Apr 26, 2008

Töffaradrengir

Jóel Kristinn rétt fyrir páska
Fannar Ingi á fimmtudag

Þeir bræður eru opinberlega yfirlýstir töffarar - hér með!!


Það var reyndar fyrir páska sem Jóel Kristinn fór með pabba sínum í klippingu og kom heim með þvílíka töffaragreiðslu. Fannar Ingi var veikur heim og fékk því ekki að fara með en nú er búið að bæta úr því og fóru Fannar og Helgi í feðgaferð í klippingu á fimmtudaginn. Hér að ofan má sem sagt sjá útkomuna. Þess má geta að við förum alltaf á íslenska hárgreiðslustofu - auðvitað - allt svo íslenskt hjá okkur hér í DK!!! hhmmmmmmmmmmm
Annars er bara allt á fullu í lærdómi og útiveru í góðu veðri. Strákarnir þrír voru einir heima tvo daga (eina nótt) í vikunni þegar húsmóðirin skellti sér í verkefnavinnu í Köben. Þeir létu sér ekki leiðast og héldu grillpartý bæði kvöldin! Nú er bara verið að reyna að vinna og vinna, það verður að viðurkennast það þetta er ansi tæpt hjá mér með að ná að ljúka öllum verkefnunum. Ég á eftir að skrifa u.þ.b. 106 bls. af skilaverkefnum á 30 dögum (skil 27. maí) fyrir utan vikulegan lestur og dæmi fyrir fyrirlestrana sem hefur yfirleitt verið nóg fyrir vinnuvikuna! Var t.d. til kl. 00:00 í gærkvöldi og ætla nú snarlega að hætta þessu blog-veseni til að halda áfram!!!
Verð samt að minna ykkur á þá merkilegu staðreynd að það eru bara 12 dagar þangað til Jóel Kristinn verður 6 ára!!!!!!!!!! Getur það verið - hann sem fæddist eiginlega bara í fyrradag! En áður en að því kemur fáum við ömmu Guðlaugu í heimsókn. Það er eins gott að drífa sig í að læra svo maður nái a.m.k. að segja hæ og kannski aðeins að njóta þess að fá hana í heimsókn - þrátt fyrir annatíma.
Bestu kveðjur úr Beykiskóginum sem er að verða sumar-grænn!

Apr 20, 2008

Gaman hjá okkur!

Þá er helgin eiginlega liðin! Að þessu sinni var löng helgi þar sem að á föstudaginn var store bededag og þá eru auðvitað allir í fríi.

Við héldum upp á daginn með því að fara í Cirkus!! Þetta var sko svona alvöru - Cirkus Arena - 3 tíma show með fílum, hestum, sæljónum, trúðum, akrobati, Kung-fu listamönnum, brasilískum mótorhjólamönnum sem keyrðu í lítilli kúlu - fimm í einu!!! - og miklu miklu fleira. Þetta var skemmtun fyrir alla fjölskylduna - ekki bara minni börnin.........

Á laugardaginn fóru strákarnir í afmæli hjá vinum sínum og jafnöldrum hér í götunni. Bræður sem héldu upp á 4ra og 6 ára afmæli í sól og sumaryl. Við fullorðna fólkið söfnuðumst saman í öðrum garði og sóluðum okkur á meðan. Eftir laugardagsgrillið okkar var svo spilað við nágrannana.

Í dag var ekki ský í himni - í allan dag! Þvílík veðurblíða. Við bara sátum í garðinum, bökuðum sunnudags-súkkulaðikökuna og höfðum það gott. Seinni partinn skruppum við svo í göngutúr um lystbådehavnen að skoða allar flottu skúturnar. Þetta er æðislegt svæði - með veitingastöðum og huggulegheitum að dönskum stíl. Eigum pottþétt eftir að taka að skreppa þangað oftar. Ótrúlegt hvað það virðist endalaust vera hægt að finna nýja og nýja skemmtilega staði til að skreppa á hér í Árósum!

Eins og sést á þessari upptalningu - var EKKERT lært um þessa löngu helgi. Það var fyrst og fremst vegna veðurs - hmmmmm - en hvernig verður þetta þá í júní ef ekki er hægt að læra vegna veðurs í apríl!!!!!!!!!!
Nei, nú verða námsmennirnir að taka sig á og setja í gírinn - Power study alla næstu viku - ekkert annað í boði!!!

Jóel Kristinn er loksins búinn að fá bréf frá kommununni varðandi skóla fyrir næsta vetur. Hann var sem sagt metinn (úr dönskuprófinu - í janúar) þannig að hann fer í venjulegan bekk með meðalstuðning í dönsku. Það er bara fínt. Þar sem það er kvóti á fjölda tvítyngdra barna í hverjum bekk fékk hann ekki boð um hverfisskólann - eins og við bjuggumst eiginlega við - en fékk boð um Viby skole, sem er ekkert mikið lengra frá en hverfisskólinn. Það verður vonandi bara allt í lagi. Það eru reyndar nánast engar upplýsingar um skólann á netinu þannig að við vitum lítið um þennan skóla - annað að hann er þekktur fyrir að vera með mörg tvítyngd börn og kemur vel út úr 9. bekkja prófunum hér í DK.
Nú er bara að fara að huga að undirbúningi 6 ára afmælis stóra stráksins!!! Það er eiginlega bara ótrúlega stutt í 8. maí!
Verð að bæta við einu sætu gullkorni frá kvöldverðarborðinu áðan. Allt í einu og alveg upp úr þurru segir drengurinn: "Mér finnst mjög leiðinlegt að amma mín fótbrotnaði aftur!" (Amma Lóa er nefnilega búin að lærbrotna tvisvar í vetur). Það er sem er nú fallegast við þetta að hvorki amma Lóa né nokkuð henni tengt var til umræðu þannig að þetta koma bara beint frá hjartanu! Sætur!

Annars bara lærdómskveðjur,

Apr 15, 2008

fréttir úr sólskininu........

Hér er bara komið alvöru vor - svona eiginlega íslenskt sumar! Nú er t.d. sól og blíða um 13°C sem er bara frábært.

Staðan á fullorðna fólkinu er þannig að það styttist í próf og alls konar verkefnaskil en mikið magn óunnið. Þannig að það er nokkuð ljóst að við verðum að reyna að halda okkur aðeins innan dyra og stunda námið - við fluttum jú hingað til að læra!

Í síðustu viku voru strákarnir einir heima í tvo daga þar sem ég þurfti að vinna í hópverkefni inn í Köben. Það gekk bara vel og er ljóst að þeir geta verið einir heima, a.mk. í stuttan tíma í einu!

Um helgina höfðum við það bara rólegt og gott. Byrjuðum helgina á fótboltaæfingu og pizzu á föstudagseftirmiðdaginn. Á laugardeginum fórum við í óvissuferð hér um nágrennið okkar og uppgötvuðum nýjan leikvöll hér í nágrenninu sem við vissum ekkert um. Þar voru lítil fótboltamörk þar sem við kepptum í fótbolta mamman og Fannar Ingi á móti Jóel og pabbanum. Úrslitin voru þannig að Jóel tryggði sínu liði sigur m.a. með þvílíku glæsimarki að annað eins ................... Þarna var líka klifurveggur og fleira spennandi fyrir börn á öllum aldri, mjög gaman.

Á sunnudaginn skruppu strákarnir saman að veiða og fundu skemmtilegan stað hér ekki svo langt frá - það veiddist reyndar enginn fiskur en strákarnir höfðu allir gaman af þessu. Mamman tók svo á móti veiðimönnunum með vöfflum og fór svo út að leika á meðan pabbinn kíkti í bók - já það verður að lesa líka ekki bara að hafa gaman og slappa af.

Reyndar er það þannig að sunnudagskvöld eru orðin uppáhaldskvöld strákanna. Þá fá þeir að slást við pabba sinn! Það hefur sem sagt þróast sú skemmtilega hefð að eftir mat á sunnudögum fara strákarnir í sturtu og fá svo "að slást" við pabba sinn upp í okkar rúmi hreinir og fínir. Ótrúlegt hvað þetta framkallar mikla gleði hjá þeim bræðrum!

Bestu kveðjur úr Beykiskóginum,

Apr 7, 2008

Helgarlífið...........

Okkur fjölskyldunni hér í Beykiskóginum tekst einhvern veginn alltaf að skemmta okkur vel um helgar!

Við hófum nýliðna helgi með því að fara á fyrstu útiæfingu ársins í fótboltanum. Þar var gríðarlegur fjöldi af upprennandi knattspyrnumönnum mættir. Flestir voru þarna í glænýjum og glansandi takkaskóm en þar sem Jóel Kristinn hafði ekki enn eignast svoleiðis "pro" útbúnað varð hann að láta sér venjulega íþróttaskó duga - að þessu sinni. Nú þar sem við foreldrarnir viljum auðvitað standa okkur í hlutverkinu og veita drengjunum allt hið besta drifum við okkur í Sportmaster strax á laugardagsmorgun og fjárfestum í "komplet fodboldpakke" sem innihélt takkaskó, stuttbuxur og treyju auk sokka! Þannig að nú getum við fjölskyldan varla beðið eftir næstu æfingu!

Eftir æfinguna á föstudaginn vorum við svo heppin að okkar beið bara tilbúinn matur hjá einum nágrannanum. Og á laugardagskvöldið buðum við svo öðrum nágrönnum til okkar. Það er nefnilega þannig að við erum með grasekkjur sitthvorum megin við okkur (karlarnir á Íslandi) og þá getur verið gaman að fá félagsskap frá nágrönnunum auk þess sem strákarnir (sérstaklega Jóel) njóta þess þvílíkt að fá að borða með vinum sínum og vaka lengur ......... miklu lengur!

Í gær, sunnudag fórum við að heimsækja sumarhöll drottningarinnar hér í Árósum. Við höfðum aldrei áður skoðað höllina eða hallargarðinn og fórum því í góðan göngutúr um svæðið sem er opið þegar drottningin er ekki "heima". Í sumar þegar drottningin kemur þá verður garðurinn lokaður en í staðinn verður hægt að sjá hin frægu lífvarðaskipti kl. 12 að hádegi.
Við hliðina á hallargarðinum er skemmtilegur leikvöllur þar sem við lékum okkur þegar við vorum búin að rölta um hallargarðinn og stúdera listaverkin sem þar eru. Við enduðum svo ferðina niðrí bæ - þar sem strákarnir fengu að velja sér stað til að borða - þannig að við fengum að sjálfsögðu einn McDonalds til að draga aðeins niður í hinum heilbrigða lífsstíl.

Nú er sem sagt helgin búin og lærdómurinn tekin við. Húsmóðirin þarf meira að segja að gista eina nótt í Köben í vikunni þar sem hún þarf að læra svo roooosalega mikið í þessari viku! Þá verða strákarnir bara að sjá um sig sjálfir - eða fá hjálp frá nágrönnunum (joke...)

Bestu kveðjur,

Apr 4, 2008

Ein mynd


Þar sem ég á aldrei neinar myndir í tölvunni minni - set ég aldrei neinar myndir hér inn. Fékk eina mynd senda frá manninum sem átti afmæli 1. apríl. Skelli henni inn svona til að gefa ykkur innsýn í lífið á leikskólanum. Þarna eru þeir bræður Fannar Ingi og Jóel Kristinn að smíða á leikskólanum með Sigurði vini sínum.

Annars er að koma helgi ............... páskaliljurnar sprungnar út í garðinum. Í dag byrjar líka fótboltinn hjá Jóel á fullu aftur eftir hlé.


Bestu kveðjur