Aug 13, 2008

Síðan síðast

Hér sé stanslaust fjör og nóg um að vera!

Erum búin að hafa góða gesti frá Svíþjóð síðustu 5 daga, mikið fjör. Margrét systir með fjölskylduna eru búin að skoða með okkur miðbæ Árósa, Legoland og rigninguna þess á milli. Litlu frændurnir voru í stuði allan tímann - leiddist ekki augnablik, þannig að þögnin sem er nú í húsinu er nánast yfirþyrmandi (hehe). Hittum þau reyndar aftur á laugardag í Köben því afi Jóel og amma Stína eru um það bil að lenda í Kaupmannahöfn þar sem þau eru með íbúð á leigu í viku. Þangað eru Svíarnir farnir og við förum á eftir þeim um helgina. Að þessu sinni ætlum við með lestinni en þeir bræður Fannar og Jóel er þvílíkt spenntir að fá loksins að fá að fara í lestina ...

Jóel Kristinn var sem sagt í SFO-inu sínu í síðustu viku og gekk bara mjög vel. Á mánudag var svo fyrsti skóladagurinn með kennaranum og hefur drengnum bara gengið ljómandi vel. Hann kom heim með stærðfræðibókina sína þar sem foreldrar hans áttu að pakka henni inn í bókapappír! Þvílíkt föndur - að taka fagurskreytta, litríka og plasthúðaða bókina hans og pakka henni inn í brúnan umbúðapappír (minnir á svona ca. 1935 og reyndar kröfurnar í Landakotsskóla hjá Bentu systur hérna fyrir nokkrum árum). Í staðinn fékk mamman smá tíma til að skoða bókina sem á að duga börnehaveklassen í ALLAN vetur. Markmið bókarinnar er að nemendur geti talið frá 1 - 10, þekki hugtökin hringur, þríhyrningur og ferhyrningur auk þess að geta notað hugtökin stærri en, minni en og þar með borið saman (en samt bara 1 - 10).... Ég man ekki betur en að þetta hafi allt verið prófað í 3 og 1/2 árs þroskaprófinu - þar sem drengurinn svaraði nánast öllu 100%!!! Hann ætti sem sagt að geta staðið undir kröfum vetrarins...
Á sama tíma og kröfurnar til barnsins er að geta talið upp að 10 í maí/júní á næsta ári .... þá er búið að afhenta honum strætókort til að fara einn í strætó á ein stærstu gatnamótin hér í Viby (7 akreinar til að fara yfir á ljósunum...) - já maður verður eiginlega bara hálf ruglaður í því hvað 6 ára börn eiga að vera fær um!

Fannar Ingi fer létt með að vera án stóra bróður á leikskólanum! Fékk frí mánudag og þriðjudag til að vera með Tomma frænda og öllum hinum en nú er rútínan hafin og það er bara fínt.

Helgi Kristinn er kominn í sumarfrí númer 2 og er nú að glíma við bílaviðgerðir með aðstoð Jóns Freys. Gamli skrjóðurinn okkar er víst ekkert unglamb lengur og núna þarf að skipta um alla bremsudiskana og bremsuklossana. Ætluðum varla að komast heim úr Legolandi á mánudaginn og höfum ekki getað notað bílinn síðan þá.

Ég er búin að fá kennsluáætlanir og bókalista fyrir veturinn. Líst bara vel á! Verð í einu fagi hér í Árósum og öðru inn í Köben. Bæði líta bara vel út, mikill lestur og mörg verkefni, eeeen þannig á það víst að vera. Er líka að mæta í ræktina og skokkaði meira að segja hring hér í hverfinu snemma á sunnudagsmorgun - er á meðan er!

Jæja, þá er langlokunni lokið,
Bestu kveðjur

3 comments:

Unknown said...

Þú gleymdir ða segja að þú áttir afmæli!

:)

Fjölskyldan said...

Elsku Kristín mín, í þessum fréttapistlum reynum við að halda okkur við það sem skiptir máli - og gleyma hinu ... hehehe

Kristín Hrefna said...

:)