Fjölskyldan hélt í langferð um helgina. Við skruppum til kóngsins Köbenhavn snemma á laugardagsmorgun og fórum á ættarmót! Það eru nú ekki allir sem skreppa á ættarmót til Köben en það gerðum við og skemmtum okkur vel.
Fyrir þá sem hafa áhuga á ættfræði þá á amma Stína (Kristín Orra) föðursystur sem hafa verið búsettar hér í áratugi og eiga þær eiginmenn, börn og barnabörn hér. Nú er sem sagt öll fjölskyldan hennar ömmu Stínu hér í Danmörku.
Við hófum leikinn í fínni veislu á veitingahúsi í Nyhavn, þangað sem við rötuðum beint með aðstoð nýja GPS-tækisins hans Helga (eða okkar allra) en svo fórum við í íbúð sem afi Jóel og amma Stína eru með í Nörrebro, þar voru líka Jóel frændi (Jóel bróðir) auk þess sem Margrét og Arnar komu auðvitað með Pétur Orra og Tómas Atla með lestinni frá Stokkhólmi frábært að hitta einn hluta fjölskyldunnar sinnar aftur.
Strákarnir voru auðvitað alsælir að fá að hittast og leika sér og þeir litlu Fannar og Tommi náðu saman í fyrsta sinn og brostu auðvitað út að eyrum!
Á sunnudeginum fóru afi og amma svo með barnahópinn (þ.e. okkur öll) í Tivoli - hið eina sanna. Það var hlaupið á milli tækja fram á kvöld.
Fannar Ingi hélt auðvitað áfram að sýna snilli sína í tækjunum setti hendur upp í loft, hló og skríkti í hverri ferð.
Jóel Kristinn hefur líka mjög mikinn áhuga á tívolí-tækjum, er alvarlegri á svip á meðan rússíbaninn þýtur áfram en um leið og hann stoppar brosir hann út að eyrum og leitar að næsta tæki.
Fullorðna fólkið stóð sig einstaklega vel í þessari Tivoli-ferð. Amma Stína og afi Jóel fengu það skemmtilega hlutverk að sinna barnabörnunum þegar stóru börnin þurftu að leika sér. Við skelltum okkur öll (Margrét samt ekki alveg alltaf) í fullorðinstækin, í rólurnar (sem fara ansi mikið hátt), í fallturninn (sem var alveg frábær) og svo auðvitað í drekann þar sem húsmóðirin í Beykiskóginum fékk hláturskast þar sem hún og hinir skemmtu sér svo vel.
Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt allt saman - og fyrir allan aldur!
Um áttaleytið var svo ekið af stað heim til Árósa, strákarnir steinsofnuðu á fyrstu mínútum ökuferðarinnar og voru bornir sofandi inn í rúm hér heima.
Fyrir þá sem eru að bíða eftir myndabloggi þá er það rétt handan við hornið. Ritari fréttabloggsins fær fljótlega lánaða fartölvu eiginmannsins þar sem ekki tekst að koma myndunum inn á fréttatölvuna sjálfa.
Með bestu kveðju,
Sep 17, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Ehemm sko, vil bara minna á að það var ég og Jóel sem fórum í ógleði-snúnings-tækið og skemmtum okkur konunglega! (eða annað okkar a.m.k.... ;)
Margrét
Post a Comment