Við sem sagt kláruðum sl. föstudag og tók letin við alveg um leið! Við vorum svo heppin að nágrannar okkar buðu okkur í mat á föstudagskvöldið þannig að við þurftum hvorki að elda né hafa ofan af fyrir drengjunum þar sem allt var til alls í veislunni - matur og leikfélagar. Við spiluðum auðvitað frameftir nóttu og entumst ótrúlega lengi miðað við hve þreytt við vorum. Ég hafði t.d. vaknað kl. 05:10 um morguninn þar sem ég þurfti að leggja af stað kl. 06 um morguninn til Köben í prófið mitt!
Ég verð nú samt að nefna það sérstaklega að ég afrekaði að mæta með strákana á fótboltaæfingu kl. 09 á laugardagsmorgun !!!! Þetta var auðvitað fótboltaæfingin hans Jóels en það mæta svo fáir strákar á æfingarnar þessar vikurnar að Fannari var boðið að vera með og stóð sig ótrúlega vel og brosti út að eyrum allan tímann!
Eftir að komið var heim af fótboltaæfingunni var ekki meira afrekað þann daginn! Foreldrarnir voru einfaldlega of latir þannig að dagurinn leið án þess að það næðist að gera neitt af viti, ekki einu sinni að fara út í búð að versla í matinn ;-) (McDonalds reddaði kvöldmatnum við miklar vinsældir drengjanna!)
Á sunnudaginn skruppum við fjölskyldan í keilu. Strákarnir höfðu aldrei áður farið í keilu og skemmtum við okkur öll mjög vel. Það er keilusalur hérna rétt hjá okkur og höfum við oft talað um að fara en aldrei látið verða af því fyrr en nú. Þess má geta að úrslitin fóru þannig að Helgi burstaði keiluna, Jóel varð í 2. sæti , Fannar Ingi í 3. sæti eftir að hafa verið í 2. sæti lengst af en mamman sjálf rak lestina og átti víst aldrei minnstu von á verðlaunasæti :-(
Nú eru svo bara rólegheit framundan. Lítið sem Helgi á að mæta í skólann þessa vikuna og ég þarf bara að vinna smá í rannsóknarspurningunni minni og vinnuáætlun fyrir mastersritgerðina. Þannig að stærstu verkefnin verða bara að mæta í ræktina og vera latur ... svona til skiptis
Svo má minna einu sinni enn á að við erum að kíkja heim þann 6. febrúar... vona bara að það verði fleiri umræðuefni í boði en ástandið í landsmálunum! Við sitjum hérna á refresh-takkanum á fréttamiðlunum og fylgjumst með............ en ég er bara of löt til að skrifa allt sem mér finnst...
Bestu kveðjur
No comments:
Post a Comment