Mar 9, 2009

Skemmtileg helgi að baki!

Það er víst komið nokkuð langt síðan fréttir af fjölskyldunni voru skrifaðar hér inn en það er kannski líka bara vegna þess að það hefur ekki verið svo mikið að frétta!

Fastelavn gekk vel fyrir sig, Jóel Kristinn fékk flottan sjóræningjabúning og gekk um sem vöðvastæltur sjónræningi og sló köttinn úr tunnunni og Fannar Ingi var í búningi úr Cars myndinni - og var því flottur kappakstursbílstjóri.  Allir borðuðu líka bollur og við fengum meira að segja saltkjöt og baunir á sprengidag - þannig að við fengum allan pakkann þó við séum hér í DK.

Hið daglega líf er í mjög föstum skorðum.  Jóel fer í skólann-SFO-springgymnastik-fótbolta og leikur sér við vini sína glaður með þetta allt.  Fannar Ingi fer í leikskólann og leikur sér sæll og glaður.  Helgi Kristinn mætir í ræktina, skólann og flýgur nýju fjarstýrðu þyrlunni sinni sæll og glaður.  Ég mæti í ræktina og reyni að skrifa lokaritgerðina mína sem fer hægt af stað - en mun vonandi hafast fyrir sumarið!

Við reynum svo að brjóta um hversdagleikann með skemmtilegheitum og vorum einmitt að koma úr frábærri sumarbústaðarferð þar sem við eyddum helginni með Þórunni, Jóa, Heiðrúnu Ósk, Sigurði Ragnari og Hildi Brynju á Vesturströnd Jótlands.  Börnin fengu sko heldur betur að njóta sín.  Við fórum í sund, spiluðum fótbolta, fórum í gönguferðir á ströndina (sem er svo stór að hún minnti næstum á eyðimörk - nema það var sjór ... ) fórum á skemmtilegan róló, spiluðum og umfram allt borðuðum góðan mat aftur og aftur... og aftur og aftur. 

Nú fyrir þá sem ekki muna setur Helgi stundum inn myndir úr símanum sínum hér: http://share.ovi.com/browse/mostrecent/member/hkh.
Það eru reyndar engar alveg nýjar myndir núna en mynd af tunnunni sem sett var upp hér á Fastelavns-festinu hér í götunni og keiluferð fjölskyldunnar og eitthvað svona.

Bestu kveðjur,

No comments: