Dec 30, 2007

Komin heim

Jæja þá erum við komin heim eftir viku ferð heim til Íslands! Já, nú er bara allt heim!

Þó að það hafi verið mikið span á okkur þessa viku á Íslandi var það algjörlega þess virði. Ferðin hófst reyndar með mikilli seinkun á fluginu frá Billund til Keflavíkur. Við áttum að fara í loftið kl. 20:20 en það tafðist til um kl. 02 og lentum við í Keflavík rétt rúmlega 04 að íslenskum tíma. Ekki alveg það besta fyrir allar íslensku barnafjölskyldurnar sem voru á leið heim í jólafrí! En þetta gekk ótrúlega vel og vorum við komin í rúmið á Öldugötunni um 05:20. Afi Jóel á Seltjarnarnesinu fékk hlutverk bílstjórans og þurfti að keyra um miðja nótt til Keflavíkur að sækja fjölskylduna - takk fyrir það!

Við ætluðum auðvitað að vera á röltinu í bænum á Þorláksmessu en þar sem heilsan og röddin hjá húsmóðurinni urðu eftir á Billund flugvelli auk þess sem allir voru þreyttir þá varð lítið úr því. Við kíktum því bara rétt á ömmu Lóu sem tókst að lærbrjóta sig fyrir jólin. Amma Lóa á örugglega skilið að fá medalíu fyrir jákvætt hugarfar og góðar framfarir miðað við "aldur og fyrri störf" - hún er sko kjarnakvendi! Við kíktum líka heim til Kristínar Hrefnu og Borgars en það var mjög mikilvægt að sjá búskapinn hjá þeim! Regína og Svenni, Daði og Þóra Sif komu svo með Anítu á Öldugötuna og það urðu sko heldur betur fagnaðarfundir hjá krökkunum - sko bæði stórum og litlum! Við tókum myndir af litlu grísunum þremur og það er bara fyndið að sjá Anítu "stóru" á milli þeirra bræðra.

Á aðfangadag var brunað austur á Selfoss með viðkomu á nokkrum pakkastöðum. Jóel Kristinn og Fannar Ingi slógu algerlega í gegn með því að vera svooooooo góðir allan daginn og allt kvöldið að það hálfa væri nóg! Þeir dunduðu bara og léku sér allan daginn, ekki eitt suð um pakkana sem voru undir jólatrénum það var ekki fyrr en Kristín Hrefna frænka gat ekki beðið lengur að við réðumst á pakkana. Það var alveg sama hvað var í pökkunum þeir bræður voru yfir sig glaðir með allt saman!

Á jóladag og annan í jólum vorum við aftur í bænum að keppast við að knúsa fjölskylduna. Hitta systkinin og ömmurnar og afana. Eftir jólaboð á annan í jólum var aftur haldið austur og spiluðum við Party og Co Extreme með ömmu og afa á Selfossi, Kristínu Hrefnu og Borgari fram á nótt! Það var dálítið skrautleg fjölskyldusamkoma svona á köflum - hehehe!

Á fimmtudaginn ætluðum við hjónin að læra - en það var ekkert úr því!!!!!!!!!!!!!!!!
Lærdómurinn bíður því - og á að fara fram einmitt núna - en þá mundi ég að ég átti eftir að blogga smá - þannig að líklega fer ég bara að læra á eftir!!!!!!!!!!!! Helgi Kristinn er vonandi duglegri hann a.m.k. er kominn út í bæ að læra. Ég er eiginlega líka að bíða eftir því að bræðurnir verði nógu þreyttir til að fara að sofa - þeir eru búnir að snúa sólarhringnum alveg við og eru uppi í herbergi með nýja geislaspilarann sinn að dansa með Matthias og hinum krökkunum úr dönsku barnasöngkeppninni. Jólasveinninn gaf sko Jóel diskinn í skóinn.

Á föstudeginum var svo brunað í bæinn í keppni um að hitta sem flesta á sem stystum tíma. Við fórum hús úr húsi og kysstum og knúsuðum skemmtilegt fólk. Um kvöldið borðuðum við með Kristjáni og Silju og brunuðum svo í afmæli til Regínu. Við vorum ekkert smá glöð með að afmælisveislan væri haldin á meðan við vorum heima!

Á laugardeginum var svo flogið heim! Nú tókst þeim að hafa flugið á réttum tíma og gekk allt mjög vel. Nú erum við bara komið heim í Beykiskóginn, búin að gera áramótainnkaupin - nema sækja nautalundina til slátrarans á morgun. Skólabækurnar og tölvurnar tilbúnar fyrir átökin framundan!

Takk ömmur og afar fyrir þjónustuna um jólin,
Takk frænkur, frændur og vinir fyrir samveruna og skemmtunina,

Með áframhaldandi jólakveðju,
(ég er farin að læra...............)

Dec 19, 2007

Það eru að koma jól

Dagatalið segir að það séu alveg að koma jól!
Hér innandyra eru jú jólseríur og smá skraut en pappírshrúgan og bókastaflinn sem umlykur fartölvuna á borðstofuborðinu dregur all verulega úr jólaskapinu.

Helgi Kristinn er kominn í "jólafrí" og er upp í skóla að lesa undir próf - ekki ýtir það nú sérstaklega undir jólastemninguna. En þegar fyrsta prófið er 3. janúar er ekkert annað í boði. Það er annaðhvort að reyna að læra núna eða hafa bækurnar í fanginu á sjálfum jólunum!

Ég sit hérna í pappírsflóðinu (eins og alla hina dagana) Komin á bls. 32 í ritgerðinni sem þýðir að kannski er hugsanlegt að mögulega verði ég ef til vill bráðum búin! EN þá á ég eftir aðra litla ritgerð sem ég er ekki byrjuð á, en búin að afla heimilda, lesa mér til og ákveða uppbygginguna - þannig að henni verður nú rumpað af, kannski á morgun! Ég skrapp til Köben í síðasta tímann fyrir jól í gær þar sem við vorum að yfirfara verkefni sem ég skilaði síðasta laugardag. Á meðan við unnum í hópum skrapp kennarinn í burtu og bakaði "æbleskiver" og kom með handa okkur, veitti ekki af til að peppa upp liðið. Í stóra verkefninu eru nefnilega fimm hópar, ein er búin að segja sig úr verkefninu, einn hópur var of seinn að segja sig úr verkefninu en nær ekki að klára og verður að skila auðu en enginn af hinum þremur hópunum (ég meðtalin) er búin með verkefnið og það eru að koma jól!

Strákarnir hafa það gott nú á aðventunni. Á laugardaginn fórum við öll fjölskyldan á leikskólann þar sem strákarnir föndruðu kertaskreytingar, Jóel Kristinn labbaði eins og engill með kertaljós undir Lúsíusöngnum, borið var fram jólaglögg, piparkökur og æbleskiver auk þess sem gengið var í kringum jólatréð og sungnir danskir jólasöngvar.
Eftir jólaskemmtunina fórum við í bakarí og Jóel vildi fá að kaupa sjálfur: "Jeg skal har to klejner" og "og så skal vi har en julestjerne" (julstjerne er vínarbrauð í stjörnuformi). Drengurinn var gríðarlega stoltur af eigin frammistöðu og vildi sérstaklega að ég myndi segja öllum ömmum og öfum frá þessu! Við þetta má bæta að drengurinn er farinn að leiðrétta framburð foreldra sinna af miklum móð - og veitir kannski ekki af!

Nú er vaknað fyrir allar aldir á morgnana til að fá að kíkja í skóinn, stundum klukkan 06:00, jafnvel fyrr en hér gilda reglur - nóttin er ekki búin fyrr en klukkan 07:00!!! Í morgun spurði Jóel u.þ.b. 20 sinnum hvort að klukkan væri ekki orðinn 07 þannig að svefnfriðurinn fyrir þreytta foreldra var ekki mikill.

Ég minni ykkur á að við komum heim á laugardagskvöldið og verðum í miðbænum á Þorláksmessu. Helgi er með íslenskt símanúmer 697 5700 en ég er ekki með neitt íslenskt númer í bili.

Bestu kveðjur

Dec 13, 2007

Danskir og íslenskir jólasiðir á aðventunni

Jóel Kristinn og Fannar Ingi eru farnir að njóta hinna 13 íslensku jólasveina, sem mæta nú galvaskir hingað í götuna á hverri nóttu enda svo mörg íslensk börn sem fá í skóinn. Dönsku börnin fá "kalendergaver" allan desember en íslenskt - já takk gildir að þessu leyti hér í götunni. Reyndar er ansi gaman að fylgjast með Jóel Kristni í þessu ferli nú um jólin. Hann á erfitt með að átta sig á því hvernig þetta með jólasveininn getur virkað og spyr margra mjög svo skynsamlegra spurninga en fær óskynsamleg svör til baka. Í gærkvöldi svaraði ég flestum spurningunum hans bara með því að ég skyldi bara ekkert í þessu heldur, þetta væri bara eitthvað eins og töfrar!

Í gær fóru þeir bræður með leikskólanum sínum í strætó á bóndabæ og keyptu jólatré og næsta laugardag er einhver jólasamkoma fyrir foreldra og börn á leikskólanum.
Svona "by the way" þá eru strákarnir mjög glaðir á leikskólanum núna og finnst voða gaman! Í gær ætlaði ég ekki að ná Jóel heim, hann var "upptekinn" við að teikna flugvél með mörgum hreyflum svo hún kæmist rosalega hratt!
Útiveran á leikskólanum er líka alltaf jafn stór partur starfinu þar og með ólíkindum hvað útigallar bræðranna verða endalaust mikið skítugir - það þyrfi nánast að ráða manneskju í fullt starf til að sjá um þrif af þeim bræðrum!

Stærðfræðikennaraneminn, ég, leit aðeins upp úr ritgerðavinnunni á þriðjudag og fór í tíma til Köben ásamt því að mæta í "julefrokost" með fólkinu úr bekknum. Við mættum 6 af 8 nemendum heim til einnar sem býr út á Amager. Flestir hafa heyrt sögur af dönskum julefrokost og ég var ansi spennt að fá að taka þátt í einhverju svona ekta dönsku.
Drykkina áttum við að koma með sjálf en þar sem ég vissi ekki hvað hinir myndu gera keypti ég bæði litla rauðvín og 3 bjóra og hafði í töskunni. Ég fór nú reyndar með alla bjórana heim því það kom í ljós að allir hinir fengu sér bara 1 bjór með matnum og svo bara vatnssopa.
Maturinn var keyptur úr tilbúna kjötborðinu í súpermarkaðnum. Grunnurinn var rúgbrauð, hvítt brauð, remolaðitúpa, majonestúpa, örfáar gúrkusneiðar og cherrytómatar. Upphitað úr kjötborðinu kom svo "þurrt" fiskifillet í raspi (borðað á rúgbrauði með smá remolaðiklessu), "þurr" upphituð purusteik (borðuð á brauði með rauðkáli + majonesi), frikadeller (líka borðaðar á brauði með majonesi og jafnvel rauðkáli), heit leverpostej (skellt á rúgbrauð). Í dessert var svo að sjálfsögðu "ris a la mand" sem bar af, af réttum kvöldsins. Á eftir var farið í pakkaleik og var ég svo heppin að fá tvo jólablýanta - og svo ótrúlega skemmtilega vildi til að þeir eru alveg eins og jólablýantarnir sem jólasveinninn gaf sonum mínum í skóinn í morgun!
Ég setti jólageisladisk með Kór Snælandsskóla í pakkann frá mér og það var einmitt Ole, eini karlmaðurinn í hópnum og mikill áhugamaður um tónlist sem fékk diskinn. Ég gerði það nú meira til gamans að setja diskinn í pakkann en skólafélagar mínir tóku þessu mjög alvarlega og fóru strax að spila diskinn og ræða sönginn. Eftir fyrstu fimm tónana komust þau að þeirri niðurstöðu að svona söngur heyrðist ekki í dönskum skólakórum - Heyr Heyr Heiðrún! (ég get eftir nokkrarferðir á samnorræn barnakóramót - að það er rétt hjá þeim, dönsku stuttermabolakórarnir með shalalala lögin hafa annað sound en Kór Snælandsskóla 2001).

Í kvöld fer svo viðskiptafræðineminn á sinn julefrokost, ég veðja á að það verði fáir þar sem láti sér nægja 1 bjór með matnum!!!!!

Annars bara bestu kveðjur til ykkar allra héðan úr ritgerðavinnunni í Danaveldi,

Dec 8, 2007

Lærdómsfréttir

Húsmóðirin er bara að skrifa ritgerðir, það kemst nákvæmlega ekkert annað að en að læra. Afraksturinn er því miður ekki alveg nógu mikill, það þarf að reddast sem allra fyrst - annars má búast við að jólin fari öll í ritgerðaskrif, sem er ekki spennandi. En reddast svona lagað ekki alltaf á endanum?

Húsbóndinn er líka alltaf að læra, hópverkefni og svo náttúrulega allt þetta sem er til prófs í byrjun janúar - En reddast svona lagað ekki alltaf á endanum?

Fannar Ingi er að læra að vera 3 ára. Það gengur vel og er hann farinn að sýna alls konar töffaratakta sem ekki sáust hjá honum þegar hann var bara tveggja ára.

