Dec 30, 2007

Komin heim

Jæja þá erum við komin heim eftir viku ferð heim til Íslands! Já, nú er bara allt heim!

Þó að það hafi verið mikið span á okkur þessa viku á Íslandi var það algjörlega þess virði. Ferðin hófst reyndar með mikilli seinkun á fluginu frá Billund til Keflavíkur. Við áttum að fara í loftið kl. 20:20 en það tafðist til um kl. 02 og lentum við í Keflavík rétt rúmlega 04 að íslenskum tíma. Ekki alveg það besta fyrir allar íslensku barnafjölskyldurnar sem voru á leið heim í jólafrí! En þetta gekk ótrúlega vel og vorum við komin í rúmið á Öldugötunni um 05:20. Afi Jóel á Seltjarnarnesinu fékk hlutverk bílstjórans og þurfti að keyra um miðja nótt til Keflavíkur að sækja fjölskylduna - takk fyrir það!

Við ætluðum auðvitað að vera á röltinu í bænum á Þorláksmessu en þar sem heilsan og röddin hjá húsmóðurinni urðu eftir á Billund flugvelli auk þess sem allir voru þreyttir þá varð lítið úr því. Við kíktum því bara rétt á ömmu Lóu sem tókst að lærbrjóta sig fyrir jólin. Amma Lóa á örugglega skilið að fá medalíu fyrir jákvætt hugarfar og góðar framfarir miðað við "aldur og fyrri störf" - hún er sko kjarnakvendi! Við kíktum líka heim til Kristínar Hrefnu og Borgars en það var mjög mikilvægt að sjá búskapinn hjá þeim! Regína og Svenni, Daði og Þóra Sif komu svo með Anítu á Öldugötuna og það urðu sko heldur betur fagnaðarfundir hjá krökkunum - sko bæði stórum og litlum! Við tókum myndir af litlu grísunum þremur og það er bara fyndið að sjá Anítu "stóru" á milli þeirra bræðra.

Á aðfangadag var brunað austur á Selfoss með viðkomu á nokkrum pakkastöðum. Jóel Kristinn og Fannar Ingi slógu algerlega í gegn með því að vera svooooooo góðir allan daginn og allt kvöldið að það hálfa væri nóg! Þeir dunduðu bara og léku sér allan daginn, ekki eitt suð um pakkana sem voru undir jólatrénum það var ekki fyrr en Kristín Hrefna frænka gat ekki beðið lengur að við réðumst á pakkana. Það var alveg sama hvað var í pökkunum þeir bræður voru yfir sig glaðir með allt saman!

Á jóladag og annan í jólum vorum við aftur í bænum að keppast við að knúsa fjölskylduna. Hitta systkinin og ömmurnar og afana. Eftir jólaboð á annan í jólum var aftur haldið austur og spiluðum við Party og Co Extreme með ömmu og afa á Selfossi, Kristínu Hrefnu og Borgari fram á nótt! Það var dálítið skrautleg fjölskyldusamkoma svona á köflum - hehehe!

Á fimmtudaginn ætluðum við hjónin að læra - en það var ekkert úr því!!!!!!!!!!!!!!!!
Lærdómurinn bíður því - og á að fara fram einmitt núna - en þá mundi ég að ég átti eftir að blogga smá - þannig að líklega fer ég bara að læra á eftir!!!!!!!!!!!! Helgi Kristinn er vonandi duglegri hann a.m.k. er kominn út í bæ að læra. Ég er eiginlega líka að bíða eftir því að bræðurnir verði nógu þreyttir til að fara að sofa - þeir eru búnir að snúa sólarhringnum alveg við og eru uppi í herbergi með nýja geislaspilarann sinn að dansa með Matthias og hinum krökkunum úr dönsku barnasöngkeppninni. Jólasveinninn gaf sko Jóel diskinn í skóinn.

Á föstudeginum var svo brunað í bæinn í keppni um að hitta sem flesta á sem stystum tíma. Við fórum hús úr húsi og kysstum og knúsuðum skemmtilegt fólk. Um kvöldið borðuðum við með Kristjáni og Silju og brunuðum svo í afmæli til Regínu. Við vorum ekkert smá glöð með að afmælisveislan væri haldin á meðan við vorum heima!

Á laugardeginum var svo flogið heim! Nú tókst þeim að hafa flugið á réttum tíma og gekk allt mjög vel. Nú erum við bara komið heim í Beykiskóginn, búin að gera áramótainnkaupin - nema sækja nautalundina til slátrarans á morgun. Skólabækurnar og tölvurnar tilbúnar fyrir átökin framundan!

Takk ömmur og afar fyrir þjónustuna um jólin,
Takk frænkur, frændur og vinir fyrir samveruna og skemmtunina,

Með áframhaldandi jólakveðju,
(ég er farin að læra...............)

Dec 19, 2007

Það eru að koma jól

Dagatalið segir að það séu alveg að koma jól!
Hér innandyra eru jú jólseríur og smá skraut en pappírshrúgan og bókastaflinn sem umlykur fartölvuna á borðstofuborðinu dregur all verulega úr jólaskapinu.

Helgi Kristinn er kominn í "jólafrí" og er upp í skóla að lesa undir próf - ekki ýtir það nú sérstaklega undir jólastemninguna. En þegar fyrsta prófið er 3. janúar er ekkert annað í boði. Það er annaðhvort að reyna að læra núna eða hafa bækurnar í fanginu á sjálfum jólunum!

Ég sit hérna í pappírsflóðinu (eins og alla hina dagana) Komin á bls. 32 í ritgerðinni sem þýðir að kannski er hugsanlegt að mögulega verði ég ef til vill bráðum búin! EN þá á ég eftir aðra litla ritgerð sem ég er ekki byrjuð á, en búin að afla heimilda, lesa mér til og ákveða uppbygginguna - þannig að henni verður nú rumpað af, kannski á morgun! Ég skrapp til Köben í síðasta tímann fyrir jól í gær þar sem við vorum að yfirfara verkefni sem ég skilaði síðasta laugardag. Á meðan við unnum í hópum skrapp kennarinn í burtu og bakaði "æbleskiver" og kom með handa okkur, veitti ekki af til að peppa upp liðið. Í stóra verkefninu eru nefnilega fimm hópar, ein er búin að segja sig úr verkefninu, einn hópur var of seinn að segja sig úr verkefninu en nær ekki að klára og verður að skila auðu en enginn af hinum þremur hópunum (ég meðtalin) er búin með verkefnið og það eru að koma jól!

Strákarnir hafa það gott nú á aðventunni. Á laugardaginn fórum við öll fjölskyldan á leikskólann þar sem strákarnir föndruðu kertaskreytingar, Jóel Kristinn labbaði eins og engill með kertaljós undir Lúsíusöngnum, borið var fram jólaglögg, piparkökur og æbleskiver auk þess sem gengið var í kringum jólatréð og sungnir danskir jólasöngvar.
Eftir jólaskemmtunina fórum við í bakarí og Jóel vildi fá að kaupa sjálfur: "Jeg skal har to klejner" og "og så skal vi har en julestjerne" (julstjerne er vínarbrauð í stjörnuformi). Drengurinn var gríðarlega stoltur af eigin frammistöðu og vildi sérstaklega að ég myndi segja öllum ömmum og öfum frá þessu! Við þetta má bæta að drengurinn er farinn að leiðrétta framburð foreldra sinna af miklum móð - og veitir kannski ekki af!

Nú er vaknað fyrir allar aldir á morgnana til að fá að kíkja í skóinn, stundum klukkan 06:00, jafnvel fyrr en hér gilda reglur - nóttin er ekki búin fyrr en klukkan 07:00!!! Í morgun spurði Jóel u.þ.b. 20 sinnum hvort að klukkan væri ekki orðinn 07 þannig að svefnfriðurinn fyrir þreytta foreldra var ekki mikill.

Ég minni ykkur á að við komum heim á laugardagskvöldið og verðum í miðbænum á Þorláksmessu. Helgi er með íslenskt símanúmer 697 5700 en ég er ekki með neitt íslenskt númer í bili.

Bestu kveðjur

Dec 13, 2007

Danskir og íslenskir jólasiðir á aðventunni

Jóel Kristinn og Fannar Ingi eru farnir að njóta hinna 13 íslensku jólasveina, sem mæta nú galvaskir hingað í götuna á hverri nóttu enda svo mörg íslensk börn sem fá í skóinn. Dönsku börnin fá "kalendergaver" allan desember en íslenskt - já takk gildir að þessu leyti hér í götunni. Reyndar er ansi gaman að fylgjast með Jóel Kristni í þessu ferli nú um jólin. Hann á erfitt með að átta sig á því hvernig þetta með jólasveininn getur virkað og spyr margra mjög svo skynsamlegra spurninga en fær óskynsamleg svör til baka. Í gærkvöldi svaraði ég flestum spurningunum hans bara með því að ég skyldi bara ekkert í þessu heldur, þetta væri bara eitthvað eins og töfrar!

Í gær fóru þeir bræður með leikskólanum sínum í strætó á bóndabæ og keyptu jólatré og næsta laugardag er einhver jólasamkoma fyrir foreldra og börn á leikskólanum.
Svona "by the way" þá eru strákarnir mjög glaðir á leikskólanum núna og finnst voða gaman! Í gær ætlaði ég ekki að ná Jóel heim, hann var "upptekinn" við að teikna flugvél með mörgum hreyflum svo hún kæmist rosalega hratt!
Útiveran á leikskólanum er líka alltaf jafn stór partur starfinu þar og með ólíkindum hvað útigallar bræðranna verða endalaust mikið skítugir - það þyrfi nánast að ráða manneskju í fullt starf til að sjá um þrif af þeim bræðrum!

Stærðfræðikennaraneminn, ég, leit aðeins upp úr ritgerðavinnunni á þriðjudag og fór í tíma til Köben ásamt því að mæta í "julefrokost" með fólkinu úr bekknum. Við mættum 6 af 8 nemendum heim til einnar sem býr út á Amager. Flestir hafa heyrt sögur af dönskum julefrokost og ég var ansi spennt að fá að taka þátt í einhverju svona ekta dönsku.
Drykkina áttum við að koma með sjálf en þar sem ég vissi ekki hvað hinir myndu gera keypti ég bæði litla rauðvín og 3 bjóra og hafði í töskunni. Ég fór nú reyndar með alla bjórana heim því það kom í ljós að allir hinir fengu sér bara 1 bjór með matnum og svo bara vatnssopa.
Maturinn var keyptur úr tilbúna kjötborðinu í súpermarkaðnum. Grunnurinn var rúgbrauð, hvítt brauð, remolaðitúpa, majonestúpa, örfáar gúrkusneiðar og cherrytómatar. Upphitað úr kjötborðinu kom svo "þurrt" fiskifillet í raspi (borðað á rúgbrauði með smá remolaðiklessu), "þurr" upphituð purusteik (borðuð á brauði með rauðkáli + majonesi), frikadeller (líka borðaðar á brauði með majonesi og jafnvel rauðkáli), heit leverpostej (skellt á rúgbrauð). Í dessert var svo að sjálfsögðu "ris a la mand" sem bar af, af réttum kvöldsins. Á eftir var farið í pakkaleik og var ég svo heppin að fá tvo jólablýanta - og svo ótrúlega skemmtilega vildi til að þeir eru alveg eins og jólablýantarnir sem jólasveinninn gaf sonum mínum í skóinn í morgun!
Ég setti jólageisladisk með Kór Snælandsskóla í pakkann frá mér og það var einmitt Ole, eini karlmaðurinn í hópnum og mikill áhugamaður um tónlist sem fékk diskinn. Ég gerði það nú meira til gamans að setja diskinn í pakkann en skólafélagar mínir tóku þessu mjög alvarlega og fóru strax að spila diskinn og ræða sönginn. Eftir fyrstu fimm tónana komust þau að þeirri niðurstöðu að svona söngur heyrðist ekki í dönskum skólakórum - Heyr Heyr Heiðrún! (ég get eftir nokkrarferðir á samnorræn barnakóramót - að það er rétt hjá þeim, dönsku stuttermabolakórarnir með shalalala lögin hafa annað sound en Kór Snælandsskóla 2001).

Í kvöld fer svo viðskiptafræðineminn á sinn julefrokost, ég veðja á að það verði fáir þar sem láti sér nægja 1 bjór með matnum!!!!!

Annars bara bestu kveðjur til ykkar allra héðan úr ritgerðavinnunni í Danaveldi,

Dec 8, 2007

Lærdómsfréttir

Húsmóðirin er bara að skrifa ritgerðir, það kemst nákvæmlega ekkert annað að en að læra. Afraksturinn er því miður ekki alveg nógu mikill, það þarf að reddast sem allra fyrst - annars má búast við að jólin fari öll í ritgerðaskrif, sem er ekki spennandi. En reddast svona lagað ekki alltaf á endanum?

Húsbóndinn er líka alltaf að læra, hópverkefni og svo náttúrulega allt þetta sem er til prófs í byrjun janúar - En reddast svona lagað ekki alltaf á endanum?

Fannar Ingi er að læra að vera 3 ára. Það gengur vel og er hann farinn að sýna alls konar töffaratakta sem ekki sáust hjá honum þegar hann var bara tveggja ára.

Jóel Kristinn er mest í því að læra dönsku, fer fram með hverjum deginum. Við foreldrar hans fengum bréf í vikunni frá Vestergaardskólanum. Til foreldra tilvonandi börnehaveklasse! Það er foreldrafundur í skólanum þann 13. desember. Skemmtileg tímasetning hjá Dönunum fyrir kynningarfund - þetta er akkurat það sem er foreldrum efst í huga svona rétt fyrir jól!
Jóel Kristinn er yfirleitt mjög sjálfbjarga og sér auðvitað alveg um að klæða sig sjálfur og svoleiðis en í kvöld var mamma hans að dekstra hann eitthvað þegar hann var að fara að sofa og klæddi hann í náttfötinn. Þá sagði Jóel: "ég verð að fara að læra að klæða mig sjálfur, annars þarf konan sem ég giftist að klæða mig þegar ég er orðinn fullorðinn!"

Saman eru þeir bræður að læra að vera töffarar. Þeir fóru í klippingu á íslensku hárgreiðslustofuna niðri í bæ í gær. Hárgreiðslukonurnar settu gel í hárið á þeim og settu toppinn svona upp í loft - eins og á alvöru töffurum. Þeir voru ekkert lítið glaðir með þetta, það mátti ekki setja á þá húfurnar og stanslaust var verið að tékka á því hvort hárið væri í lagi. Í dag fóru þeir svo í tvöfalt afmæli hjá íslenskum systkinum hér í götunni. Auðvitað með gel í hárinu - og toppinn upp í loft!

Sem sagt bara allt gott að frétt af okkur, orðið nokkuð jólalegt hjá okkur þó það sé því miður kannski ekki nógur tími til að njóta aðventunnar. En átti einhver svo sem von á því að desember væri rólegur mánuður hjá námsmönnum????

Bestu kveðjur,

Dec 2, 2007

Julemanden er kominn til Århus!

Jahá! Það er aldeilis fréttir héðan frá Árósum. Julemanden er kominn! Hann kom á föstudaginn með skipti og fór svo með julenissunum sínum, lúðrasveitum, brunabíl o.fl. í skrúðgöngu um miðbæinn. Við íslensku fjölskyldurnar hér í Beykiskóginum flykktumst að sjálfsögðu niður í bæ og fylgdumst með herlegheitunum. Þetta var voða gaman allt saman. Rétt áður en skrúðgangan kom var líka kveikt á jólaljósunum í göngugötunni og það er alveg yfir meðallagi mikið af ljósum!
Á föstudagskvöldið var opið í búðunum til kl. 24:00. Stemningin minnti einna helst á Þorláksmessu á laugarveginum. Við nýttum tímann og skelltum okkur í nokkrar búðir og erum hér með nánast búin að kaupa allar jólagjafirnar!!!!! Húrra fyrir okkur - sem höfum nánast alltaf átt a.m.k. 15 gjafir eftir á Þorláksmessu og sjaldnast klárað gjafakaupin fyrr en á aðfangadagsmorgun!

Laugardagskvöldið var líka ótrúlega skemmtilegt hjá okkur í fjölskyldunni. Við skelltum okkur yfir til nágrannanna og spiluðum m.a. Buzz sem er ótrúlega skemmtilegt Play Station spurningaspil! Vorum reyndar dálítið lengi frameftir svona miðað við að eiga tvo gorma sem ekki kunna að sofa út - en þeir settu nú samt persónulegt með drengirnir og sváfu næstu því til kl.9:00 sem er þeirra lang besta frammistaða í því að sofa út!

Í dag sunnudag héldum við áfram að skemmta okkur fjölskyldan. Við skelltum okkur í Storcenter Nord sem er verlsunarmiðstöð hér í Árósum en þar voru tónleikar með dönskum krökkum sem tóku þátt í Melodi Grand Prix 2007 sem er svona skandinavísk Eurovision keppni fyrir krakka. Við Jóel Kristinn horfðum einmitt á úrslitin í beinni útsendingu frá Svíþjóð um síðustu helgi og varð Jóel Kristinn alveg dolfallinn af hinum danska Matthias sem er 14 ára sætur strákur sem rappar, syngur og dansar - og gerir það alveg ótrúlega vel! Jóel Kristinn hefur síðan þá verið að æfa dansspor og "rapp" og tók m.a. þvílík spor í eldhúsinu eftir kvöldmatinn. Allavegana var gaman að geta leyft Jóel að sjá idolið sitt "live" - þetta er jú í fyrsta sinn sem hann eignast eitthvað svona idol!

Tókum okkur einnig til í dag og skelltum upp eitthvað af jólaljósum og skrauti.

Nú er bara spennandi að sjá hvort að eitthvað gangi með lærdóminn í vikunni - ef ekki þá erum við í vondum málum!

Bestu kveðjur til ykkar allra,
P.s. það eru bara 20 dagar þangað til við komum í stutt jólastopp heim

Nov 28, 2007

Fréttir af eiginlega engu!

Engar fréttir eru góðar fréttir! Þannig er staðan hér.

Dagarnir fljúga áfram og það styttist og styttist til jóla á sama tíma og verkefnamagnið eykst og fleira og fleira er óklárað. Þetta er nú kannski bara eðlilegt ástand svona þegar jólin nálgast en alltaf svolítið yfirþyrmandi að hafa prófin og ritgerðirnar hangandi yfir sér - eeeeeen ennþá meira gaman þegar allt verður yfirstaðið (í lok janúar!)

Fannar og Jóel eru í góðu ástandi, óslasaðir og alltaf að babbla eitthvað á dönsku! Já þetta er að koma. Jóel prófar og prófar og notar bara íslensk orð með dönskum framburði ef hann kann ekki dönsku orðin. Fannar passar sig að við foreldrarnir heyrum hann ekki segja neitt en talar svolítið á leikskólanum.
Þeir skilja þetta helsta á leikskólanum, svona í sambandi við matmálstímana og í hverju þeir eiga að fara út í kuldann og svoleiðis spjall. Annars gerum við foreldrarnir okkur ekki almennilega grein fyrir stöðunni í dag - við vitum bara að þetta er að koma!

Annars er lítið um fréttnæmar uppákomur þessa dagana þar sem skólinn (og svo jólastandið allt saman) hefur forgang.

Bestu kveðjur héðan úr rólegheitunum,

Nov 21, 2007

Myndafréttir

Jóel Hook - er hann oftast kallaður þessiFlying Fannar

Nov 16, 2007

Saumafréttir 2 - læknirinn saumar Fannar Inga

Eins og í öllum alvöru fréttamiðlum má búast við fréttum af slysum og svolítið af blóði hér á fréttasíðu fjölskyldunnar.

Í morgun var Fannar Ingi sleginn í hausinn (ennið - rétt við hársvörðinn) á leikskólanum. Hringt var heim í móður barnsins og hún beðin um að koma og meta ástandið á barninu. Þegar móðirin mætti á staðinn hafði blóðið lekið hressilega úr enni barnsins í um 30 mínútur auk þess sem drengurinn hafði fengið ís til að lina sársaukann (ísinn var sko til að að borða!!!).
Hanne, sem stýrir leikskólanum, hafði boðað komu drengsins til heimilislæknisins sem gerði heiðarlegar tilraunir til að líma sárið en þar sem það gekk ekki þurfti að sauma tvö spor.
Það má sérstaklega taka það fram að Fannar Ingi var sko ekki að grenja yfir svona smáræði, þær á leikskólanum sögðu að hann hafi bara setið rólegur og góður með blóðið lekandi niður andlitið og svo hjá lækninum kom bara smá svona uhuhu (kannski 5 - 7 sek.) þegar læknirnir sprautaði deyfingu í sárið áður en hún saumaði.
Eftir saumaskapinn hjá lækninum var drengnum bara skutlað aftur á leikskólann í blóðugum fötum með deyfingu í enninu þar sem foreldrar barnsins voru svo uppteknir að sinna náminu sínu. Það var sem betur fer í góðu lagi og var hann bara hress og kátur og sýndi öllum á leikskólanum spottana í enninu............ ekki vanur þessari athygli á leikskólanum þessi rólegi drengur!

Nov 15, 2007

Myndavélafréttir

Rétt í þessu var viðskiptafræðineminn, Helgi Kristinn að eignast glænýja, rándýra myndavél Canon 40D og einhverja svaka fína linsu (líka rándýra).
............svona er að vera fátækur námsmaður í útlöndum...........

Fréttaritari vill sérstaklega taka það fram að það var hún sem dró upp kortið í búðinni og greiddi fyrir myndavélina. Sölumaðurinn var svo ánægður með gæsku eiginkonunnar að hann spurði Helga Kristinn hvort hann mætti ekki bara giftast konunni hans, hún væri svo góð. Helgi neitaði!

Nú þeir sem þekkja hinn nýbakaða myndavélaeiganda vita að nú tekur við tímabil ljósmyndunnar! Næstu dagar - vikur verða þéttsetnir hinum ýmsu tilraunum með hraðastillingar, ljósop og hvað þetta allt saman heitir. Ég þori ekki lengur að lofa neinu, en hver veit nema nokkrum myndum verði skellt á netið..................svona a.m.k. fyrir jól.........

Ég verð að fara, flassið er byrjað að blikka ótt og títt........
kveðjur,
fréttaritarinn

Nov 12, 2007

Fréttir af rólegheitum og jólaheimsókn

Héðan er bara gott að frétta - eða í raun voða lítið að frétta (sem er bara gott).

Fannar Ingi og Jóel Kristinn eru í rólegheitum farnir að tala smá dönsku og þar sem íslenskan er notuð bæði heima og í leikskólanum, æfa þeir sig helst við matarborðið hér heima. "kan ikke spise mere!" "Må jeg få mælk?" ............ eru frasar borðhaldi fjölskyldunnar, bara gaman af því!
Í dag (mánudag) eiga þeir reyndar að byrja í dönskukennslu á leikskólanum. Þeir áttu reyndar að byrja strax í ágúst. Einn leikskólakennarinn útskýrði fyrir okkur hvernig það myndi fara fram, sendi okkur heim með einnota myndavél til að taka myndir sem nota átti í dönskukennslunni en svo bara gerðist ekki neitt. Á fimmtudaginn kom svo annar leikskólakennari og útskýrði fyrir okkur dönskukennsluna sem byrja á í dag, vonandi verður meira úr þessu núna!

Við skruppum í fjölskylduferð til Þýskalands á laugardaginn. Keyptum 576 dósir af drykkjum + nokkrar flöskur. Tökum það sérstaklega fram að lang stærstur hluti dósanna inniheldur óáfenga drykki - bara svo þið farið ekki að hafa áhyggjur af heimilislífinu hér.

Nú aðalfréttirnar eru kannski þær að við komum heim um jólin.............. en bara rétt yfir jólin!
Prófin eru hjá okkur báðum í janúar!!!!!!!!!!!!!!
Helgi Kristinn byrjar á fullu í prófum 3. janúar og á sama tíma á fréttaritarinn að skila ritgerð sem er til prófs.
Það þýðir að við fljúgum til baka 29. desember og verðum því hér í DK um áramótin.
Við komum því heim laugardagskvöldið 22. desember og förum aftur 29. desember.

Bestu kveðjur,

Nov 7, 2007

Gamlar (en góðar) fréttamyndir

Knattspyrnumót í lok september - Jóel Kristinn og félagar í Viby Fodbold
Jóel Kristinn alveg að ná boltanum, í hvítri treyju og bláum buxum! Þetta er samt ekki Fram-búningur þó svo að afi og amma á Nesinu yrðu stolt af því!
Eftir leikina takast leikmenn í hendur og segja: "tak for kampen" - frekar sætt!
Viby Fodbold með medalíurnar, Jóel Kristinn lengst til vinstri (ef einhver skyldi ekki þekkja hann lengur)
Stoltir leikmenn Viby Fodbold
(Snúa höfði) Fannar Ingi að skoða medalíuna sem hann vann sér inn með því að gráta fögrum tárum!

Nov 2, 2007

Plötufréttir - Ef væri ég ...

Það hefur verið pínu skrítin tilfinning fyrir fréttaritara að fylgjast með útkomu nýju plötunnar hennar Regínu úr allri þessari fjarlægð. Hingað til hef ég verið búin að heyra allt efnið áður en það er gefið út, búin að heyra demo og fylgjast með ferlinu þannig að þegar plöturnar (sérstaklega sú fyrsta) koma út er bara hlaupið út í búð og keypt eintök í von um að plöturnar byrji að rúlla upp sölulistana.

Nú er staðan allt önnur - ég er bara hérna í Danmörku og hef ekkert heyrt og ef ekki væri netið þá veit ég ekki hvað!
Ég var auðvitað rosalega spennt að heyra plötuna. Í fyrsta lagi af því að Regína er sjálf að semja og því uppáhaldslögin mín á síðustu plötu voru einmitt lögin sem Kalli Olgeirs samdi, Ljósin komu, Draumur um dag og Hvað tekur við? En á þessari plötu semja Regína og Kalli Olgeirs lögin saman. Ótrúlega spennandi.

Ég auðvitað rauk inn á tonlist.is og keypti plötuna og er núna á fullu á hlusta og njóta.
Flest lögin eiga það sameiginlegt að vera yndisleg stemning, þægileg hlustun og oft skemmtilegt "grúf" í hljómsveitinni.
Ég er strax við fyrstu hlustun kolfallin fyrir nokkrum lögum. Lagið Alveg ein, er ótrúlega melódískt og svona "útvarpsvænt" ég var farin að raula með í lok lagsins. Mér finnst gaman að hlusta á Síðan þú komst, þar er textinn ekki beint ljóðrænn heldur svona eins og Regína sé að segja frá og það er allt of langt síðan við höfum spjallað svo ég fékk svona "söknuðar-tilfinningu" þegar ég hlustaði á lagið.
Ég gæti náttúrlega sagt eitthvað misgáfulegt um öll lögin en það eru kannski engar fréttir hvað mér finnst um lögin. Ég vil samt nefna titillagið Ef ég væri, frábært lag sem sýnir fílinginn í röddinni. Í augnablikinu er ég að hlusta á Líttu aldrei við og verð að viðurkenna að það finnast nokkur tár ..................... ógeðslega er ég að verða væmin.............
Lokalag er líka svona fyrir minn smekk og Engill minnir mig bara á hvað það er langt síðan ég hef hitt Anítu

Annars bara allir út í búð að versla, svo fáið þið annað eintak frá okkur í jólagjöf..... hehe
Til hamingju Regína mín!

Bestu kveðjur,
Lóa BJörk

Oct 31, 2007

Afmælisfréttir

Fannar Ingi Helgason er orðinn 3 ára. Drengurinn fékk eiginlega 4 daga afmælisveislu með gleði, gjöfum og góðum (g)veitingum.
Þegar drengurinn vaknaði upp á föstudagsmorgni voru afi og amma á Selfossi mætt og þótti hinu tilvonandi afmælisbarni og bróður hans ekki slæmt að fá eitt knús áður en haldið var á leikskólann. Ekki versnaði það þegar afi og amma komu með að sækja og það snemma! Nú eins og hefð er þegar ömmur og afar koma í heimsókn var haldið í miðbæinn þar sem bærinn var skoðaður, smá búðaráp og matur. Síðan fór eftirmiðdagurinn í afmælisundirbúning

Á afmælisdaginn (laugardag 27.10) hófst dagurinn með smá kökubakstri en fljótlega voru fengin lánuð hjól fyrir "gamla" liðið og farið í klukkutíma hjólreiðaferð í kringum vatnið.
Afmælisveislan hófst klukkan 15:00 en þetta var tvöföld veisla því Kristján (á 203) varð 2 ára á föstudaginn og slógum við því saman í góða veislu fyrir báða strákana. Það var troðfullt hús og voða gaman.
Drengurinn fékk mikið af dóti og er alsæll með allt saman! Stoltastur er hann þó af því að vera kominn í nýtt rúm, svona með engum rimlum............ enda tími til kominn, barnið orðið þriggja ára!

Á sunnudag fengum við bílaleigubíl til að geta keyrt með ömmu og afa um svæðið. Við sýndum þeim ströndina og Bambaskóginn fórum upp á Himmelbjerget og í Randers Regnskov. Um kvöldið elduðum við svo góðan mat enda síðasta kvöld áður en gestirnir góðu héldu aftur heim á Selfoss.

Á mánudag var svo afmælisveisla á leikskólanum. Búið var að setja dúk á borð og kveikja á 3 kertum þegar við komum með heimabakaða pizzasnúða fyrir alla krakkana á leikskólanum. Nei! Ekki fyrir alla krakkana............... við íslensku foreldrarnir höfðum ekki áttað okkur á því að múslimsku börnin á leikskólanum máttu auðvitað ekki fá snúðana því höfðum sett skinku á þá!!! Okkur þótti þetta auðvitað mjög leiðinlegt en leikskólakennararnir redduðu mandarínum fyrir þau í staðin.
Þetta er auðvitað spurning, það hefði verið ótrúlega lítið mál fyrir okkur (ef við hefðum áttað okkur á þessu) að sleppa skinkunni eða búa til eitthvað annað - en á móti kemur spurningin á að sleppa skinkunni á pizzunni hér í landi svínakjötsins? Verður fólk sem flytur til Danmerkur ekki bara að taka tillit til þess að hér borðar fólk svínakjöt á pizzuna? En þetta eru bara börn 3 -5 ára og þau vilja auðvitað fá veitingar í afmælinu eins og hin börnin................. ég sker bara niður ávexti í næsta afmæli, þá ættu öll trúarbrögð að geta verið með!

Aðrar fréttir tengjast allar mat því með Selfyssingunum fengum við allt það mikilvægasta! Lambakjöt sem borðað var með bestu lyst á mánudagskvöld og íslenskan fisk sem borðaður var í gærkveldi auk þess sem nú eigum við íslenskar súkkulaðirúsínur, lýsi og Hunt BBQ-sósu. Það eru aldeilis gleðitímar framundan!

Bestu kveðjur,

Oct 25, 2007

Aukafréttatími

Þessi aukafréttatími er í tilefni tveggja merkilegra frétta.
1. Jóel Kristinn er í ströngu námi á leikskólanum. Í gær fór hann með elstu krökkunum á leikskólanum í strætó í bíó. Þar lærði hann að drekka kók! Hingað til hefur barnið bara drukkið djús eða mjólk við hátíðleg tækifæri svo sem afmæli, bíóferðir eða annars konar matarveislur en í leikskólaferðinni var boðið upp á popp og kók (sem flokkast líklega undir nauðsynleg undirstöðu atriði í því að kunna að fara í bíó). Jóel Kristinn þáði auðvitað kókið með þökkum! Aðspurður um hvort þetta hafi verið gott svaraði hann ákveðinn, játandi. Reyndar hafi þetta verið dálítið sterkt en vinur hans var með vatn og hann fékk bara sopa hjá honum og þá var kókið mjög gott!!!

2. Kristín Hrefna Halldórsdóttir 23 ára "tengdadóttir" forsætisráðherra hefur verið ráðin framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
http://www.eyjan.is/ordid/
Fyrir þá sem aðeins lesa fréttirnar má upplýsa að Kristín Hrefna er auðvitað miklu miklu meira en "tengdadóttirin.is" hún er framkvæmdaforkur frá A - Ö. Hæfileikarík, dugleg, skemmtileg, jákvæð....... Við sem hana þekkjum vitum að hún hefur augljóslega verið ráðin í stöðuna af eigin verðleikum. Það er svo sem eðlilegt að fjölmiðlar sýni fjölskyldutengslunum áhuga en við vonum að fólk fái tækifæri til að meta hana af eigin verðleikum fyrst og fremst. Nú er þessari hallelúja frétt um ágæti Kristínar lokið. Kristín til hamingju með starfið!

Bestu kveðjur,

Oct 23, 2007

Fréttir eftir efterårsferie

Jæja, þá er allt komið á fullt aftur hér í Beykiskóginum. Ekkert afslappelsi meir (þangað til næst alla vegana).
Viðskiptafræðineminn er að fara að skila fyrstu ritgerð vetrarins. Hún fjallar um efnahagsmál í Tyrklandi - gæti ekki verið meira spennandi!!! Áhugasamir um efnahagsmál Tyrklands ættu að geta leitað til Helga Kristins í lok vikunnar - þegar hann verður orðinn sérfróður á þessu sviði.
Kandidat - studenten i matematikkens- didaktik er rétt kominn inn úr dyrunum eftir lestarferð og kennslustund í Kaupmannahöfn (eins og langflesta þriðjudaga). Í dag gerðust þau undur og stórmerki að hinn alíslenski og ekki dönskumælandi nemi bara talaði og talaði - á dönsku (eða svona næstumþvídönsku) í umræðunum í tímanum. Fram til þessa hefur neminn (sem einnig er fréttaritari hér) verið hin þögla týpa í kennslustundunum en í dag gat Íslendingurinn bara ekki þagað meir (rétt upp hönd sem er hissa!!!!!!!).

Jóel Kristinn er farinn að segja slatta á dönsku og er alltaf að prófa. Í síðustu viku voru þeir bræður "einir" sem sagt án hinna íslensku strákanna á leikskólanum í einn dag og eftir daginn flutti pædagoginn á deildinni þeirra okkur þær fréttir að Jóel hefði bara sagt fullt m.a. "min mor kommer klokken tre" sem er alveg fimm orða setning.
Fannar Ingi er alltaf að spyrja hvernig hitt og þetta sé á dönsku og prófar stundum. Oft þegar hann prófar að tala dönsku verður hann voða feiminn á eftir - algjört krútt!
Þetta sem sagt kemur hjá þeim endanum þó að þeir leiki sér bara á íslensku og bara við íslensk börn bæði hér heima og á leikskólanum..............

Framundan er skemmtileg helgi. Fannar Ingi verður 3 ára á laugardaginn og þá verður auðvitað veisla. Vinum og fjölskyldu er að sjálfsögðu boðið - hehe. Reyndar fáum við gesti að heiman því Ingi afi og amma (Anna)Þóra eru væntanleg á fimmtudagskvöldið. Þau taka því þátt í veisluhöldunum með hinum Íslendingunum hér í Beykiskóginum.

Með bestu kveðju til ykkar allra

Oct 21, 2007

Fréttamyndir frá miðjum september

Hér eru nokkrar myndir, þetta flokkast nú eiginlega undir gamlar fréttir. Grill á ströndinni, fjölskylduferð til Köben og ein af bræðrunum héðan frá Árósum. Allar myndirnar eru teknar um miðjan septmeber.
Verið að grilla pylsur og ströndinni. Pylsubrauðin eru ekki eins og við þekkjum heima á Íslandi heldur svona frönsk með gati.
Frændurnir Pétur Orri og Jóel Kristinn í hinu eina sanna Tivoli í Kaupmannahöfn.
Margrét eða "Magga móða" á leið í rússíbana með Tómas Atla. Þess má geta að ferðin gekk mjög vel og móður og barni heilsast vel á eftir.... hehehe
Bræðurnir á göngu í einum að görðunum hér í Árósum. Danirnir eru ekki eins uppteknir af þéttingu byggðar og "sumir" aðrir og skilja því eftir græn svæði hér og þar í bænum, meira að segja í miðbænum!!!!
Fannar Ingi í hringekjunni í Tivoli. Þrátt fyrir að vera orðinn vanur maður í rússíbanaferðum er alltaf jafn gaman að fara á hestbak í hringekjunni. Fyrir aftan hann sést glitta í Tómas Atla sem líka var á hestbaki.
Bless í bili,
Næstu fréttamyndir ættu svo að sýna fótboltamanninn í keppni.

Oct 18, 2007

Efterårs -"frí"

Það er helst að frétta að hér í DK er efterårsferie þessa vikuna. Frí í skólunum en samt ekki. Fannar og Jóel fóru á leikskólann mánudag - miðvikudag á meðan foreldrarnir unnu í skólaverkefnum. Í dag á fimmtudegi tókum við okkur öll frí og fórum í Kattegatcenter að skoða hákarla, seli og hina ýmsu fiska. Þetta var bara alveg frábær dagur sól og blíða mest allan daginn en það var nú eiginlega skítkalt, samt 8 - 10 gráður, brrrrrr.

Til að gleðja Kristínu Hrefnu má nefna að þegar við komum heim elduðum við okkur góðan mat, kveiktum á kertum og svona.

Húsmóðirin á heimilinu fékk hjól í gær. Forláta TREK fjallahjól með dempara og alles..... Húsbóndinn og yfirkokkur heimilisins tók að sér að prufukeyra hjólið í hjólatúr með nágrönnunum. Þeir hjóluðu að Moesgaard-ströndinni og þar eftir stígum meðfram allri ströndinni og niður í miðbæ og svo þaðan heim. Hjólið reyndist ótrúlega vel en hjólreiðamaðurinn var rennsveittur eftir átökin enda dágóður spotti sem hjólaður var á ca. 70 mín.
Fannar Ingi fékk reyndar líka hjól í vikunni, í fyrirframgreidda afmælisgjöf. Hjól með hjálpardekkjum! Stefnan er nú samt að kaupa stól á nýja fjallahjólið fyrir Fannar svo hægt verði að fara í aðeins lengri hjólreiðatúra.

Bestu kveðjur úr Beykiskóginum,

Oct 15, 2007

Hjólafréttir Jóels

Fréttaritari vill tilkynna það sérstaklega að Jóel Kristinn Helgason getur hjólað án hjálpardekkja! Hingað til hefur hjólreiðakappinn ekki verið sérstaklega viljugur að reyna (hann vill sko helst bara gera það sem hann kann og getur) en í gær hjólaði drengurinn sjálfur fram og til baka um götuna án aðstoðar.

Við höfum það bara gott áttum góða helgi. Á föstudagskvöld var Kulturnat í Árósum og löbbuðum við og kíktum á barnadagskrá í ráðhúsinu. Hittum þar skólafélaga Helga úr viðskiptafræðinni og löbbuðum með hans fjölskyldu og ætluðum að fá okkur að borða. Það var nú ekkert svo einfalt - allt troðfullt þannig að við enduðum bara á McDonalds.

Á laugardag fórum við með tveimur nágrannafjölskyldum okkar í Den gamle by. Veðrið var alveg frábært, glampandi sól og blíða (eins og alla helgina - og er enn!) og við löbbuðum um og skoðuðum gömlu húsin. Strákarnir fóru líka í leiktæki frá því í eldgamla daga (svona þegar langamma (amma Lóa eða jafnvel amma Stína voru ungar!). Fengum svo þriðju nágrannafjölskyldu okkar í heimsókn þegar við komum heim og borðuðum með þeim. Gaman að eiga svona mikið að góðum nágrönnum!

Á sunnudeginum var sett met í rólegheitum. Slappa af, baka köku, tölvuleikir, úti að leika, inni að leika, allt í rólegheitunum. Ótrúlega notalegt.
Það eru þó fréttir að í kvöldmatinn í gær var lax. Það er í fyrsta sinn síðan við komum hingað 1. ágúst sem við fáum eitthvað sem líkist fiski. Kokkurinn á heimilinu gerði máltíðina auðvitað snilldarlega og kannski verður bara fiskur aftur í matinn hér í DK.

Ingi afi á Selfossi átti afmæli í gær, er bara ungur karlinn - ennþá. Menn sem klífa fjöll og firnindi í hverri viku (og öll hærri en Himmelbjerget) geta nú varla flokkast undir að vera gamlir þó þeir séu á sjötugsaldri (hmmmm sjötugsaldri - getur það verið!!!!!!!!!!!)
Til hamingju með daginn, Ingi afi!!!

Bestu kveðjur,

Oct 9, 2007

Fréttamyndir

Þá eru hér nokkrar myndir, svona til að byrja með. Meira að sjálfsögðu væntanlegt von bráðar. Í næsta myndaholli má t.d. búast við myndum af fyrsta fótboltamótinu hans Jóels Kristins og Kaupmannahafnarferð. En hér kemur svona smá............. það gleymdist reyndar að snúa þessari fyrstu.............. en það er allt í lagi.

Hér eru flottustu bræðurnir - þið verðið bara að halla hausnum til að skoða myndina!!!
Hér er Jóel Kristinn á fyrstu fótboltaæfingunni sinni í ágúst - í Man Utd. búning
Bræðurnir með sykurhúðuð epli á miðaldarfestival í Horsens
Dauðinn og feðgarnir á miðaldarfestivalinu í Horsens
Með nágrönnunum Hildi, Magnúsi (7 ára) og Halldóri á miðaldarfestivalinu

Fréttir frá ömmuheimsókn

Nú er það helst í fréttum að amma Guðlaug er búin að koma í heimsókn og leggja formlega blessun sína yfir búskapinn og umhverfið hér í Bøgeskovparken.

Þegar fjölskyldan fær góða gesti er er ekkert verið að hanga í aðgerðarleysi. Strax við komuna á laugardagskvöldið var ráðist í “gourmet” eldamennsku “a la” Helgi Kristinn. Þess má geta að Helgi var drifinn í eldhúsið beint af golfmóti þar sem spilað var á fínum velli í ótrúlega góðu veðri! Fyrir áhugasama þá gekk spilamennskan alveg ágætlega þó drivin hafi ekki hrokkið í gang fyrr en á síðustu holunum.

Á sunnudeginum fórum við öll í Randers Regnskov sem er yfirbyggður dýra- og plöntugarður í um 30 – 40 mínútur frá Århus. Þarna er búið að búa til svæði með dýrum og gróðri frá Suður Ameríku, Asíu og Afríku. Það er sko alveg hægt að mæla með þessari skemmtun. Á bakaleiðinni keyrðum við meðfram ströndinni og enduðum á ströndinni “okkar” Moesgård-ströndinni. Þar vildi svo ótrúlega skemmtilega til að tvær aðrar fjölskyldur úr götunni voru mættar á sama tíma (eina fólkið fyrir utan okkur á allri ströndinni). Þórunn og Jói með börnin sín þrjú og Palli og Hjördís með strákana tvo. Þarna fékk amma Guðlaug óvænt tækifæri til að kynnast aðeins 2/5 hluta íslensku nágranna okkar í Beykiskóginum. Nú eins og svo oft áður var góður matur á boðstólnum um kvöldið, svona gestinum ti l heiðurs.

Á mánudeginum fékk amma Guðlaug að sjá leikskóla strákanna og miðbæ Árósa. Til að koma lesendum á óvart þá var haldið heim og eldaður góður matur um kvöldið!!!

Næst eru það svo bara amma og afi á Selfossi sem mæta á svæðið (í lok mánaðarins) en það eru auðvitað allir spenntir að fá fleiri svona afa og ömmur í heimsókn.
Bedste hilsner,

Oct 4, 2007

Fréttir fyrir óþolinmóða

Í tilefni kvörtunar frá óþolinmóðum lesanda verður hér skellt inn smá aukafréttatíma um nánast ekki neitt.
Þegar lítið er að frétta er lítið að skrifa um en það dugar ekki óþolinmóðum lesendum og þá sérstaklega óþolinmóðum háskólanemum sem þurfa að borða heima hjá sér þar sem bestu ættingjarnir eru fluttir til útlanda!!! (Kristín mín þú ert velkomin í mat hvenær sem er!)

Nú hér er bara lært og leikið. Allir hegða sér vel þessa dagana - eins og það sé nú fréttnæmt!
Fannar Ingi hefur gerst sérstakur áhugamaður um hafragraut í morgunmat.
Jóel Kristinn er stilltur og prúður og búinn í hegðunarátakinu með góðum árangri.
Helgi Kristinn fer í skólann, lærir, leikur sér......... við börn og fullorðna.
Lóa Björk verður að gjöra svo vel að fara að læra þessa dönsku - og það strax!

Nú eins og sjá má er lítið að frétta.................... myndirnar eru enn á leiðinni. Nú til að upplýsa lesendur um stöðu myndamála þá eru myndirnar í tölvu húsbóndans sem fer með honum í skólann á daginn. Á kvöldin er tölvan í notkun í þágu lærdóms eða skemmtunar húsbóndans en er þess á milli læst með aðgangsorði sem fréttaritari kann ekki............ það er því ekkert einfalt mál að komast að til að skella inn myndunum........... þessu verður nú samt reddað !!!!

Nú að lokum má segja frá því að amma Guðlaug er væntanleg í heimsókn á laugardaginn og þá fær hún tækifæri til að samþykkja heimilishaldið og nánasta nágrenni.

Bestu kveðjur,
"ekki"fréttaritarinn

Sep 25, 2007

Fótboltafréttir

Í fréttum er þetta helst að á sunnudaginn keppti Jóel Kristinn Helgason, 5 ára Íslendingur fyrir hönd Viby í lokamóti sumarsins Jysk-3.
Drengurinn stóð sig með afbrigðum vel, var nokkrum sinnum nálægt því að skora og kom í veg fyrir ótal mörk með efnilegum varnartöktum.
Mótið var haldið í um 35 km fjarlægð frá heimabænum, Viby en öll fjölskyldan var virk í stuðningsliðinu og skemmti sér konunglega. Mikið fjölmenni var á vettvangi en fjölmörg lið tóku þátt og spilaði drengurinn 3 leiki hver öðrum skemmtilegri fyrir áhorfendur og aðra aðdáendur keppenda.
Að móti loknu fengu keppendur verðlaunapening um hálsinn en þá kom reyndar smá babb í bátinn þar sem yngri bróðir leikmannsins umrædda, Fannar Ingi grét fögrum tárum vegna ósanngirni í úthlutun verðlaunapeninga. Þjálfari Viby -liðsins brást skemmtilega við og útvegaði eina medalíu til viðbótar og verðlaunaði litla bróður fyrir besta stuðning dagsins!
Hélt fjölskyldan því heim með tvo verðlaunapeninga og fjögur bros á vör. Þess má geta að veðrið var vægast sagt gott, sól og um 20° hiti sem okkur Íslendingum þykir bara fínt nú í lok september.
Svo fréttaritari haldi áfram að lofa upp í ermina á sér, þá eru framundan myndir frá liðnum vikum svo fylgist spennt með.
Fótboltakveðjur,

Sep 23, 2007

Gestafréttir

Í fréttum er þetta helst:
Við erum búin að fá fyrstu gestina okkar að heiman!
Á miðvikudag fengum við skemmtilega gesti í kaffi. Erna Niluka og kærastinn, hann Gulli, komu í heimsókn en þau voru í vikuheimsókn hjá fjölskyldu Gulla í Horsens. Alltaf jafn gaman að hitta Ernu (og auðvitað Gulla líka) en vonandi stoppa þau lengur næst þegar þau koma til DK.

Á fimmtudagskvöldið komu svo fyrstu næturgestirnir, afi Jóel og amma Stína. Þau voru búin að vera í viku í Köben og nú var röðin komin að Árósum til að taka út heimilishaldið og umhverfið í Bogeskovparken.
Á föstudaginn sýndum við ömmu og afa miðbæinn hér í Árósum og gáfum þeim svo gott að borða um kvöldið en á laugardaginn fórum við saman að borða Frokost í bænum og fórum svo í Bambaskóginn og á ströndina að grilla pyslur enda var bara hið besta veður.
Það voru nú allir á heimilinu ánægðir að fá svona góða gesti að heiman og ekki verra að heimilishaldið og umhverfið var samþykkt af gestunum þannig að við getum búið hérna róleg áfram.

Þið megið svo búast við fótboltafréttum mjöööög fljótlega
Med venlig hilsen

Sep 18, 2007

Saumafréttir!!!

Já, trúið mér, fréttapistill dagsins fjallar um saumaskap. Pistillinn verður að sjálfsögðu ekki langur - bara rétt í samræmi við magn saumaskapsins.
Þannig er að efri hæðin hjá okkur hefur verið gardínulaus frá flutningum, teppi fyrir glugganum í hjónaherberginu, pappi hjá strákunum og ekkert í gestaherberginu/skrifstofunni. Nú er von á gestum og þá þarf að setja fyrir gluggann svo nágrannarnir þurfi ekki að horfa upp á gestina vakna illa greidda og óbaðaða á morgnana.......... nú eða hátta á kvöldin!
Þá er komið að fréttunum!
Húsmóðirin á heimilinu á saumavél.......... hún (eða réttara sagt ég) tók fram saumavélina og saumaði tvær gardínur á bara brot úr kvöldstund. Ég held nú bara að amma Benta hefði orðið stolt......... Handbragðið er kannski ekki eins og hjá ömmum mínum eða Völu Sig en þetta tókst með viljann að vopni!

Með saumakveðju,

Sep 17, 2007

Kaupmannahafnarpistill

Fjölskyldan hélt í langferð um helgina. Við skruppum til kóngsins Köbenhavn snemma á laugardagsmorgun og fórum á ættarmót! Það eru nú ekki allir sem skreppa á ættarmót til Köben en það gerðum við og skemmtum okkur vel.
Fyrir þá sem hafa áhuga á ættfræði þá á amma Stína (Kristín Orra) föðursystur sem hafa verið búsettar hér í áratugi og eiga þær eiginmenn, börn og barnabörn hér. Nú er sem sagt öll fjölskyldan hennar ömmu Stínu hér í Danmörku.
Við hófum leikinn í fínni veislu á veitingahúsi í Nyhavn, þangað sem við rötuðum beint með aðstoð nýja GPS-tækisins hans Helga (eða okkar allra) en svo fórum við í íbúð sem afi Jóel og amma Stína eru með í Nörrebro, þar voru líka Jóel frændi (Jóel bróðir) auk þess sem Margrét og Arnar komu auðvitað með Pétur Orra og Tómas Atla með lestinni frá Stokkhólmi frábært að hitta einn hluta fjölskyldunnar sinnar aftur.
Strákarnir voru auðvitað alsælir að fá að hittast og leika sér og þeir litlu Fannar og Tommi náðu saman í fyrsta sinn og brostu auðvitað út að eyrum!

Á sunnudeginum fóru afi og amma svo með barnahópinn (þ.e. okkur öll) í Tivoli - hið eina sanna. Það var hlaupið á milli tækja fram á kvöld.
Fannar Ingi hélt auðvitað áfram að sýna snilli sína í tækjunum setti hendur upp í loft, hló og skríkti í hverri ferð.
Jóel Kristinn hefur líka mjög mikinn áhuga á tívolí-tækjum, er alvarlegri á svip á meðan rússíbaninn þýtur áfram en um leið og hann stoppar brosir hann út að eyrum og leitar að næsta tæki.
Fullorðna fólkið stóð sig einstaklega vel í þessari Tivoli-ferð. Amma Stína og afi Jóel fengu það skemmtilega hlutverk að sinna barnabörnunum þegar stóru börnin þurftu að leika sér. Við skelltum okkur öll (Margrét samt ekki alveg alltaf) í fullorðinstækin, í rólurnar (sem fara ansi mikið hátt), í fallturninn (sem var alveg frábær) og svo auðvitað í drekann þar sem húsmóðirin í Beykiskóginum fékk hláturskast þar sem hún og hinir skemmtu sér svo vel.
Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt allt saman - og fyrir allan aldur!

Um áttaleytið var svo ekið af stað heim til Árósa, strákarnir steinsofnuðu á fyrstu mínútum ökuferðarinnar og voru bornir sofandi inn í rúm hér heima.

Fyrir þá sem eru að bíða eftir myndabloggi þá er það rétt handan við hornið. Ritari fréttabloggsins fær fljótlega lánaða fartölvu eiginmannsins þar sem ekki tekst að koma myndunum inn á fréttatölvuna sjálfa.

Með bestu kveðju,

Sep 10, 2007

Engar fréttir eru góðar fréttir!

Nú er staðan þannig að það er eiginlega ekkert að frétta. Þessi fréttapistill verður því um ekki neitt!

Þessu fréttaleysi átti að redda með því að skella inn nokkrum myndum en þá vildi tölvan ekki taka við myndunum úr myndavélinni og þrátt fyrir að á heimilinu búi maður sem bæði er sérstaklega flinkur í tölvum og myndavélum þá eru myndirnar enn fastar í myndavélinni - sjáum til kannski reddast þetta fljótlega.

Skemmtanalífinu í götunni er bróður/systurlega skipt á milli kynja. Strákarnir í götunni (þeir íslensku) skelltu sér á djammið á föstudagskvöld. Fóru í Go-Kart, póker og á pöbbana í miðbænum. Stelpurnar fóru á laugardagskvöld, hittust í heimahúsi og spiluðu actionary með miklum tilþrifum.
Strákarnir (litlu) skemmta sér svo bara stanslaust alla daga.

Nú byrjar Naturholdet hjá Jóel Kristini á morgun. Hann þarf að mæta tímanlega á leikskólann á þriðjudögum og pakka í bakpoka, fötum og nesti fyrir daginn. Einnig fær hann drykkjarbrúsa sem hann á að fylla með vatni og taka með. Hann er kominn með dagskrá fyrir næstu 7 - 8 þriðjudaga, ferðir hingað og þangað, voða spennandi!
Það verður svo spennandi að sjá hvað Fannar Ingi gerir þegar Jóel Kristinn verður farinn í ferðinar sínar................

Annars erum við bara í því að reyna að læra eitthvað í skólunum okkar og æfa okkur á nýja GPS-tækið!

Bestu kveðjur úr Beykiskóginum

Sep 5, 2007

Fréttir af skólagöngum

Staðan á skólagöngu fjölskyldunnar er eftirfarandi:

Helgi: Skólinn leggst alveg gríðarlega vel í drenginn! Er enn að vinna í því að fá eitthvað metið úr Háskólanum á Akureyri, einhverjar einingar líklega í höfn, eitthvað nýtist ekki og annað kemur í ljós síðar.......... hmmmm. Staðfesting eftir nokkrar vikur en samt þarf að sækja strax um ef hann ætlar að fá inn kúrs í staðinn þetta er allt saman frekar flókið og óljóst en svona er þetta bara.
Í bekknum eru 4 - 5 Íslendingar og svo allra þjóða kvikindi, allt fer fram á ensku sem leggst vel í námsmanninn.

Lóa Björk: Fór til Köben á mánudag á kynningardag. Engin bjór, engin söngur eða leikir eins og hinir Íslendingarnir í götunni þekkja af kynningardögunum í sínum skólum. Engir útlendingar eins og hjá hinum Íslendingunum. Bara ljóshærðir, skolhærðir og brúnhærðir Danir og þeir sem dekkstir eru, eru bara nýkomnir heim af sólarströndinni! BARA töluð danska og það á miklum hraða!
Fékk 1 1/2 tíma fyrirlestur um stefnu skólans, uppeldis- og kennslufræðimál. Eftir það var síðan 1 1/2 klst kynning á náminu þar sem hinn hraðmælti umsjónarmaður námsins fór yfir skipulag og námsmat vetrarins á miklum hraða. Þurfti að kynna mig fyrir hópnum á dönsku, segja frá bakgrunni og væntingum - á dönsku.........
Fór í kúrsinn sem kenndur er hér í Árósum á þriðjudag leist mjög vel á kennarann sem talar alveg þokkalega skiljanlega dönsku og mjög vel á hópinn sem er að stórum hluta mastersnemar í dönskukennslu (þeir ættu kannski að æfa sig á mér!!!!!!!!). Frábært skipulag á þessum kúrsi sem er að hluta til fjarnám, fáum fyrirlestra frá Kaupmannahöfn með videóupptökum á netinu og í stað umræðutíma erum við öll komin með bloggsíður þar sem við hugleiðum efnið og kommentum á hvort annað......... þannig að Lóa Björk er með bloggsíðu um námskrár- og kennslufræði á DÖNSKU!!!! - áhugasamir: NEI síðan er sko lokuð almenningi!!!
Á morgun er svo önnur ferð til Kaupmannahafnar - brottför úr Beykiskóginum kl. 05:45, strætó kl. 06:02 og lest kl. 06:27.

Jóel Kristinn: Sem einn af þessum stóru, í leikskólanum er Jóel Kristinn frá og með mánudeginum hluti af Naturholdet og fær eigin bakpoka og drykkjarflösku. Hvað Naturholdet er kemur í ljós síðar en nafnið bendir til þess að þetta sé eitthvað ótrúlega heilbrigt og umhverfisvænt!

Fannar Ingi: Allt að koma, er bara hættur að væla yfir því að vera skilinn eftir á leikskólanum og er farinn að vera jafnlengi og stóri bróðir eða ca. frá 9 - 15. Drengirnir verða komnir upp í fullan dag í næstu viku enda mikill lestur framundann hjá foreldrunum!

Skólakveðjur,

Sep 4, 2007

Helgarfrí í Viby

Nú svo að þið séuð nú öll nokkuð vel upplýst um hvernig við eyðum tímanum hér í DK þá fer hér á eftir smá umfjöllun um helgina hjá okkur fjölskyldunni.

Nú helgarnar byrjar alltaf með föstudagskvöldi en þá var bara skroppið í næsta hús og spilað með smá stuðningi rauðvíns og fleira góðgætis, hentugt að eiga svona fína nágranna hér út um allt!

Á laugardagsmorgun brunaði húsbóndinn með vini sínum til Þýskalands þar sem fyllt var drykkjarbirgðir tveggja íslenskra fjölskyldna. Það skal sérstaklega tekið fram að laaaaang mest var keypt af gosi og meira að segja Pepsi Max, svo nú geta pabbi og Krístín alveg farið að koma í heimsókn. Á meðan á innkaupaleiðangrinum stóð tók húsmóðirin á heimilinu húsmæðrahlutverk sitt mjööög alvarlega og bakaði sínar fyrstu lummur.
Amma Benta bjó alltaf til heimisins bestu lummur sem ég (LBJ) fékk glóðvolgar í kaffitímum alla mína æsku, uppskriftirnar hennar voru nú þannig að það var bara slumpað á magnið af hinu og þessu en þrátt fyrir það tókst þessi lummutilraun bara vel. Jóel Kristinn var allavegana gríðarlega sáttur og borðaði óteljandi lummur, svona þangað til allt var búið!

Á sunnudeginum hélt helgarfríið auðvitað áfram. Helgi Kristinn og Fannar Ingi fóru saman í hjólatúr og týndu nokkur epli sem dottið höfðu af trjánum hér í nágrenninu (samt ekki inn á neinum einkalóðum!) og svo fórum við fjölskyldan með eplin í Bambaskóginn og gáfum bömbunum. Eftir göngutúr í Bambaskóginum fórum við á ströndina með einnota grill, pylsur og pylsubrauð með gati og grilluðum og lékum okkur.

Jamms, þetta var dæmi um helgarfrí í Viby.
Kv.

Sep 2, 2007

Síðasta sögustundin

Hér á eftir fyrir síðasta sögustundin sem tileinkuð er upprifjun á síðari hluta ágústmánaðar.
Eftir að bílaleigubílnum var skilað tóku við 5 bíllausir dagar! Já, í upphafi var bara svolítið notalegt að vera bíllaus t.d. var veitt rauðvínsglas (í eintölu) á mann með hádegismatnum og svoleiðis lúxus.

Strákarnir byrjuðu á leikskólanum, Gröften þann 16. ágúst og snerust næstu dagar (og vikur) eiginlega um að aðlaga prinsana. Jóel Kristinn stökk jú bara inn og byrjaði að leika en eins og fram hefur komið hefur þetta tekið lengri tíma hjá Fannari Inga!

Við prófuðum strætó! Það var bara talsverð upplifun, eitthvað alveg nýtt! Strákarnir skemmtu sér konunglega svona svipað og í meðal góðum rússíbana. Við fórum niður í miðbæ, röltum um Strikið og fengum okkur snarl við ánna og fórum svo í lestarferð heim. Það var enn meiri upplifun fyrir drengina, líklega álíka og stór rússíbani - að þeirra mati.

Bíllinn okkar kom til landsins á föstudegi en við gátum ekki fengið hann afhentan fyrr en eftir hádegi á mánudegi. Konan í símanum gaf þá skýringu að hún þyrfti að vinna yfirvinnu ef þetta ætti að nást á föstudeginum! ............... svona svipað þjónustustig og konan skólanum mínum sem gat ekki svarað mailinu mínu af því að hún fékk svo mörg mail................ og konan á pósthúsinu sem ég fór á um daginn sem ætlaði að hætta að faxa fyrir mig afþví að það var komið matarhlé hjá henni......... Ég legg til að næst þegar kennari með stóran bekk fær próf eða ritgerðir frá nemendum skili hann bara fyrstu 15 til baka og tilkynni hinum að hann hafi ekki getað farið yfir öll prófin því þau hafi verið svo mörg..............

Jæja, nóg um þjónustustigið hér í DK. Síðasta vika ágústmánaðar var tíðindalítil hjá flestum fjölskyldumeðlimum.
Jóel Kristinn: Leika, leika, leika og leika. Smá hegðunarátak þar sem það var full gaman að leika á köflum en það er allt í góðu núna.
Fannar Ingi: Æfa sig að vera á leikskólanum fram að hádegi, tókst oftast. Annars bara að leika sér í rólegheitunum úti og inni eða bara að vera með mömmu sinni. Vinsamlegast takið samt eftir að Fannar Ingi er hættur með bleiu fyrir 2 vikum síðan, bæði á nóttu og degi og stendur sig eins og hetja og rúmlega það.
Lóa Björk: Lagðist í rúmið, lasin. Á milli ferða til og frá leikskólanum var allt í rólegheitunum því þetta er ekki góður tími til eyða í margra daga lasleika. Heilsan er að koma, svona fyrir þá sem hafa einhvern áhuga á að fylgjast með heilsufari húsmóðurinnar.
Helgi Kristinn: Fyrsta vikan í skólanum. Kynningarvika með bjór og helstu upplýsingum um skólann og námið framundan. Hápunktur vikunnar var þegar bekkurinn lék kaktusa í Western Party í Botanisk have (som er ved siden af skolen og Den gamle by). Alvaran tekur við í næstu viku.

Jæja, nú hefur ágústmánuður verið reifaður í nokkrum pistlum og hér eftir verður bara sagt frá hlutunum jafn óðum eins og á alvöru fréttamiðlum

Bestu kveðjur,

Aug 31, 2007

Umhverfisfræðsla

Til að gefa ykkur mynd af því við hvaða aðstæður við búum þá fer hér á eftir smá fræðsla um okkar nánasta umhverfi! Varúð: Þeir sem ekki hafa áhuga á umhverfisfræðslu ættu að sleppa því að lesa pistilinn til að forðast leiðindi.

Við búum í rólegum botnlanga með nokkrum parhúsum, öllum eins! Draumur Jóels Kristins um að búa í múrsteinahúsi hefur nú ræst.



Þessa mynd tók Helgi Kristinn í kynningarferð sinni um hverfið í júlí, s.s. áður en við fluttum inn

Í okkar annars litla botnlanga búa sex íslenskar fjölskyldur með samtals 13 (bráðum 14) börn á aldrinum 1 - 9 ára - hér sé fjör!


Það vill svo skemmtilega til að fjölskyldurnar eru allar með afbrigðum góðir nágrannar svo við erum hér í góðum málum, vægast sagt.

Auk þess sem börnin leika sér frjáls í götunni er hér hinn fínasti róló, skógur og flottur fótboltavöllur, sem sagt mjög barnvænt. Tilvalið er að skreppa í göngutúr, hjólatúr eða út að hlaupa þar sem engi, akrar, vötn og svoleiðis náttúruperlur eru hér í nánasta nágrenni!
Staðsetningin er mjög góð, passlegur göngutúr eða örstuttur bíltúr á leikskólann en á sömu lóð og og leikskólinn er hverfisbúðin. 10 - 15 mínútna akstur niður í miðbæ Århus og í skólana. Litlu lengra á ströndina og í Bambaskóginn!

Íbúðin er bara ljómandi fín, 3 svefnherbergi og bað á efri hæð en eldhús og stofa niðri. Lítill garður þar sem húsbóndinn grillar á nýja grillinu sínu (okkar) nánast daglega.
Jæja þá eruð þið kannski einhverju fróðari um okkar nánasta umhverfi. Miklu betra er samt bara að kíkja bara í heimsókn og sjá með eigin augum!
Bestu kveðjur,

Aug 29, 2007

Skólapláss í höfn!

