Nov 29, 2008

Óvenju róleg vika!

Fyrsta vikan eftir Afmælið hefur svo sannarlega liðið hægt og rólega. Það tók nú flesta fullorðna í götunni a.m.k. fram á miðvikudag að ná nokkuð eðlilegri heilsu aftur eftir glæsilega frammistöðu í afmælinu. Íslendingar í "útlöndum" kunna sko alveg að skemmta sér og eru ekkert að láta gestgjafana þurfa að bera afganga af mat og drykk heim - virkilega tillitsamt fólk, Íslendingar í Árósum.

Fannar Ingi er búin að vera næstum því lasinn alla vikuna - fékk ekki að fara einn dag á leikskólann en varð samt aldrei almennilega veikur. Með góðan skammt af kvefi, eitt kvöld með verk í eyrunum eins og þegar hann var ungabarn og svo 5 - 6 kommur svona öðru hverju. Greyið var auðvitað hundleitt og t.d. á fimmtudag skreið hann skyndilega inn rúm og hágrét yfir örlögum sínum að þurfa að vera heima á meðan allir hinir voru að leika á leikskólanum! Það sem reddaði málunum var að hann fékk nokkur púsl í afmælisgjöf og núna er hann orðinn ansi leikinn með púslin sín enda margbúið að púsla hvert þeirra!

Jóel Kristinn hefur bara haft það gott í skólanum að venju. Fór í bæjarferðina sína með SFO-inu á mánudag og keypti nokkrar jólagjafir fyrir 30 krónur auk þess að vera boðið í pasta á veitingastað. Það hefur nú örugglega verið dálítið krúttað að sjá fimm, sex ára kríli í bænum að velja jólagjafir fyrir fjölskylduna. Á þriðjudag var svo julekagebagedag í skólanum hans Jóels. Þangað mættu foreldrar, börn og systkini úr bekknum hans Jóels. Við bökuðum piparkökur og súkkulaðibitakökur og tókst að innlifa okkur í danska jólamenningu með æbleskiver og soda eller öl! Það er hægt að sjá einhverjar myndir sem Helgi tók með símanum símum hér: http://share.ovi.com/hkh

Á föstudagskvöld var svo svona næstum því Þorláksmessa í miðbænum þegar það var miðnæturopnun í miðbænum og Julemanden kom til Árósa með tilheyrandi bílalest, lúðrablæstri og skrúðgöngu. Við vorum auðvitað mætt öll fjölskyldan með Sigurð Ragnar vin hans Jóels og svo Bentu Völu og fjölskyldu. Í bænum hittum við svo nánast alla hina Íslendingana úr götunni, Íslendinga úr skólanum hans Helga ........ svona er þetta hérna í Íslendingasamfélaginu.

Benta Vala gisti svo hjá okkur svo foreldrarnir gætu aðeins tekið þátt í skemmtanalífinu í Horsens. Það er sko bara fjör þegar hún er mætt og erfitt að láta sér leiðast. Hún er svo kraftmikil að "stóru" frændur hennar þurfa að hafa sig alla við og heilmikil svona "valdabarátta" á milli Fannars Inga og Bentu Völu. Það þyrfti líka að skrá sérstaklega niður það sem hún segir og gefa út sem brandarabók einhver jólin.... það sem veltur upp úr henni!

Nú þar sem það er sko algerlega miklu meira en nóg að gera í skólanum og Fannar var veikur heima alla vikuna (sem hjálpar víst lítið til í náminu...) þá hefur mér tekist að ná mér í hita og aumingjaskap! Það er nú samt bara tilfallandi og ég vakna án efa eldhress í fyrramálið!

Helgi mun síðan fara um næstu helgi og reyna að fá svolítið af dönskum krónum en honum hefur verið boðið tvö þjónadjobb í fínum veislum í gegnum vikar-skrifstofuna. Hann ætlar að vinna frá 18 - 04 á föstudag og svo strax aftur frá 12 - 18 á laugardag. Þetta er samt bara frábært því hver dönsk króna sem við fáum hér í Danmörku sparar svo margar íslenskar krónur á íslenska reikningnum okkar. Það getur verið mjög fróðlegt að reikna svona úr dönskum yfir í íslenskar. Þegar við fluttum hingað fyrir ári fengu danskir kennarar t.d rúmlega 300 þús íslenskar krónur en í dag líklega yfir 700 þús íslenskar. Samt hafa þeir ekki hækkað í launum og fá bara að það sama fyrir peninginn!!! - Jæja - það má hafa gaman af öllu!!

Bestu kveðjur í bili,

No comments: