Okkur fjölskyldunni hér í Beykiskóginum tekst einhvern veginn alltaf að skemmta okkur vel um helgar!
Við hófum nýliðna helgi með því að fara á fyrstu útiæfingu ársins í fótboltanum. Þar var gríðarlegur fjöldi af upprennandi knattspyrnumönnum mættir. Flestir voru þarna í glænýjum og glansandi takkaskóm en þar sem Jóel Kristinn hafði ekki enn eignast svoleiðis "pro" útbúnað varð hann að láta sér venjulega íþróttaskó duga - að þessu sinni. Nú þar sem við foreldrarnir viljum auðvitað standa okkur í hlutverkinu og veita drengjunum allt hið besta drifum við okkur í Sportmaster strax á laugardagsmorgun og fjárfestum í "komplet fodboldpakke" sem innihélt takkaskó, stuttbuxur og treyju auk sokka! Þannig að nú getum við fjölskyldan varla beðið eftir næstu æfingu!
Eftir æfinguna á föstudaginn vorum við svo heppin að okkar beið bara tilbúinn matur hjá einum nágrannanum. Og á laugardagskvöldið buðum við svo öðrum nágrönnum til okkar. Það er nefnilega þannig að við erum með grasekkjur sitthvorum megin við okkur (karlarnir á Íslandi) og þá getur verið gaman að fá félagsskap frá nágrönnunum auk þess sem strákarnir (sérstaklega Jóel) njóta þess þvílíkt að fá að borða með vinum sínum og vaka lengur ......... miklu lengur!
Í gær, sunnudag fórum við að heimsækja sumarhöll drottningarinnar hér í Árósum. Við höfðum aldrei áður skoðað höllina eða hallargarðinn og fórum því í góðan göngutúr um svæðið sem er opið þegar drottningin er ekki "heima". Í sumar þegar drottningin kemur þá verður garðurinn lokaður en í staðinn verður hægt að sjá hin frægu lífvarðaskipti kl. 12 að hádegi.
Við hliðina á hallargarðinum er skemmtilegur leikvöllur þar sem við lékum okkur þegar við vorum búin að rölta um hallargarðinn og stúdera listaverkin sem þar eru. Við enduðum svo ferðina niðrí bæ - þar sem strákarnir fengu að velja sér stað til að borða - þannig að við fengum að sjálfsögðu einn McDonalds til að draga aðeins niður í hinum heilbrigða lífsstíl.
Nú er sem sagt helgin búin og lærdómurinn tekin við. Húsmóðirin þarf meira að segja að gista eina nótt í Köben í vikunni þar sem hún þarf að læra svo roooosalega mikið í þessari viku! Þá verða strákarnir bara að sjá um sig sjálfir - eða fá hjálp frá nágrönnunum (joke...)
Bestu kveðjur,
Apr 7, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment