Jan 8, 2009

Rútína á ný!

Hér gengur lífið sinn vanagang. 

Drengirnir alsælir að vera komnir í skólana sína aftur. Jóel Kristinn verður í því sama og á haustönninni þ.e. springgymnastik og fótboltanum sem er bara fínt. Í skólanum bætist smá við, þar sem að nú kemur dönskukennari inn í bekkinn 1 eða 2 sinnum í viku.  Þetta er kennarinn sem mun taka við bekknum næsta vetur en hér í DK er það oftast þannig að það er sérstakur börnehaveklasselærer og svo tekur dönskukennarinn við umsjóninni í 1. bekk sem er reyndar 2. bekkur á Íslandi.  Fljótlega kemur líka inn stærðfræðikennari sem mun svo halda áfram með bekkinn í stærðfræði næsta skólaár. Jóel fór líka í hefðbundna heimsókn til skólahjúkkunnar í vikunni og staðfesti hún að drengurinn bæði sjái og heyri vel er 120,5 cm og bara í góðu lagi að öllu leyti!

Fannar Ingi harðneitar að halda áfram í Boldspilinu þrátt fyrir að það hafi verið mjög fínt námskeið og við ætlum nú ekki að neyða drenginn til að halda áfram.  Þeir bræður hafa báðir verið að tala um að spila á hljóðfæri og kannski getum við fundið út úr því fyrir næsta vetur, skv. skyndikönnun á netinu eru nú samt engir námsmannaprísar í boði í tónlistarnáminu sem er rándýrt eins og á Íslandi - en þetta kemur bara í ljós. Fannar Ingi mun því láta leikskólann nægja en segist þá ætla í fótboltann þegar hann byrjar aftur fyrir hans aldur í vor.

Helgi fór í próf 3. janúar sl. og gekk bara fínt.  Nú er hann í rólegheitunum að undirbúa sig fyrir næsta próf, ekkert stress ennþá en það á eftir að koma.  

Ég skilaði öllum mínum verkefnum þ.e. 115 bls í 4 eintökum samtals 460 bls. á þriðjudagsmorgun. Nú býð ég bara eftir að fá að vita hvenær ég lendi í prófunum mínum en prófadagarnir eru frá 19. - 30. janúar.  Ég hef verið að nota tímann aðeins síðustu daga til að undirbúa mastersritgerðina mína en ef ég næ öllum prófum á þessari önn þá á ég bara ritgerðina eftir!  Í gærkvöldi áður en ég skrapp í átveislu með nágrannakonum mínum þá skrifaði ég niður þá hugmynd sem ég hef að efni og í dag sendi ég hana til þess kennara sem ég helst vildi fá sem leiðbeinanda og viti menn 5 mínútum seinna svaraði kennarinn mailinu og samþykkti bæði að verða leiðbeinandinn minn og að hugmyndin að efninu væri eitthvað sem vel væri hægt að nota! Þá þarf ég amk ekki að hafa áhyggjur af því!

Í gær héldum við Íslendingarnir í götunni þrettándagleðina okkar, eins og í fyrra söfnuðumst við saman og kveiktum bál, brenndum jólatré og skutum upp afganga af rakettum og börnin fengu stjörnuljós. 

Nú erum við fjölskyldan öll farin að hlakka til að koma til Íslands í vetrarfríinu (6. - 16. febrúar) við verðum nú eins og venjulega að skipuleggja tímann vel til að ná að hitta sem flesta. Jóel Kristinn er búinn að leggja inn pöntun fyrir snjó á Íslandi enda er víst lítið um svoleiðis hér hjá okkur - sáum samt nokkur korn um síðustu helgi og var þeim fagnað gríðarlega í þær klukkustundir sem snjórinn var.

Bestu kveðjur,

2 comments:

Anonymous said...

Gott að heyra góðar fréttir!! Við gamla settið í Lambhaganum hlökkum líka ótrúlega mikið til að sjá ykkur. Við erum að panta snjó á Selfoss fyrir drengina - vonandi kemur hann á réttum tíma!
Knús og kveðjur
amma og afi á Selfossi

Anonymous said...

Mikið standið þið ykkur öll vel! Til hamingju með verkefnaskilin og gangi ykkur hjónum vel í prófum.
Við Ingvi pöntum einn dag/kvöld meðan þið eruð á landinu. Ég hóa þá í hinar í leiðinni.
Ef það er snjór, þá eru frábærar brekkur hér handan við hæðina, á gólfvellinum, og fullt til að af alls kyns snjóþotum í skúrnum (við hliðina á frystikistunni góðu). Þá gætum við hist í hádegi um helgi og farið svo á þotu.
Kær kveðja, Sonja