Jæja, þá er húsmóðirin á heimilinu loksins búin að fá inngöngu í DPU í mastersnám í kennslufræðum með áherslu á stærðfræði.
Bréfið kom nú ekki alveg beina leið hingað í hús, var sent úr skólanum en pósturinn endursendi þeim bréfið aftur til að kvelja húsmóðurina aðeins lengur með biðinni en í dag þóknaðist þeim að afhenda bréfið.
Það er svo skemmtilegt frá því að segja að í bréfinu koma fram alls konar dagsetningar. Láta vita af þessu fyrir 13. ágúst og hinu fyrir 15. ágúst. Svo var ég boðin velkomin á nýnemakynningu hér í Árósum 21. - 23. ágúst en það er víst flókið að fara eftir öllu þessu þegar maður fær bréfið 29. ágúst.
Allavegana, fer til Kaupmannahafnar á kynningu á mánudaginn og á svo að fara í tvo fyrirlestra, þar sem fögin, námsmatið, og fyrirkomulag annarinnar er kynnt á þriðjudag. Það er bara einn galli að annar tíminn er frá 10 - 14 hér í Árósum en hinn kl. 13 - 17 í Kaupmannahöfn! Gæti orðið nokkuð flókið!
Bestu kveðjur,
Lóa Björk

Aug 28, 2007

Heimildamyndir

Þessa sebrahesta hittum við í Löveparken.
Hérna erum við í Bambaskóginum. Bambarnir eru alveg vitlausir í gulrætur
Fannar Ingi var fljótur að ná rússíbanatöktunum. Myndin er úr Djurs Sommerland.
Jóel Kristinn er búinn að kaupa sér bíl....... Þarna er hann að koma af ströndinni hér í Árósum.
Þessi vinur okkar á heima í Álaborg, fórum að heimsækja hann um daginn.
Hver veit nema við skellum inn fleiri myndum fljótlega,
Bestu kveðjur,

Aug 27, 2007

Vika 2 - sögustund

Þegar vika tvö hófst vorum við komin með búslóðina okkar en þar sem veðrið var svooo gott gekk nú hægt að koma innihaldi kassanna á rétta staði. Við ákváðum að vera ekkert að stressa okkur á þessu og skruppum frekar á ströndina og svoleiðis lúxuslíf sem maður er ekki vanur heima á Íslandi.
Einn daginn skruppum við svo til Þýskalands í innkaupaferð! Jamms, við höfðum heyrt svo ótrúlegar sögur um hvað hægt væri að versla ódýran bjór, Coke light og fleiri nauðsynjavörur á landamærunum að við urðum bara að prófa sjálf. Við sem sagt keyrðum 1 1/2 - 2 tíma til Flensburg þar sem við eyddum deginum á frábærri strönd og versluðum svo ca. hálft skott á stórum VW Touran af "nauðsynjavörum" fyrir skid og ingenting. Ef einhver hefur áhuga á nánari útlistingum á innihaldi og verði þá er bara að senda okkur mail - maður veit aldrei nema viðkvæmar sálir eða gamlir nemendur lesi bloggið!!!!
Á sunnudegi skruppum við Álaborgar í dýragarðinn sem er þar. Við erum nefnilega með árskort í dýragarðana og maður verður nú að nota það........ Garðurinn alveg frábær allt öðruvísi en Löveparken sem við fórum í vikunni á undan. Við t.d. fylgdumst með tígrisdýri éta kjötstykki bara í u.þ.b tveggja metra fjarlægð en það var alveg magnað. Aparnir og fílarnir í garðinum voru líka ótrúlega skemmtilegir að fylgjast með........ og allt hitt líka, auðvitað.
Hápunktur viku 2 var nú samt Legoland. Jóel Kristinn og Fannar Ingi voru í skýjunum allan daginn, skemmtu sér frábærlega. Við nýttum hverja mínútu í garðinum og vorum með þeim allra síðustu út úr garðinum kl. 20 um kvöldið. Strákarnir fara báðir í öll tæki sem ekki eru með hæðatakmarkanir. Fannar Ingi er meira að segja farinn að skella höndunum upp í loft í rússibönunum - bara svona eins og vanur maður og Jóel Kristinn er búinn að fara í einn stærsta rússíbanann í Legolandi.
Nú eftir tveggja vikna dvöl var svo kominn tími til að skila bílaleigubílnum góða sem við höfðum notað alveg ótrúlega vel þessa daga. Gamla góða Mazdan samt væntanleg í viku 3.
Bestu kveðjur

Aug 26, 2007

Skólamál

Skólamál okkar fjölskyldunnar hér í DK eru alveg sér kapituli út af fyrir sig.
Jóel Kristinn og Fannar Ingi eru nú reyndar í góðum málum. Fengu pláss á Gröften frá 16. ágúst og þar er nú aldeilis fjör! Hmmm.... Þetta er nú ekkert eins og á Grænatúni, ég ætla ekkert að segja að þetta sé neitt verra en bara dálítið mikið öðruvísi!!! Tvö nestisbox fyrir hvorn dreng, fimm daga vikunnar eða u.þ.b. 44 nestisbox á mánuði. Maður skyldi nú ætla að við ættum að vera orðin nokkuð fær í nestispökkum eftir árin hér!!!!!!! Nú, á leikskólanum þrammar fólk um á skónum inn og út, hvernig sem viðrar en samt eru börnin á sokkunum innandyra - við erum alveg að fara að kaupa inniskó! Á fyrsta degi var pedagóginn (leikskólakennarinn) að útskýra fyrir okkur gang mála og spurðum við m.a. út í nestismálin. Jú svona yfir sumarið þá borða börnin nestið svona u.þ.b þegar þau eru svöng! Jú, jú það er einmitt það, okkur varð bara litið á Fannar Inga mállausan á leikskóla í Danmörku takandi ákvörðun um það að nú væri einmitt rétti tíminn til að fá sér hádegismat! Hehe, en þó að hlutirnir séu öðruvísi en við erum vön þá virkar þetta allt einhvern veginn og börnin, sem og starfsfólkið er bara glatt og ánægt. Fannar Ingi hefur nú samt staðið fyrir gráti og mótmælum alla morgnana en það er að ganga yfir....... gekk til dæmis nokkuð vel á föstudaginn.
Nú Helgi Kristinn sem byrjaði á því að fá neitun í skólann sinn á forsendum sem ekki stóðust hefur sannað að fall er fararheill því hann endaði með aðgang að þremur skólum og byrjar í Handelhöjskolen á mánudag. Þá eru fjórir kynningardagar þar sem nemendur eru beðnir um að taka frá tímann frá 09:00 - 02:00 eða 17 klst á sólarhring í 4 daga! Það á nú alveg eftir að koma í ljós hvernig það þróast. Helgi er einnig að vinna í því að fá einingarnar úr HA metnar í nýja skólanum. Það á eftir að koma í ljós hvernig það fer þar sem einingfjöldi á bak við sambærilega kúrsa passar ekki alltaf nógu vel saman.
Lóa Björk er enn sem komið er bara á sólarhringsvakt við póstkassa heimilisins. Upphaflega kom ekkert svar frá skólanum, sem við töldum vera vegna flutninganna. Þegar vika var liðin frá því að svar átti að berast sendum við Email til skólans en því var heldur ekki svarað. Þegar samband náðist við skólann í síma fannst bara engin Lóa Björk á skrá! Þar sem umsóknin var send í ábyrgðarpósti neiddist konan í símanum til að láta undan og fara að leita að umsókninni sem þeim barst 22. júní sl. Þá kom svar um að það vantaði eitthvað Exam-paper til að hægt væri að taka umsóknina fyrir og þar sem að í Kennaraháskólanum er endalaus hjálpsemi var gengið í málin og fékk ég umbeðið plagg sent frá KHÍ hið snarasta og sendi það áfram til skólans hér úti sl. miðvikudag. Nú er bara beðið við póstkassann þar sem fyrirspurnum um inngöngu er ekki svara í gegnum síma eða tölvupóst......... ég verð nú að viðurkenna að áhuginn á skólanum er ekkert í hámarki í augnablikinu en þetta er vonandi bara tilfallandi hmmmmmm.
Jæja nóg um skólamál fjölskyldunnar
Bestu kveðjur

Fyrstu dagarnir

Við lentum hér í DK þann 1. ágúst. Til að byrja með vorum við bara með smávegis af fötum, sængur, svefnsófa og eina dýnu en við brunuðum beint í IKEA fyrsta daginn til að redda okkur einhverju til að sofa á. Þetta var nú ekkert mál því um leið og við mættum á svæðið tóku á móti okkur nýju nágrannarnir sem allir voru boðnir og búnir til að lána það sem til þurfti.
Fyrstu dagana vorum við bara eins og hinir túristarnir. Þar sem við fengum endalausa sól og blíðu fyrstu dagana fórum við á ströndina, í Bambaskóginn, Löveparken sem er æðislegur dýragarður og fleira skemmtilegt.
Við skelltum okkur líka til Skanderborg í heimsókn til Hálfdáns og Erlu sem búa þar í frábæru húsi í algeru krummaskuði, ótrúlega gaman að koma þangað. Saman skelltum við okkur svo í Djurs sommerland sem er einn af skemmtigörðunum hérna á Jótlandi. Ekki hægt að kvarta undan lífinu þessa dagana!!!
Gáminn með búslóðinni og öllu hinu sem ekki tókst að henda heima á Íslandi fengum við svo á sjötta degi. Það var nú ansi gott að fá nýju rúmin okkar og geta farið að elda og lifa svona smá heimilislífi. En ótrúlegt hvað við eigum mikið af drasli! Sem betur fer er geymsluloft yfir efri hæðinni hérna, annars veit ég ekki hvernig við færum að. Samt vil ég taka það fram að við fórum 7 ferðir á troðfullum station-bílnum okkar á Sorpu og bættum svo við 8. ferðinni á sendiferðabíl þannig að ég skil ekki magnið sem kom með gámnum hingað til DK.
Jæja, þetta var nú styttri útgáfan af fyrstu vikunni okkar.
Frekari upplýsingar um gang mála væntanlegar mjöööög fljótlega.
Bestu kveðjur

Aug 25, 2007

Nýtt blogg

Jæja jæja jæja,
Við höfum lofað mörgum að það verði hægt að fá einhverjar fréttir af okkur fjölskyldunni hér á netinu. Nú þegar þriggja vikna bið eftir internetinu er lokið (já það tók danska tæknimanninn þrjár vikur að mæta á svæðið til að ýta á ON og hleypa okkur þar með inn á netið!) og fjölskyldan komin í samband við umheiminn er best að standa við gefin loforð og setja upp smá síðu.

Á næstu dögum eru væntanlegar fréttir af fyrstu vikunum okkar hér á Íslendingaslóðum í Beykiskóginum.

Bestu kveðjur,
Fjölskyldan