Dec 25, 2008

Gleðileg jól!

Við fjölskyldan sendum ykkur öllum okkar bestu óskir um gleðileg jól!

Við höfum það mjög gott hér í Danaveldinu.  Jólaundirbúningurinn gekk vel og miðað við það sem við erum vön frá fyrri árum vorum við bara tímanlega með þetta allt saman. Á mánudaginn redduðum við síðustu pökkunum og sóttum hamborgarahrygginn sem var pantaður hjá slátraranum til að fá hann með beini. Á Þorláksmessu var jólagjafarúnturinn farinn. Í stað þess að keyra frá Kópavogi um alla Reykjavík og út á Seltjarnarnes með viðkomu í Mosfellsdal og enda á Selfossi var bara farið á einn stað - til Gedved!

Um kaffileytið á Þorláksmessu, eftir jólagjafarúntinn var komið að því að versla það sem vantaði í matinn.  Við hálf kviðum því að fara með drengina í verslunarleiðangur um kaffileytið á Þorláksmessu, áttum auðvitað von á lööööngum röðum á kassana og troðningi í búðinni en létum okkur nú hafa það og stefndum í Bilka.  Þegar þangað var komið var óvenju mikið úrval af bílastæðum og einstaklega rólegt í búðinni og engin röð á kassana.  Danir eru sem sagt ekki að versla svona á síðustu stundu eftir kaffi á Þorláksmessu!!!!  

Aðfangadagurinn hófst snemma (ca. kl. 06:15) hér á heimilinu eins og allir síðustu 13 dagarnir fyrir jól!  Þrátt fyrir að hafa fengið að vaka lengi við að skreyta jólatréð og svoleiðis skemmtilegheit vöknuðu drengirnir eldsnemma til að kíkja á jólapakkann frá síðasta jólasveininum!  Dagurinn gekk samt ótrúlega vel og voru þeir bræður ótrúlega góðir miðað við að sitja í stofunni með fullt af pökkum undir jólatrénu sem mátti ekki opna fyrr en klukkan sex!  

Við ákváðum að hafa jólamatinn með hefðbundnu sniði, hamborgarahryggur með brúnuðum kartöflum og rauðvínssósu og sveppirnir góðu á sínum stað.  Þrátt fyrir að allir hafi borðað á sig gat......... og rúmlega það...... sá varla högg á vatni, magnið hefði dugað fyrir a.m.k. tvær fjölskyldur í viðbót, en það er bara fínt - við höfum nægan tíma þessi jólin til að vera heima í rólegheitunum og borða afgangana.  

Pakkamaraþonið var mikil skemmtun hér á heimilinu.  Jóel Kristinn las á alla pakkana og þeir bræður voru þvílíkt glaðir með innihaldið.  Það var alveg sama hvort pakkarnir voru mjúkir eða harðir, stórir eða litlir þeir voru alltaf jafn ánægðir með innihaldið.  "Mig hefur alltaf langað í svona" "Mig langaði einmitt í svona vettlinga" .............. o.s.frv.  Gaman að því!  Foreldrar þeirra voru að sjálfsögðu einnig mjög ánægð með allt sitt.  Við þökkum fyrir okkur!

Eftir pakkamaraþonið spiluðum við í smá stund fjölskyldan en svo voru drengirnir orðnir úrvinda af þreytu og vildu komast í rúmið......... í glænýjum náttfötum að sjálfsögðu.

Núna erum við fjölskyldan bara í rólegheitunum á jóladagsmorgni.  Hugsum auðvitað heim í jólaboðin en í staðinn höldum við lítið jólaboð seinni partinn þegar Lilja, Jón Freyr og Benta Vala koma frá Gedved í jólahangikjötið.

Með jólakveðju,

2 comments:

Anonymous said...

Gleðileg jól öllsömul. Ég er eitthvað óhittinn við að vera á réttum tíma í tölvunni í dag, en ég er alveg í skýjunum með þessar flottu jólagjafir frá Danmörku! Glæsileg málverk, fjölskylduglanstímarit og almanak. Ég þakka kærlega fyrir mig og bið að heilsa öllum.

Anonymous said...

Gleðileg jól Lóa mín. Vona að þig eigið góða jólarest.
Knúsar úr Kópavoginum, Kristín P :o)