Dagatalið segir að það séu alveg að koma jól!
Hér innandyra eru jú jólseríur og smá skraut en pappírshrúgan og bókastaflinn sem umlykur fartölvuna á borðstofuborðinu dregur all verulega úr jólaskapinu.
Helgi Kristinn er kominn í "jólafrí" og er upp í skóla að lesa undir próf - ekki ýtir það nú sérstaklega undir jólastemninguna. En þegar fyrsta prófið er 3. janúar er ekkert annað í boði. Það er annaðhvort að reyna að læra núna eða hafa bækurnar í fanginu á sjálfum jólunum!
Ég sit hérna í pappírsflóðinu (eins og alla hina dagana) Komin á bls. 32 í ritgerðinni sem þýðir að kannski er hugsanlegt að mögulega verði ég ef til vill bráðum búin! EN þá á ég eftir aðra litla ritgerð sem ég er ekki byrjuð á, en búin að afla heimilda, lesa mér til og ákveða uppbygginguna - þannig að henni verður nú rumpað af, kannski á morgun! Ég skrapp til Köben í síðasta tímann fyrir jól í gær þar sem við vorum að yfirfara verkefni sem ég skilaði síðasta laugardag. Á meðan við unnum í hópum skrapp kennarinn í burtu og bakaði "æbleskiver" og kom með handa okkur, veitti ekki af til að peppa upp liðið. Í stóra verkefninu eru nefnilega fimm hópar, ein er búin að segja sig úr verkefninu, einn hópur var of seinn að segja sig úr verkefninu en nær ekki að klára og verður að skila auðu en enginn af hinum þremur hópunum (ég meðtalin) er búin með verkefnið og það eru að koma jól!
Strákarnir hafa það gott nú á aðventunni. Á laugardaginn fórum við öll fjölskyldan á leikskólann þar sem strákarnir föndruðu kertaskreytingar, Jóel Kristinn labbaði eins og engill með kertaljós undir Lúsíusöngnum, borið var fram jólaglögg, piparkökur og æbleskiver auk þess sem gengið var í kringum jólatréð og sungnir danskir jólasöngvar.
Eftir jólaskemmtunina fórum við í bakarí og Jóel vildi fá að kaupa sjálfur: "Jeg skal har to klejner" og "og så skal vi har en julestjerne" (julstjerne er vínarbrauð í stjörnuformi). Drengurinn var gríðarlega stoltur af eigin frammistöðu og vildi sérstaklega að ég myndi segja öllum ömmum og öfum frá þessu! Við þetta má bæta að drengurinn er farinn að leiðrétta framburð foreldra sinna af miklum móð - og veitir kannski ekki af!
Nú er vaknað fyrir allar aldir á morgnana til að fá að kíkja í skóinn, stundum klukkan 06:00, jafnvel fyrr en hér gilda reglur - nóttin er ekki búin fyrr en klukkan 07:00!!! Í morgun spurði Jóel u.þ.b. 20 sinnum hvort að klukkan væri ekki orðinn 07 þannig að svefnfriðurinn fyrir þreytta foreldra var ekki mikill.
Ég minni ykkur á að við komum heim á laugardagskvöldið og verðum í miðbænum á Þorláksmessu. Helgi er með íslenskt símanúmer 697 5700 en ég er ekki með neitt íslenskt númer í bili.
Bestu kveðjur
Dec 19, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Gleðilegt nýtt ár öll. Við vonum svo sannarlega að ykkur gangi sem best með lærdóminn.
Við þökkum fyrir frábærar samverustundir sem við nutum þó stoppið væri frekar stutt þetta er jú spurning um gæði fremur en magn.
Bestu kveðjur
amma og afi á Selfossi
Post a Comment