár!

Við fjölskyldan óskum ykkur öllum gleðilegs árs og hlökkum auðvitað til að hitta ykkur öll á nýju ári.

Við höfum haft það rólegt og gott yfir jólin.  Helgi hefur verið að læra fyrir próf og við strákarnir höfum bara verið að leika og slappa af.  Við fórum á jólaball hjá Íslendingafélaginu þar sem synir tónmenntakennarans fengu loksins að heyra og syngja íslensku jólalögin (tónlistaruppeldið eitthvað slappt á heimilinu um þessar mundir).  Þá skruppum við og kíktum á lífvarðaskipti hjá drottningunni sem var hér í Árósum yfir jólin.  Annars erum við bara búin að vera heima! 

Ég var nú eitthvað að læra og á morgun er það lokahnikkurinn - allt á að klárast um helgina.

Áramótin voru mjög skemmtileg hjá okkur.  Við borðuðum með Þórunni, Jóa og börnunum þeirra og það er sko aldrei leiðinlegt hjá okkur!!! Við vorum með kalkún í matinn - þvílíkt vel heppnað. Borðuðum auðvitað yfir okkur, vorum með ótrúlega góða forrétti og tvo desserta líka og magnið af matnum hefði dugað fyrir a.m.k. eina til tvær fjölskyldur í viðbót!  Við skutum auðvitað upp flugeldum um miðnætti og svo var bara tjúttað fram eftir öllu......... kannski aðeins of lengi miðað við að Helgi er að fara í próf á laugardagsmorgun!!

Nú er bara að koma sér í rútínuna aftur - drengirnir fara aftur í skóla á mánudaginn og þá verður að vera búið að koma svefntímanum í réttan farveg aftur.

Sem sagt allt gott héðan á nýju ári!