Jóel Kristinn er mest í því að læra dönsku, fer fram með hverjum deginum. Við foreldrar hans fengum bréf í vikunni frá Vestergaardskólanum. Til foreldra tilvonandi börnehaveklasse! Það er foreldrafundur í skólanum þann 13. desember. Skemmtileg tímasetning hjá Dönunum fyrir kynningarfund - þetta er akkurat það sem er foreldrum efst í huga svona rétt fyrir jól!
Jóel Kristinn er yfirleitt mjög sjálfbjarga og sér auðvitað alveg um að klæða sig sjálfur og svoleiðis en í kvöld var mamma hans að dekstra hann eitthvað þegar hann var að fara að sofa og klæddi hann í náttfötinn. Þá sagði Jóel: "ég verð að fara að læra að klæða mig sjálfur, annars þarf konan sem ég giftist að klæða mig þegar ég er orðinn fullorðinn!"

Saman eru þeir bræður að læra að vera töffarar. Þeir fóru í klippingu á íslensku hárgreiðslustofuna niðri í bæ í gær. Hárgreiðslukonurnar settu gel í hárið á þeim og settu toppinn svona upp í loft - eins og á alvöru töffurum. Þeir voru ekkert lítið glaðir með þetta, það mátti ekki setja á þá húfurnar og stanslaust var verið að tékka á því hvort hárið væri í lagi. Í dag fóru þeir svo í tvöfalt afmæli hjá íslenskum systkinum hér í götunni. Auðvitað með gel í hárinu - og toppinn upp í loft!

Sem sagt bara allt gott að frétt af okkur, orðið nokkuð jólalegt hjá okkur þó það sé því miður kannski ekki nógur tími til að njóta aðventunnar. En átti einhver svo sem von á því að desember væri rólegur mánuður hjá námsmönnum????

Bestu kveðjur,

Dec 2, 2007

Julemanden er kominn til Århus!

Jahá! Það er aldeilis fréttir héðan frá Árósum. Julemanden er kominn! Hann kom á föstudaginn með skipti og fór svo með julenissunum sínum, lúðrasveitum, brunabíl o.fl. í skrúðgöngu um miðbæinn. Við íslensku fjölskyldurnar hér í Beykiskóginum flykktumst að sjálfsögðu niður í bæ og fylgdumst með herlegheitunum. Þetta var voða gaman allt saman. Rétt áður en skrúðgangan kom var líka kveikt á jólaljósunum í göngugötunni og það er alveg yfir meðallagi mikið af ljósum!
Á föstudagskvöldið var opið í búðunum til kl. 24:00. Stemningin minnti einna helst á Þorláksmessu á laugarveginum. Við nýttum tímann og skelltum okkur í nokkrar búðir og erum hér með nánast búin að kaupa allar jólagjafirnar!!!!! Húrra fyrir okkur - sem höfum nánast alltaf átt a.m.k. 15 gjafir eftir á Þorláksmessu og sjaldnast klárað gjafakaupin fyrr en á aðfangadagsmorgun!

Laugardagskvöldið var líka ótrúlega skemmtilegt hjá okkur í fjölskyldunni. Við skelltum okkur yfir til nágrannanna og spiluðum m.a. Buzz sem er ótrúlega skemmtilegt Play Station spurningaspil! Vorum reyndar dálítið lengi frameftir svona miðað við að eiga tvo gorma sem ekki kunna að sofa út - en þeir settu nú samt persónulegt með drengirnir og sváfu næstu því til kl.9:00 sem er þeirra lang besta frammistaða í því að sofa út!

Í dag sunnudag héldum við áfram að skemmta okkur fjölskyldan. Við skelltum okkur í Storcenter Nord sem er verlsunarmiðstöð hér í Árósum en þar voru tónleikar með dönskum krökkum sem tóku þátt í Melodi Grand Prix 2007 sem er svona skandinavísk Eurovision keppni fyrir krakka. Við Jóel Kristinn horfðum einmitt á úrslitin í beinni útsendingu frá Svíþjóð um síðustu helgi og varð Jóel Kristinn alveg dolfallinn af hinum danska Matthias sem er 14 ára sætur strákur sem rappar, syngur og dansar - og gerir það alveg ótrúlega vel! Jóel Kristinn hefur síðan þá verið að æfa dansspor og "rapp" og tók m.a. þvílík spor í eldhúsinu eftir kvöldmatinn. Allavegana var gaman að geta leyft Jóel að sjá idolið sitt "live" - þetta er jú í fyrsta sinn sem hann eignast eitthvað svona idol!

Tókum okkur einnig til í dag og skelltum upp eitthvað af jólaljósum og skrauti.

Nú er bara spennandi að sjá hvort að eitthvað gangi með lærdóminn í vikunni - ef ekki þá erum við í vondum málum!

Bestu kveðjur til ykkar allra,
P.s. það eru bara 20 dagar þangað til við komum í stutt jólastopp heim