Aug 16, 2009

Útivinnandi

Jæja þá er maður orðinn útivinnandi hér í Danmörku! Vinnan fer vel af stað, samstarfsfólkið í VIA University College, Læreruddannelsen í Århus eru greinilega snillingar í að taka vel á móti nýju samstarfsfólki og nú er bara að krossa fingur og vona að nemendurnir geri slíkt hið sama.... úff. Það verður eflaust dálítið skrítið í byrjun að mæta í kennslustofuna og í stað þess að hafa þar ca. 20 - 25 grunnskólabörn þá munu mæta manni í hverjum bekk ca. 30 fullorðnir einstaklingar ... sem tala dönsku!!!! En nú er bara að nota tímann vel þangað til stúdentarnir mæta og undirbúa kennsluna sem allra best! Næstu viku hef ég til undirbúnings og alls konar fundarhalda þannig að það er ennþá smá tími til stefnu.

Það er reyndar ekki það eina sem framundan er í vikunni. Benta "litla" systir er mætt í heimsókn hún verður hér þangað til á þriðjudag en þá fer hún til Horsens og Pabbi og Kristín mæta til okkar eftir nokkra daga í Stokkhólmi. Nóg að gera í gestamóttöku sem er sko bara gaman - sérstaklega eru Fannar Ingi og Jóel Kristinn alltaf jafn ánægðir með svona heimsóknir :-)

Skólinn er nú kominn á fullt hjá Jóel Kristni sem er nú að vinna í námsbókum og á loksins að lesa heima, svona til að æfa sig svolítið. Hann fær lestrarbækur í skólanum með þeim fyrirmælum að lesa 15 - 20 mínútur á dag en það er bara einn galli þarna á, það tekur hann ekki nema ca. 3 - 5 mínútur að lesa bókina. En þetta er nú kannski ekki alvarlegt vandamál, það er víst til nóg af öðrum bókum til að lesa í!!! Jóel fór á fyrstu Taekwondo æfinguna sína í síðustu viku og er voða spenntur. Hann mun því bæði verða í Taekwondo og fótboltanum í vetur.

Fannar Ingi er bara alsæll með sitt eins og venjulega. Hann sýnir mikinn áhuga á stöfunum og tölunum þessa dagana. Telur alla hluti og spyr um stafina alveg stanslaust sem er bara gaman. Ekki ólíklegt að skólaganga stóra bróður hafi þarna einhver áhrif!

Helgi er svo bara á fullu í sumarnáminu sínu. Hann er búinn að skila einu stóru verkefni og nú er bara eftir ein kennsluvika og svo próf viku síðar.

Annars bara bestu kveðjur,

No comments: