Apr 15, 2008

fréttir úr sólskininu........

Hér er bara komið alvöru vor - svona eiginlega íslenskt sumar! Nú er t.d. sól og blíða um 13°C sem er bara frábært.

Staðan á fullorðna fólkinu er þannig að það styttist í próf og alls konar verkefnaskil en mikið magn óunnið. Þannig að það er nokkuð ljóst að við verðum að reyna að halda okkur aðeins innan dyra og stunda námið - við fluttum jú hingað til að læra!

Í síðustu viku voru strákarnir einir heima í tvo daga þar sem ég þurfti að vinna í hópverkefni inn í Köben. Það gekk bara vel og er ljóst að þeir geta verið einir heima, a.mk. í stuttan tíma í einu!

Um helgina höfðum við það bara rólegt og gott. Byrjuðum helgina á fótboltaæfingu og pizzu á föstudagseftirmiðdaginn. Á laugardeginum fórum við í óvissuferð hér um nágrennið okkar og uppgötvuðum nýjan leikvöll hér í nágrenninu sem við vissum ekkert um. Þar voru lítil fótboltamörk þar sem við kepptum í fótbolta mamman og Fannar Ingi á móti Jóel og pabbanum. Úrslitin voru þannig að Jóel tryggði sínu liði sigur m.a. með þvílíku glæsimarki að annað eins ................... Þarna var líka klifurveggur og fleira spennandi fyrir börn á öllum aldri, mjög gaman.

Á sunnudaginn skruppu strákarnir saman að veiða og fundu skemmtilegan stað hér ekki svo langt frá - það veiddist reyndar enginn fiskur en strákarnir höfðu allir gaman af þessu. Mamman tók svo á móti veiðimönnunum með vöfflum og fór svo út að leika á meðan pabbinn kíkti í bók - já það verður að lesa líka ekki bara að hafa gaman og slappa af.

Reyndar er það þannig að sunnudagskvöld eru orðin uppáhaldskvöld strákanna. Þá fá þeir að slást við pabba sinn! Það hefur sem sagt þróast sú skemmtilega hefð að eftir mat á sunnudögum fara strákarnir í sturtu og fá svo "að slást" við pabba sinn upp í okkar rúmi hreinir og fínir. Ótrúlegt hvað þetta framkallar mikla gleði hjá þeim bræðrum!

Bestu kveðjur úr Beykiskóginum,

No comments: