Sep 23, 2008

Það er ekkert kominn vetur!

Síðast þegar ég skellti inn smá bloggi, hélt ég því fram að það væri að koma vetur. Í augnablikinu virðist hann vera hættur við að koma þó að hitastigið sé nú kannski ekkert hátt, kannski 16° - 17° sem er bara fínt. Það er sem sagt sól og blíða hér og spáin fyrir a.m.k. næstu tvo daga er meiri sól og blíða. Tilvalið að skreppa með fjölskylduna í hjólatúra, skella sér í golf eða eitthvað álíka heilbrigt!

Erum reyndar ekkert stanslaust í hollustunni. Hér í götunni eru oft haldin matarboð og á föstudaginn fengum við íslenskt lambalæri með íslensku meðlæti og svo ýmislegt misóhollt eftir matinn. Sumum þessum matarboðum fylgir svo spilamennska fram á rauða nótt...

Við héldum svo íslensk kökuboð bæði á laugardag og sunnudag. Fengum Jódísi frænku hans Helga til okkar á laugardag með strákana sína tvo og á sunnudag kom skólabróðir Helga í heimsókn með fjölskylduna sína sem reyndar hefur stækkað síðan þá því að þau eignuðum son í gærkvöldi - gaman af því (kannski það hafi verið vöfflurnar sem komu öllu af stað)!

Jóel Kristinn er svo í stanslausum veislum í skólanum sínum. Það er nefnilega þannig að þegar einhver í bekknum á afmæli fer kennarinn með allan bekkinn heim til afmælisbarnsins og þar er haldin veisla. Þrjá daga í röð hafa stelpur úr bekknum átt afmæli. Á fimmtudag, föstudag og í gær (mánudag) fór allur skóladagurinn í afmælisveislu og til að krydda skemmtilegheitin í þessum skóla voru þau í sveitaferð á miðvikudag, þannig að í dag er fyrsti skóladagurinn í næstum viku!!! Það er líklega erfitt að láta sér leiðast í þessum skóla!

Fannar er bara eldhress í leikskólanum - er orðinn alveg sáttur að vera "einn" án stóra bróður.

Annars bara best að fara að sinna náminu svo maður komist út þegar strákarnir koma heim úr skólunum sínum.
Bestu kveðjur,

No comments: